Á pari við Íslendingasögurnar. *Le Monde…

… stendur á bókarkápu 60 kg af Sunnudögum og eru þessi orð sönn og góð ritdóms kveðja frá Frakklandi og kvittun fyrir því að jafnvel hugsandi útlendingar sjá það stóra í þessari sögu. Hér kemur heill hellingur af viðbótar hyllingar orðum og bókalestrar hugsunum, frá þakklátum Sænskum síldarsögu Siglfirðingi.

Í þessu hugleiðingum mínum eftir lestur á 3 x 60 kg af Segulfjarðar sögum Hallgríms Helgasonar er ekki hægt að eingöngu fjalla um lokakafla þessara miklu og stórfenglegu sögu, “60 kg af Sunnudögum”, því nú verður maður einnig að kíkja til baka og ná endum saman frá A-Ö. Þar af birtist þessi myndskreytti pistill í tveimur jöfnum hlutum, tvo sunnudaga í röð og er því þriggja bóka langur.

ATH. Það skal tekið fram að öll orð og lestrar-upplifunar-lýsingar, sem og sögulegar samfélags skoðanir, sem þú lest hér, er mín eigin túlkun og samantekt, yfir þá upplifun sem lestur bókana skilur persónulega eftir í mér.
Margt og mikið er eflaust litað af þeirri staðreynd, að ég er fæddur og uppalin í sögu umhverfinu sem rithöfundurinn Hallgrímur fær að láni, sem umgjörð í sína stórbrotnu skáldsögu.

Hún fær frá mér: ⭐️ ⭐️ ⭐️ ⭐️ ⭐️ 5 stjörnur af 5 mögulegum.

Einhverjir pistla lesendur gætu samt sagt: Hvað, af hverju ertu að skrifa þetta núna, jólabókaflóðið löngu búið… Tja, ég fékk vissulega síðustu bókina í hendurnar á Jóladag í Hafnarfirði og ég byrjaði að lesa af mikilli áfergju.
Samtímis var ég sjálfur, að ýta úr vör birtingu, á þriggja greina seríu um “Síldarkónginn Jacobsen” og svo datt ég alveg óvart inn í skrif og hugsanir um “Leyndarmálið í Leyningi,” merkilega Siglufjarðarsögu sem ég fékk óvænt frá góðri flóttamanna fræknu frá Grindavík í kaffi og Hnallþóruboði í Garðabæ milli jóla og nýárs.

Kannski var ég líka að leita að ástæðu til að draga þennan draumalestur á langinn, því ég vil helst ekki að þessi magnaða saga taki enda. Það er nú samt leyfilegt, að lesa góðar bækur allan ársins hring.

Held nú samt að höfundur Íslands, Siglfirðingurinn Hallgrímur Helgason, (já hann varð Siglfirðingur daginn sem hann kom fyrst í bæinn, rétt eins og allir aðrir) geti auðveldlega skilið og fyrirgefið mér að þessi jólabókaflóðs orð séu sett saman í vorbirtu í byrjun apríl úti í Svíþjóð. Hann hefur líklega sjálfur, oft verið tíndur og tröllum gefin, í lestri og grúski í öllum þeim Segulfjarðar hliðarsporasögum sem hann fann heima á Sigló.

Því Siglfirskur raunveruleiki og alvöru brauðstrits sögur fátæks almennings, slær út skáldaðar bull ævisögur stórmenna, sem töldu sig og sína vera þá sem skrifuðu og sköpuðu hina einu sönnu og réttu mannkynssögu Íslands á síðustu öld.

Í þremur bindum, á rúmlega 1500 blaðsíðum, leiðréttir stórskáldið Hallgrímur, þessa stórborgaralegu heimsku, í eitt skipti fyrir öll. Því þetta er ekki bara saga bæjar, heldur líka sagan um hvernig heil þjóð komst loksins úr torfbæjum sínum í bárujárnsklædd timburhús og þaðan inn í steinsteypuhús með innbyggðri hitaveitu og rafmagns vöfflujárnum, með tilheyrandi innfluttri jarðarberjasultu og íslenskum rjóma.

Því staðreyndin er að það voru réttlætis hugmyndir og barátta verkafólks á lítilli iðnaðar eyri, lengst norður í rassgati, sem lagði grunninn að þeirri velferð sem við búum við í dag.

Því brauðstritið og lífsbaráttan á akkúrat þessari EYRI, rann síðan eins og snjóflóð yfir Íslensk fjöll, firði og dali.

Gestur í sinni eigin og annarra manna sögum!

Aðalpersónan Gestur Hvers-son? og hans oft á tíðum auma líf, leiðir okkur lesendur í gegnu þriggja binda stórbrotna sögu, sem í rauninni fjallar um mann sem löngum stundum er villtur í sinni síldarævintýralegu lífs þoku og umhverfi, á miklu þjóðar umbrota tímabili. Gestur er persónugervingur hin nýja komandi Íslenska anda, en þessi séríslenski vin- óvins- eða vín-andi er vandfundinn.

Gestur er kynntur til sögunnar sem aumur móðurlaus tveggja ára drengur, neyðarástands ættleiddur af horaðri kú og hennar heita móðurmjólk bjargaði lífi hans, þegar snjóþungi og kuldi tilverunnar á Segulfirði hrundi yfir hann… í fyrsta skiptið.

Hann lifir í stanslausri óvissum um hvaðan hann kemur og þess vegna veit hann lengi vel ekki hvert hann er að fara… og hann fer svo sannarlega með okkur lesendur um víða veröld og völl.

Hin ungi Gestur er mjög svo mannlegur, því hann ræður oft á tíðum illa við sínar eigin tilfinningar…. og sinn eigin böll. Hann er seinþroska eins og flestir aðrir íslenskir karlmenn, hugsar oft meira með holdinu en hausnum.

Gestur er oft ósjálfbjarga gestur í sínu eigin lífi, sem og í lífi jafnt ríkisbubba sem sárafátækrar dreymandi alþýðu.
Í gegnum hann fáum við að kynnast bæði fallegu mannlegu eðli og viðbjóðslegu óeðli. Í ótal mörgum skúmaskots sögum, sem margar hverjar koma úr sönnum Segulfjarðarsögum. Sumar sögur hafa svo sem verið sagðar áður… en ekki á þennan hispurslausa “In your Face” máta.

Sögurnar sitja í manni eins og sigð og dixíll, á blóðlituðum alþýðufána Íslands. Maður skilur við söguna með saltsár og þakklæti í sálinni…

Loksins, loksins eru aftur, sett rétt orð á blóð, svita og tárasögu íslenskrar alþýðu.

Íslensk kjötsúpa og þrjár þjóðir?

Austur- Vestur og Segulfjarðar Íslendingar

Það skal öllum vera ljóst að þessi mikla saga er þroskasaga þjóðar og í rauninni mikil söguleg samfélagsádeila, en hún er svo skemmtilega fræðandi og spennandi uppsett, að sem lesandi gleymir maður þessu atriði.

Það var óvænt að þriðja bindið byrjar á því að okkar maður, gerist tímabundinn Vesturfari, fer til Nýja Íslands í leit að sáttum við sinn óljósa uppruna.

Þetta er snilldar leikflétta hjá höfundi á taflborði sögunnar, því hér fáum við samanburð í fyrsta skiptið í sögu þjóðarinnar. Hvað gerist í Molbúa hugsunarhætti landans, þegar hann fær að verða frjáls landnámsmaður aftur?

Ráða einhverju sjálfur um sín eigin örlög, líf og skáldskap í nýju landi? Þetta er mjög svo merkilegur og góður kafli í sögunni. Sjálfur er ég þannig gerður, að hér tók ég aftur góða lestrarpásu, vildi vita meira um hvaða umhverfi Gestur var gestur í og horfði mér til fræðslu og ánægju á 10 Vesturfaraþætti sem Egill Helgason setti snilldarlega saman, snemma á þessari öld.

Síðan hendir höfundur okkur og aumingja Gest aftur inn í Segulfjarðarsöguna kringum 1920 og þar er ekki bara verið að sjóða síld í verksmiðjum, með tilheyrandi peningalykt. Þangað er nú einnig komin ný útlensk uppskrift, hér á að sjóða nýja útgáfu af íslenskri hugsjóna kjötsúpu, í pólitískum potti og það síður oft upp úr…

Hér myndast nýtt Íslenskt þjóðarbrot úr allskyns aðfluttum Molbúum dala og fjarða, í góðri blöndu við allra þjóða kvikindi. Segulfjarðingar sameinast í fátæktinni og rífa kjaft og sjálfan sig og aðra upp úr sárri fátækt.

Sumir sem fæddust í torfbæ, ganga svo langt í þessu að þeir flytja úr timburhúsum í steinsteyptar hallir og var það ekki vel séð af sumum, sem töldu sig og sína hafa einkarétt á slíkum lífsgæðum.

Þriðja þjóðarbrotið, original Austur-Íslendingar, sem hvorki þorðu að flytja í Vesturheim eða norður í ósómann í Segulfirði, sitja öfundsjúkir eftir, andlega horaðir í torfbæjar hreysum, en slíkt hegðun er meðfæddur fæðingargalli, vel falinn í hunda húsbóndahollum genum þeirra.

Þetta er Íslenska þjóðarbrotið, sem fékk aldrei að endurhugsa afstöðu sína til lífsins og kýs þar af leiðandi, yfir sig sama skítinn aftur og aftur af gamalli þjóðlegri hefð.

Þjóðarsálin!

Í litlu landi, eyju út á ballarhafi, er oft erfitt og ekki öllum leyfilegt að setja sönn eða skálduð orð á eðli og uppruna hugsunargangs heillar þjóðar. Fólk vill frekar sameinast í að okkar svokallaða þjóðarstolt eigi sinn uppruna í hetjusögum Víkingatímans. 🧐 Hmm…Gerplubók nóbelssskáldsins, er samt enn fyndnasta karlrembu hetjusaga Íslands!

Það truflar suma og reitir til reiði þegar stórskáld eins Hallgrímur Helgason og önnur “Nóbelsskáld” skrifa bækur sem benda meira á allt það volæði og alla þá fátækt og fáfræðisúpu sem þetta svokallaða þjóðarstolt er mauksoðið úr, í hálflélegri falskri íslenskri kjötsúpu. Í súpunni er svo sem fullt af ólseigu kjöti á beini, en svo er fyllt upp í og bragðbætt með bragðlausu sundurþurkuðu grænmeti, það vantar allt þetta ferska og nýræktaða í sögusúpuna. Samt er enginn skortur á fersku grænmeti í nútíma Íslands og sundursoðnar baunir í sykurleðjusósu í Oradós eru enn ómissandi með lambasteikinni.

Það eru þessir öfgar og þjóðar-þrjóska sem oft jaðrar við heimsku og andstæður í okkar sameiginlegu lyga molbúa sögu sem Hallgímur er að nota til að ögra okkur inn í hugsanir um okkar raunverulega mannlega eðli og uppruna.

Snilldin í þessu öllu er að höfundurinn teflir fram aðalpersónunni Gesti ,sem peði, riddara og dramadrottningu. Honum tekst að fá okkur til að leggjast svo lágt að skellihlæja að t.d. morðum, tvisvar… Svo réttlætum við hláturinn með því ganga í gildru Hallgríms, þar sem hann var búinn að sannfæra okkur svo innilega um að sá sem var drepinn, var svo mikill drullusokkur og aum útgáfa af mannskepnu, að það var bara hið mesta þarfaþing að einhver “ýtti” aðeins við þeim og hjálpaði þessari aumu sál við að lenda í sinni verðskulduðu gröf.

Fuss og svei, þó fyrr hefði verið…

Tveggja hæða löndunarbryggjur á Siglufirði. Ljósmyndari óþekktur.

2 hluti pistilsins nefnist: Sögulok: 3 x 60 kg af Seglósögum, mun birtast næsta sunnudag.

Siglufjörður
(Lag / texti: Bjarki Árnason)

Hér við íshaf byggð var borin
bærinn okkar, Siglufjörður,
inn í fjöllin skarpt var skorinn
skaparans af höndum gjörður.
Til að veita skjól frá skaða
skipunum á norðurslóðum,
sem að báru guma glaða
gull er fundu í hafsins sjóðum.

Hér er skjól og hér er ylur
hart þó ís að ströndum renni,
þó að hamlist hörkubylur
hlýju samt hið innra kenni.
Fólkið sem að byggir bæinn
bestu lofgjörð honum syngur
um að bæti öllum haginn
eitt, að vera Siglfirðingur.

[Af plötunni: Karlakórinn Vísir – Okkar glaða söngvamál,
Glatkistan.is]

Sjá meira hér um fyrri bækur sögunnar, en þar segir meðal annars:

Í upphafi var hákarl og síðan kom síld…..gerist ekki betra.

Siglfirsk þakklætiskveðja frá Útlandinu

&

TAKK FYRIR KJAFTSHÖGGIN HALLGRÍMUR!

Höfundur:
Jón Ólafur Björgvinsson .

Sjá meira Sigló söguefni, (yfir 170 greinar ofl. ) eftir sama höfund hér:
https://trolli.is/author/nonni/

ATH: Allar ljósmyndir eru birtar með leyfi frá einkaaðilum og Ljósmyndasafni Siglufjarðar. Margar af ljósmyndunum hafa birst áður í greina flokknum “Göngutúr um heimahaga” á sigló.is.

Sjá meira hér:

Göngutúr um heimahaga, 7 hluti, SIGLFIRSKT ! 80 myndir