Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að veita samtals 130 milljónir króna af fjárlögum þessa árs til að styrkja mönnun í heimahjúkrun og auka þjónustuna, meðal annars með stuðningi við áform um að hagnýta velferðartækni í meira mæli. Auknir fjármunir renna til heilbrigðisumdæmis höfuðborgarsvæðisins og Heilbrigðisstofnunar Norðurlands.

Heilbrigðisþjónusta við aldaraða er eitt af átta skilgreindum áhersluatriðum heilbrigðisráðherra og enn fremur er sérstök áhersla lögð á heilsuvernd aldraðra í fjárlagafrumvarpi næsta árs.

Þrátt fyrir umtalsverða fjölgun hjúkrunarrýma á höfuðborgarsvæðinu og áframhaldandi uppbyggingu á landsvísu samkvæmt framkvæmdaáætlun heilbrigðisráðherra til ársins 2024 er fyrirsjáanlegt að fleira þarf að koma til.
Öldruðum fjölgar og mikilvægt er að mæta vaxandi þjónustuþörf með fjölbreyttum úrræðum og aukinni áherslu á þjónustu við fólk í heimahúsum. Því er nauðsynlegt að fjölga starfsfólki sem sinnir heimahjúkrun, efla þverfaglega teymisvinnu og leggja rækt við skipulagða heilsuvernd aldraðra“ segir Svandís Svavarsdóttir.

Mönnun hjúkrunarfræðinga hefur verið viðvarandi vandamál því er mikilvægt að horfa til þess hvernig nýta megi starfskrafta þeirra sem best. Í heimahjúkrun hefur þar m.a. verið horft til velferðartækni eins og skjáheimsókna og lyfjaskammtara.
Framsýni þeirra sem eru í forsvari og samstarf milli stofnanna í þróun þjónustunnar er þar mikilvæg.

Heimahjúkrun á höfuðborgarsvæðinu
Samkvæmt ákvörðun heilbrigðisráðherra verður 117 milljónum króna skipt hlutfallslega á milli Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Heimaþjónustu Reykjavíkur, miðað við umfang þjónustu heimahjúkrunar á hvorum stað. Ráðherra hefur falið Sjúkratryggingum Íslands að gera viðauka við gildandi samning Heimaþjónustu Reykjavíkur upp á 81 milljón króna. Markmið samningsins verður að efla heimahjúkrun, fjölga fagstéttum og þróa nýtt verklag með áherslu á velferðartækni til að nýta sem best starfskrafta heilbrigðisstarfsfólks.
Aukin framlög til Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins nema 36 milljónum króna.

Heimahjúkrun á Akureyri
Aukið framlag til Heilbrigðisstofnunar Norðurlands nemur 13 milljónum króna og er ætlað til að mæta auknu og vaxandi álagi í heimahjúkrun á Akureyri. Til marks um aukið álag hefur fjöldi samskipta við notendur heimahjúkrunar aukist um 23% á árunum 2016 – 2018.
Þróunin hefur jafnframt verið sú að fólkið sem fær þjónustu er eldra og veikara en áður og þörfin fyrir sérhæfða þjónustu eykst að sama skapi.

 

Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðs Íslands.
Mynd: pixabay