Ólafsfirði 31. mars 2020
Bæjarstjórn Fjallabyggðar
Gránugötu 24
580 Siglufirði
Í aðdraganda síðustu bæjarstjórnakosninga var eins og oft vill verða farið af stað með hugmyndir og loforð um ýmis verkefni. Kosningaloforðum er jafnvel kastað fram af meiri ákefð en ígrundun og eru stundum illframkvæmanleg vegna kostnaðar eða þau ganga ekki saman með raunverulegri þörf þegar betur er að gáð.
Eitt af kosningaloforðunum sem nú eru á áætlun er uppbygging keppnisvallar með gervigrasi. Opinberlega hef ég ekki séð nein gögn um þetta verkefni, hvorki nákvæma kostnaðaráætlun, greiningu á þörfinni eða hvort aðrir raunhæfir kostir eru í stöðunni. Í samtali við fólk í sveitafélaginu hef ég heyrt að æ fleiri eru farnir að efast um réttmæti þess að fara í svo gríðarlega kostnaðarsama fjárfestingar fyrir tiltölulega fámennan hóp.
Í fjárhagsáætlun Fjallabyggðar vegna reksturs og framkvæmda fyrir árið 2020 kemur fram að sveitarfélagið stendur einkar vel fjárhagslega, sem ber að þakka. Það sem ég hinsvegar furða mig á er ógagnsæið við gerð fjárhagsáætlana, að það skuli vera hægt að leggja þær fram án þess að hvorki liggi fyrir framkvæmda- eða kostnaðaráætlanir. Það er svolítið eins og að reka puttann uppí vindin til að finna hvaðan vindurinn blæs.
Ég velti því einnig fyrir mér hvort bæjarstjórnin hafi haft jafnrétti að leiðarljósi þegar sú ákvörðun var tekin að setja mörg hundruð milljónir í gervigrasvöll? Ég veit til þess að víða um heim er verið að innleiða kynjaða hagstjórn, líka hér á Íslandi. Kynjuð hagsstjórn snýst ekki um að vera með sitthvora áætlunina fyrir kynin eða telja hversu miklum fjármunum er eytt í þau. Hún snýst heldur ekki um að eyrnamerkja fyrirfram ákveðna upphæð í jafnréttisverkefni heldur snýst hún um að beita jafnrétti þegar kemur að útgjöldum. Þá þurfa þeir sem taka ákvarðanir um einstaka útgjaldaliði að spyrja sig hvort hinn eða þessi útgjaldaliður muni hafa áhrif á jafnrétti eða hvort það muni auka misréttið? Mun fjárfesting í gervigrasvelli þjóna afmörkuðum hópi eða mun hún mismuna kynjum?
Í pólitík er gjarnan litið á það sem veikleika að skipta um skoðun að betra sé að standa við loforðin sama hvað, jafnvel þó ýmsir séu farnir að efast um að hugmyndin sé góð. Mér hefur aldrei þótt það minnkun að skipta um skoðun, þvert á móti þá þykir mér það merki um víðsýni að rýna skoðanir sínar og hugmyndir til gagns og meta stöðuna út frá því. Mér fynndist eðlilegt í ljósi alls að bæjarstjórn endurskoðaði þessa ákvörðun sína og kannaði aðra möguleika í stöðunni.
Í málefnasamningi meirihlutans er lögð áhersla á aukið íbúasamráð, þetta verkefni væri að mínu mati kjörið til þess. Það mætti t.d koma á fót hópavinnu þar sem ólíkum skoðunum er velt upp og aðrir kostir skoðaðir. En hingað til hefur ekkert samráð verið haft um málefni sveitarfélagsins, hvorki einstök verkefni né framtíðarstefnu þess. (Sveitastjórnarlög, X. kafli. Samráð við íbúa. -102. gr. Réttur íbúa til áhrifa á stjórn sveitarfélags.)
Að þessu sögðu þá óska ég eftir að fá svör við eftirfarandi spurningum varðandi íþróttavöllinn:
- Liggur fyrir greining á þörf fyrir keppnisvöll með gervigrasi?
- Var ákvörðunin um uppbyggingu gervigrasvallar tekin út frá kynjaðri fjárhagsáætlun?
- Liggur fyrir fullnægjandi kostnaðaráætlun vegna heildar framkvæmdarinnar?
- Hver er áætlaður árlegur rekstrarkostnaður eftir framkvæmdina?
- Hefur verið skoðað hvaða aðrir kostir eru í stöðunni og hver sá kostnaður mögulega væri þ.m.t. rekstrarkostnaður?
Virðingarfyllst
Valur Þór Hilmarsson
Kirkjuvegi 12
625 Ólafsfirði
Skjáskot/Fjallabyggð