Akureyrarbær fékk úthlutað styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða 2023, 27 m. kr. fyrir verkefnið: Hrísey – greið leið um fornar slóðir.

Þessi styrkur er ætlaður í Rauðu gönguleiðina og hér með fylgir verklýsing.

Rauða leiðin í Hrísey er um 3200 m að lengd. Hún tengist inn á grænu leiðina sem nú þegar hefur verið löguð, með áningarstað við Háborðið, fyrir tilstilli styrks frá Framkvæmdasjóð ferðamannastaða.

Rauða leiðin er m.a. áhugaverð hvað varðar sögu og náttúrufyrirbrigða, þar má sjá leifar af bænum Hvatastöðum sem talinn er með fyrstu búsetustöðum landnámsmanna í Eyjafirði, á leiðinni eru einnig sérstakar klettamyndanir, til að mynda Borgarbrík.

Verkefnið felst í því að laga leiðina sem fylgir fyrst og fremst „kindagötum“ sem á pörtum er orðin mjög hættuleg þar sem sjórinn hefur grafið undan bökkunum. Stefnt er á að gera 1.2 metra breiðan stíg með salla, færa hann þar sem þess er þörf lengra frá ströndinni, huga að öryggismálum og bæta aðgengi fyrir bæði gangandi og hjólandi.

Setja þarf upp lágar girðingar til að hindra fólk frá að ganga inn á viðkvæma eða hættulega staði og búa til nokkra áningarstaði þ.e. með bekkjum og/eða upplýsingum/skiltum.

Þeir staðir eru skógarreiturinn uppi á hálsinum, Borgarbríkin, Hvatastaði, Stóra og litla bola (klettar).Setja upp 2 bekki á leiðinni og einn sjálfu-ramma – t.d. ramma inn Látraströndina, með ramma sem er merktur Hrísey og gagnast þannig einnig sem „auglýsing fyrir staðinn“. Setja merkingar við gatnamót, vegvísa sem vísa af grænu leiðinni inn á þá rauðu á tveim stöðum með km tölu og einnig skilti með kort af svæðinu.