Á dögunum fór fram fyrsti formlegi fundurinn í tengslum við gerð nýrrar sóknaráætlunar og sviðsmynda atvinnulífs Norðurlands vestra.

Fyrri hluta dags fundaði verkefnisstjórn vinnunnar en hana skipa stjórn SSNV, fulltrúar þeirra sveitarfélaga sem ekki eiga mann í stjórn sem og starfsmenn samtakanna. Síðari hluta dags bættust við aðilar úr atvinnulífinu. Á fundinum var farið yfir fyrstu niðurstöður netkönnunar sem gerð var í tengslum við vinnuna og verða nánar kynntar með haustinu.

Niðurstöður könnunarinnar gefa til kynna bjartsýni íbúa í landshlutanum sem gefur góðan tón inn í þá vinnu sem framundan er við gerð nýrrar sóknaráætlunar. Einnig settu fundarmenn sig inn í framtíðina og skoðuðu hvernig atvinnulíf í landshlutanum gæti mögulega litið út á árinu 2040. Var vinnan leidd af ráðgjöfum KPMG en samið var við þá um að vinna að gerð sóknaráætllunar áranna 2020-2024 með SSNV.

Á næstu vikum munu ráðgjafar KPMG svo vinna úr niðurstöðum vinnu fundanna. Með haustinu verður boðað til fleiri funda sem opnir verða öllum sem áhuga hafa á að taka þátt í vinnunni. Verður bæði fundað með smærri hópum en endað á stórum samráðsfundi sem opinn er öllum íbúum landshlutans. Rík áhersla er lögð á samráð með ýmsum hætti t.d. með  rafrænum samráðsvettvangi þar sem íbúar geta skráð sig. Þeir sem þar verða skráðir munu í ferlinu fá tækifæri til að hafa áhrif á vinnuna við gerð áætlunarinnar og sviðsmyndanna en einnig á framkvæmdina á samingstíma nýrrar sóknaráætlunar með stuttum könnunum, beiðnum um hugmyndir að áhugaverðum verkefnum o.fl. Einnig verður sóknaráætlunin sjálf birt til samráðs á heimasíðu samtakanna áður en hún verður lögð fyrir haustþing til samþykktar.

 

Rafræni samráðsvettvangurinn hefur nú verið opnaður og eru áhugasamir íbúar á Norðurlandi vestra hvattir til að skrá sig og taka þannig þátt í að móta framtíð Norðurlands vestra. Skráning fer fram hér: http://eepurl.com/gvFMxT

Af ssnv.is