Neytendasamtökin sendu frá sér frétt þar sem segir að óprúttnir aðilar hafa því miður nýtt sér óvissuástand í kjölfar Kórónuveirufaraldursins og mörg dæmi eru um rangar fullyrðingar um að ákveðin vara eða þjónusta eigi að koma í veg fyrir smit eða jafnvel lækna CoViD-19.
Neytendasamtök víða um Evrópu glíma við slíka starfsemi og hafa tekið saman höndum um að taka hart á slíku. Evrópusamtök neytenda (BEUC) hafa sérstaklega varað við tvennskonar svindli á neytendum. Annars vegar er um að ræða órökstuddar staðhæfingar um vörur sem eiga að hindra eða lækna COVID-19 og hins vegar ranga upplýsingagjöf um væntanlegan vöruskort og hækkað verð í því skyni að þrýsta á neytendur að versla. Neytendasamtökin eru á varðbergi og hvetja fólk að hafa augun hjá sér nú sem endranær.
Borið hefur á því að framleiðendur haldi því fram, beint eða óbeint, að vara hindri smit eða hjálpi til við bata án þess að það sé stutt vísindalegum gögnum. Í sumum tilfellum er jafnvel gengið gegn ráðleggingum sérfræðinga um hvernig koma eigi í veg fyrir smit eða ná bata. Jafnvel þó fullyrðingarnar séu settar fram í góðri trú, er óheimilt að fullyrða nokkuð um virkni nema að hægt sé að sýna fram á hana með vísindalegum gögnum.
Þá hafa seljendur gerst uppvísir af því að afvegaleiða neytendur með því að gefa í skyn að vöruskortur sé yfirvofandi. Jafnframt erum dæmi um að seljendur nýti sér ástandið og hækki vöruverð.
Verði neytendur þess áskynja að seljendur eða framleiðendur setji fram órökstuddar staðhæfingar eða rangar upplýsingar skal tilkynna Neytendastofu um það hér.
Þá hvetja Neytendasamtökin neytendur að gera Samkeppniseftirlitinu viðvart um allar vísbendingar um óeðlilegar verðhækkanir eða okur á vörum og þjónustu hér.
Mynd: Neytendasamtökin