„Taste the Arctic Coast Way“ er vinnuheiti á spennandi verkefni þar sem áhersla er lögð á að gefa gestum Norðurstrandarleiðar tækifæri til að njóta matar úr héraði (staðbundinna matvæla/local food) sem er framleiddur í hæsta gæðaflokki. Til að mæta væntingum gesta um matarupplifunar úr héraði er það markmið verkefnisins að styrkja fyrirtæki og framleiðendur á svæðinu með áherslu á staðbundin matvæli/hráefni, ýta undir árstíðabundnar áherslur í matargerð og auka sjálfbærni.

Norðurstrandarleið nýtur nú mikillar athygli í fjölmiðlum bæði innan lands sem utan. Hvernig er hægt að hagnýta þessa athygli með því að bjóða fram mat úr héraði og reyna þannig að hvetja ferðamenn til að sækja okkur heim? Matur úr héraði spilar lykilhlutverk þegar kemur að því að auka gæði og styðja við einstakar upplifanir á Norðurstrandarleið.

Garðar Kári Garðarsson, yfirmatreiðslumeistari hjá Eleven Experience – Deplar Farm í Fljótum styður við verkefnið sem leiðbeinandi en hefur hann mikla ástríðu og reynslu í því að nýta og bjóða uppá staðbundin matvæli og hráefni í samstarfi við framleiðendur á svæðinu.  

Á vinnustofunum verður lögð áhersla á að þróa gagnlegt efni sem fyrirtæki geta hagnýtt sér í sínum rekstri. Eftirtalin áhersluatriði verða rædd á vinnustofum:

  • Gerð bæklings um staðbundin matvæli og framleiðendur á þínu svæði
  • Tengslamyndun veitingastaða, framleiðenda og ferðaskipuleggjenda/ferðaskrifstofa
  • Hvernig eigi að nota staðbundin og árstíðabundin hráefni
  • Hvernig sé hægt að taka þátt í verkefninu „Taste the Arctic Coast Way“
  • Hvernig eigi að markaðssetja staðbundin matvæli og hvaða sögu skuli segja
  • Hvernig á að skapa matarupplifun?
  • Hvað er matarvegabréf Norðurstrandarleiðar og hvernig er hægt að taka þátt?

Vinnustofurnar miða að því að styrkja samstarf milli framleiðenda og þeirra sem selja veitingar/matvæli á Norðurstrandarleiðinni. Á meðan veitingastaðir og kaffihús verða að vera meðlimir Norðurstrandarleiðarinnar geta framleiðendur verið staðsettir hvar sem er á Norðurlandi.

Matarauður Íslands styður við verkefnið ásamt Nýsköpunarmiðstöð Íslands.

Vinnustofurnar eru ætlaðar eigendum veitingastaða og kaffihúsa, matreiðslufólki og framleiðendum matvæla og verða á eftirfarandi dögum á sex stöðum á Norðurstrandarleið:

18. mars, 15-18: Brimslóð Atelier Guesthouse, Blönduós
19. mars, 15-18: Jarlsstofa, Hótel Tindastóll, Sauðárkróki
25. mars, 15-18: Menningarhúsið Berg, Dalvík
26. mars, 15-18: Rósenborg, Akureyri
7. apríl, 15-18: Ytra Lón, Þórshöfn
8. apríl, 15-18: Tungulending, Húsavík

Smelltu hér til að skrá þig.