ATH: Það skal tekið fram að allt innihald þessarar greinar eru persónulegar skoðanir greinarhöfundar og þau orð sem hér eru sögð eru ekki sjálfkrafa skoðanir forráðamanna bæjarmiðilsins Trölla.is sem tekur að sér birtingu í nafni höfundar.

Taktu hár úr hala mínum og ég legg svo til og mæli !

Hvað ?

Um hvað erum við að tala ?

 

Formáli:

Það er við hæfi að byrja með því að útskýra tilurð, innihald og titill þessarar greinaskrifa.

Lesendur trölla.is eru ekki allir fæddir í eða tengdir Fjallabyggð en geta örugglega þekkt sig í svipuðum lýðræðisvandamálum í sínum eigin heimahögum sem eru nefnd hér í þessari grein.

Þessi grein fjallar um alvarleg lýðræðis – vandamál af ýmsum toga í bæjarfélaginu Fjallabyggð sem auðvita geta líka gerst í mörgum öðrum minni bæjarfélögum og sumt getur svo sem alveg verið „LÖGLEGT“ en samt verið framkvæmt með siðlausum, einkennilegum og óréttlátum aðferðum.

„Á Bæjarlínunni“ er gamalt hugtak um það að fólk gat hér áður fyrr „hlerað“ einkasímtöl annarra á opnum símalínum bæjarins og síðan talaði fólk um þetta sín á milli í hálfum hljóðum og gat náttúrulega ekki sagt að þeirra túlkun á „sannleikanum“ hafi komið til þeirra gegnum hlerarnir og njósnastarfsemi.

Bæjarlínan er lokað símalínukerfi í dag, en er samt öllum opinn á annan hátt í dag gegnu nútíma samskiptatækni og félagsmiðla en samt er eins og það gildi sama gamla hræðsla við að segja sína skoðun og túlkun á sannleikanum eða ræða opinskátt um dagleg málefni sem fara á milli bæjarbúa.

Greinarhöfundur tekur kannski að sér að segja það sem margir hugsa en fáir þora að segja upphátt, hvað þá skrifa það niður og birta opinberlega.

Það getur jafnvel verið hættulegt að klikka á „LIKE“ og annað á Facebook eða skrifa „komment“  það gæti einhver verið er fylgjast með því líka og skrá það og notað það gegn þér seinna.

Hver veit ?

Svo koma líka upp spurningar um hvar og hvernig og í hvaða samhengi sé rétt að hafa skoðanaskipti á milli almennings/kjósenda og ráðamanna ?
Hvaða fjölmiðlar sinna þeim málum á landsbyggðinni í dag, ekki mikið að velja um, þess vegna birtist þessi grein hér á trölla.is og ég bendi ykkur aftur á orðin í upphafi greinarinnar.

Það er aðdáunarvert að Sjálfstæðisflokkurinn í Fjallabyggð hafa í vikunni tekið upp á þeirri nýjung að bjóða bæjarbúum að mæta á opna spjallfundi…. en af hverju bara einn flokkur ?
(Þessum spjallfundi var nú reyndar frestað vegna óviðráðanlegra orsaka. en gott framtak samt.)
En af hverju geta bæjarbúar ekki fengið að hitta ALLA kosna fulltrúa í bæjarstjórn, eða þá sem það kaus og treystir fyrir sínum málefnum hvort sem þeir eru í minnihluta eða meirihluta ?

En pólitíkusar eru svo sem heldur ekkert voða duglegir að bera sig eftir skoðunum kjósenda EFTIR kosningar heldur.

Það hefur líka lengi verið vandamál að kjósendur telja sig hafa sagt sitt í kosningum og síðan eru það kosnir fulltrúar þeirra sem eiga bara að redda málunum í 4 ár.
Svo sitjum við bara heima og nöldrum og oj-um okkur með óánægju svip og sendum ljót orð og reiða Emojsa gegnum Facebook.

ALLIR virðast eiga sannleikann í dag og það halda ALLIR að þeir séu ritstjórar með eigin „fréttasíðu” og þar er sannleikur dagsins birtur en þetta er sjaldan þeirra eigin skoðanir og orð, mest ávísun á orð annarra sem þeim líkar eða ekki.

Og enginn tekur það að sér eða þorir að rannsaka gerðir ráðamanna og spyrja óþægilegra spurninga úti á landsbyggðinni, allt sem er nægilega spennandi til að birtast í fjölmiðlum ÍSLANDS gerist á börum nálægt alþingishúsinu heilaga.

Þar fyrir utan virðist mér að mikið vanti uppá að eftirlitkerfi ríkisins fylgist með því hvort að bæjarfélög fylgi lögum eða ekki.

 

Friðardúfa á bæjarlínunni

Bæjarlínan og það sem um er rætt þar þarf ekkert endilega að vera sannleikur dagsins en ef maður leggur við hlustirnar þá tekur maður svolítið púlsinn á bænum.

“Baulaðu nú Búkolla mín…” er annar hlutinn í fyrirsögninni, lánað úr sögu sem við flest þekkjum. Karlsson bóndasonur er á flótta undan Tröllum á Tröllaskaga með beljuna sína góðu hana Búkollu og ef þú tekur hár úr hala hennar þá galdrar hún fram lausnir og „hindranir“ svo að tröllin nái þér ekki.

”Nú sér karlsson, að skessan muni strax ná sér, því hún var svo stórstíg. Þá segir hann: “Hvað eigum við nú að gera, Búkolla mín?” “Taktu hár úr hala mínum, og leggðu það á jörðina,” segir hún.
Síðan segir hún við hárið: “Legg ég á, og mæli ég um, að þú verðir að svo stóru fjalli, sem enginn kemst yfir nema fuglinn fljúgandi.”

Varð þá hárið að svo háu fjalli, að karlsson sá ekki nema upp í heiðan himininn. Þegar skessan kemur að fjallinu, segir hún: “Ekki skal þér þetta duga, strákur.
Sæktu stóra borjárnið hans föður míns, stelpa!” segir hún við minni skessuna.

Stelpan fer og kemur með borjárnið.
Borar þá skessan gat á fjallið, en varð of bráð á sér, þegar hún sá í gegn, og tróð sér inn í gatið, en það var of þröngt, svo hún stóð þar föst og varð loks að steini í gatinu, og þar er hún enn.

(Texti lánaður úr sögunni um Búkollu frá heimasíðunni snerpa.is: BÚKOLLA  –  II )

Já það er kannski tröllatappi í gatinu eða einhverskonar “samskiptatappi” sem hindrar að göngin sameini og styrki  okkur með betri samgöngum og VIÐ orðin fleiri og sterkari líka.

Gárungarnir á bæjarlínunni í bæði vesturbænum og austurbænum segja reyndar að þessi saga sé ekki sönn og að aðalvandamálið í Fjallabyggð í dag sé að það hafi sloppið sunnlenskt tröll í gegnum gatið og það tröll valdi nú miklum lýðræðis-vandræðum sem bæjarstarfsmaður í Fjallabyggð.

En eitthvað rámar mig samt í að alvöru fjölmiðlar hafi haft áhuga á þessu trölli þegar það bjó fyrir sunnan…..en það var nú kannski bara vegna þess að það eru svo lítil og ræfilsleg fjöll þar, erfitt fyrir stór tröll að fela sig bak við litla hóla.

En það er líka sagt að skáld skrifi skáldsögur til þess að þora að segja sannleikan…..en pólitíkusar og bankastjórar segi mest sögur til þess að dylja sannleikan.

 

Í upphafi var hákarl og síðan kom síld…gerist ekki betra. Dulnefni Siglufjarðar í þessari “Skáldsögu” er SEGULFJÖRÐUR.

 

Þriðja fyrirsögnin er „Um hvað erum við að tala“ snýst um mikilvægi þess að við séum ekki að miskilja hvort annað þegar við segjum ákveðinn orð eins og „Menningarmálefni“ og styrkjarveitingar til þeirra mála. Ef ég segi „Mjóólk á norðlensku og þú segir „mjolg“ á sunnlensku sem er allt í lagi, þetta er hvoru tveggja ágætis íslenska svo framarlega sem við erum sammála um að við séum að tala um mjólk og séum ekki að meina kókómjólk, skyr og róma sem eru vissulega mjólkurafurðir en samt ekki beinlínis mjólk.

Við þurfum að vanda okkur í samskiptamálunum.

Innihald greinarinnar hefur verið að þróast í huga greinarhöfundar síðustu 5-6 árinn og komist á flug eftir lestur greinaseríu Örlygs Kristfinnssonar sem birtust nýlega hér á trölli.is. Mæli eindregið með að lesendur gefi sér tíma í að lesa þessar greinar.

Sjá hér: Malbik og menning I – IV.

Það getur vel verið að ef stjórnendur bæjarfélaga sem kunna mikið um hörð efni eins og malbik og hafa lítinn áhuga á eða skilning á mjúkum málum eins og menningarmálefnum að þá verði kannski full mikið af malbiki.
En það er ekki malbik sem gefur bænum lit og líf og skapar ímynd útá við. Samt hef ég ekkert á móti malbiki í rauninni.

Nei, en malbik er eins á litinn út um allan heim.

Fjölbreytni í menningarlífi bæjarfélaga er oftast það sem skapar ásýnd og ímynd staðarins, skapar tilfinninguna að….. já, svona erum VIÐ. Svona viljum við gera og vera og aðrir lokkast í forvitni sinni til okkar því þetta er eitthvað sem er öðruvísi og sérstakt. Skapar gott líf fyrir alla bæjarbúa og löngun hjá öðrum að flytja til okkar.

Það er líka hægt að stjórna með gamaldags aðferðum eins og „Rule by fear“ sem oftar en ekki er ósýnileg stjórnunaraðferð og það er mjög erfitt fyrir flesta að setja orð á þá upplifun.
En hér er stutt grein frá Forbes sem útskýrir þetta fyrirbæri: The Five Characteristics Of Fear-Based Leaders

Ég trúi því lesandi góður að hvort sem þú býrð í Fjallabyggð eða ekki að þú sért rétt eins og ég, venjuleg hugsandi manneskja og að þú getir myndað þér þínar eigin skoðanir og tekið ábyrgð á að sækja þér viðbótar upplýsingar ef þörf er á með því að biðja um opinber gögn og annað sem til þarf og ekki gleyma að eins og í öllum góðum sögum kemur það besta í lokin.

Á bæjarlínunni: Baulaðu nú Búkolla mín…..

Á bæjarlínunni er mikið talað um greinarseríu Örlygs Kristfinnssonar sem við öll þekkjum sem hina mestu rólyndissál og það þarf mikið til að fá hann úr jafnvægi.

Hann af öllum veit hversu mikla þýðingu menningarmál hafa í litlum samfélögum. Það sem hann var að „nöldra og tuða“ um í tíma og ótíma í yfir 40 ár stendur þarna fyrir framan nefið á okkur daglega, lokkar til sín tugi þúsunda ferðamanna í lítinn fallegan fjörð sem þrátt fyrir Héðisfjarðargöng er frekar afskekktur og úr alfaraleið fyrir flesta.

Á sínum tíma vorum við hin aðallega að spá í að kveikja bara í þessu síldarminjadrasli, allir löngu orðnir þreyttir á þessu gamla rusli.

En þá kemur þessi maður með litla vatnslitamynd í hendinni með “hug-mynd” um glæsilegt Síldarminjasafn og hann réttir fram myndina og spyr okkur ?

Getum við ekki bara gert þetta svona ?

Hugreki og þolinmæði þrautir vinnur allar.

Fallegt síldarminjarusl.

 

Það koma upp ótrúlega margar spurningar úr þessum skrifum Örlygs og ég held að við þurfum að ræða þetta aðeins betur allt saman.

Því þetta snýst ekki bara um eitthvað menningarkjaftæði sem bara „sumir“ hafa áhuga á.
Og í guuuðððððanna bænum förum nú ekki að blanda einhverju „góða fólkið hitt og þetta“ sem veit allt best inn í þessa umræðu, þetta snýst sko alls ekki um þá lágkúru eða eitthvað Facebook nöldur með persónulegum árásum.

Fyrir mér snýst þetta um lýðræði og það má minna alla á að bæjarpólitík er ekkert voðalega flókið mál.  Pólitík fjallar um hvernig við viljum skipta skattapeningunum okkar á milli okkar og í hvaða forgangsröð við setjum hin ýmsu málefni, allt frá malbikunarmálefnum til menningarmálefna.

Þetta er ekkert rosalega erfið „mál-efna-fræði“ og það skal vera á hreinu fyrir öllum að það eru kosnir fulltrúar almennings sem hafa umboð og vald til að ráðskast með peninga og forgangsröðun málefna……….. ekki ráðnir bæjarstarfsmenn, ó nei og svei, þeim er nefnilega borgað fyrir að framkvæma vilja fólksins sem kaus þá fulltrúa sem eru í forsvari í stjórnum og nefndum.

Og yfirtöku hermenn bankana hafa heldur enga heimild til að ráðskast með „eyrnamerktan“ menningarsjóð sem var ánafnað til Siglfirðinga á sínum tíma frá okkar gamla og virðulega Sparisjóði Siglfirðinga.

Og að sjálfsögðu eru til lög og reglugerðir um þetta allt saman, en „LÖG“ geta oft verið teygjalegt hugtak á Íslandi og oft túlkuð eftir því hvort það blæs frá hægri eða vinstri, ofanfrá eða neðanfrá og við skulum sko hafa það á hreinu líka að bæjarfélög eru EKKI fyrirtæki og eiga alls ekki að vera rekin út frá hugmyndafræði og rekstrarformi fyrirtækja með kröfur um árlegan gróða sem fer í vasa eiganda. Þetta stendur skýrum orðum í sveitarstjórnarlögum landsins.

En svo er nú reyndar hægt að syngja lög líka ef það liggur þannig á manni.

Pælingar á bryggju !

 

Hugreki!

Mér sýnist á skrifum Örlygs að undirtóninn í greinunum fjalli líka um að hreinlega þora að færa fram skoðanir sínar og líka hvar og hvernig maður á gera það á réttan hátt án þess að verða refsað, hændur, rændur ærunni,  eða hreinlega rekinn úr vinnunni og hrakinn úr bænum.

Maður heyrir það oft á bæjarlínunni að „neikvæðar“ fréttir og ádeilugreinar séu ekki æskilegar…… í okkar litla og fallega samfélagi þar sem öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir.
Hér áður fyrr var til fjöldinn allur af bæjarblöðun með ádeilugreinum um bæjarmálefni og skoðanaskipti eru ekki bara nöldur og óánægja heldur snýst líka um hvað mér og þér finnst rétt og rangt og frjálsræði til að geta tjáð sig um það á opinberum vettvangi.

En samt er það staðreynd að 99,9  % af öllum fréttum og greinum hér á Trölli.is fjalla um jákvæð málefni, ýmiskonar fréttir og ókeypis umfjöllun um viðburði í Fjallabyggð og víðsvegar um Norðurland og það sama gildir um efnisval hjá FM Trölla.

Sé hvergi svona fréttir í öðrum miðlum, ekki einu sinni á RÚV, sem á víst að heita miðill allra landsmanna.

Halló… skoðanaskipti verða að eiga sér stað í lýðræsilegu þjóðfélagi og það gildir líka í Fjallabyggð og á síðum trölla.is hafa aldrei verið birtar greinar með persónulegum árásum á einn eða neinn. Og sá sem skrifar þessi orð fær ekki krónu fyrir neitt af því sem hér er birt og það er ÖLLUM velkomið að senda inn greinar með sínum skoðunum.

Og það sem ég skrifa hér eru mínar persónulegu skoðanir, ekki skoðanir forráðamanna Trölla.is.

Ég vil benda á tvær greinar á siglo.is þar sem fjallað er um mikilvægi bæjarmiða í lýðræðissamfélögum landsbyggðarinnar:

Skortur á frjálsum óháðum fjölmiðlum á landsbyggðinni er stórhættulegt lýðræðisvandamál !

OG….

GUÐ ER FÍFL !……… og hann býr greinilega í REYKJAVÍK ! Sunnudagspistill.

 

Okkar ástkæri Andri í daglegri sjálfboðavinnu á FM trölli uppi á efri hæðinni í húsi Ljóðasafns Íslands.

 

Varla verður hægt að hafa þessi skoðanaskipti á heimasíðunni Fjallabyggð.is eða síðum „Nöldurbókarinnar Facebook“. Maður getur spurt sig hvort að trölla.is og fleirum sé refsað og neitað um styrkjaveitingar og allt gert til að gera þeim aðilum erfist fyrir…..jafnvel þegar boðist er til að auka sjálfsagða lýðræðislega þjónustu við bæjarbúa ÓKEYPIS !

Og er hér t.d. átt við boð forráðamanna Trölla um að senda bæjarstjórnafundi ókeypis gegnum netið.

Sjálfsögð lýðræðisleg þjónusta sem að Fjallabyggð ætti að hafa komið sjálft í gang fyrir löngu síðan.

Eða eru þetta kannski allt saman “opnir leynifundir” ?

En það er svo einkennilegt að oft á tíðum er ádeilu og skoðunum annarra tekið sem einhverskonar persónulegri árás á þá sem samt hafa gefið sig fram af fúsum og frjálsum vilja inní ábyrgðarstöður í samfélaginu, þrátt fyrir að enginn sé nefndur við nafn og greinar skrif ekki gerð í þeim tilgangi að gera lítið úr neinum af þeim sem leggja sig alla fram við að gera það sem þeir halda að sé best fyrir samfélagið í hitt og þetta skiptið.

En í litlum bæjarfélögum eru allar skoðanir og hugmyndir góðar svo framarlega sem þær gagnast meirihluta íbúanna og það skiptir engu máli í rauninni hvað persónan á bakvið hugmyndina heitir eða hvort hún kemur frá HÆGRI eða VINSTRI eða úr austur eða vesturbæ.

Og ráðamenn eiga ekki að túlka gagnrýni frá íbúum sem kjaftæði frá vanþakklátum, fáfróðum  kjósendum, nei, frekar gleðjast yfir að fá viðbrögð og hugsa málið og kannski segja…já það er eitthvað til í þessu, best að við tökum þetta til okkar og reynum að gera betur næst.

En svo er það nú líka þannig með skoðanir að þær eru svolítið eins og rassgöt, það eru allir með minnst 1 st.

Sem betur fer.

Ég legg svo til og mæli:

Að allir kosnir fulltrúar almennings í Fjallabyggð, nefndarmenn og ekki síst bæjarstarfsmenn fari á endurmenntunarnámskeið í mannasiðum og kynnir sér lög og kvaðir um lýðræðisleg vinnubrögð svo að þeir geti áminnt hvorn annan og sjálfan sig daglega hvort að þeir séu kosnir fulltrúar eða ráðnir starfsmenn og um skyldur sínar og væntingar frá bæjarbúum og kjósendum……. og svo má alveg bjóða „útvöldum“ bankastarfsmönnum á þetta námskeið líka.

Að lokum:
Um hvað erum við að tala ?

Þegar við segjum orðið „menningarmálefni“ og styrkjaveitingar til þeirra málefna, erum við þá að tala um íþróttamál, félagsmál, líknarmál, listsköpun, hátíðir og jafnvel ferðaþjónustu í einum pakka ? Eða hvað ?

Ég get vel tekið undir orð Ólafs Marteinssonar og verið stoltur yfir því sem hann bendir á, nefnilega að framlag Fjallabyggðar til „Menningarmálefna“ hefur í mörg ár verið langt yfir meðallagi í samanburði við önnur bæjarfélög en enn og aftur, hvað meinar hann með orðinu  „menningarmálefnum“

En svo má líka deila um það hvort að styrkjaveitingar úr “stolnum”  eyrnamerktum „Menningarsjóðum“ eigi að fara í skólamál, félagsmálefni eldri borgara og aðra lögbundna þjónustu svo að Fjallabyggð geti sett meiri pening í malbikunar- og hafnarmálefni og rekstur flugvallar og síðan grobbað sig árlega yfir góðum rekstraafgangi.

Sjá sögulega ádeilugrein hér á trölli.is:
FLUGSAMGÖNGU FRAMFARA SAGAN SEM HVARF ! „LANDIÐ ÞAR SEM ALLT ER Í HÁALOFT – INU“

 

Nýr og gamall tími mætast í ótrúlega fallegri ljósmynd eftir Íslandsvininn Hans Malmberg.

 

En ég er ekki viss hvernig þessum framlögum er skipt á milli málaflokka eða á milli bæjarhluta. Þ.e.a.s. prósentu hlutfall til annarvegar málefna í Ólafsfirði og hinsvegar á Siglufirði.

Held ég verði að biðja kunnuga starfsmenn Fjallabyggðar að gera grein fyrir þessu gegnum skriflega beðni til þeirra áður en ég get tjáð mig meira um þessi málefni seinna en styrkjaveitingar ársins eru klárar í ár og í frétt á trölli.is er hægt að lesa eftir farandi úr þeim upplýsingum.

Fimmtudaginn 25 janúar var menningarstyrkjum til einstaklinga og félagasamtaka í fjallabyggð deilt út. Það höfðu borist tuttugu og fimm umsóknir í ár. Úthlutað var styrkjum að upphæð kr. 8.150.000.

Sextán umsóknir voru samþykktar og féllu níu umsóknir af þeim undir markaðs- og menninganefnd sem hlýtur að þíða að Bæjarráðs fulltrúar réðu úthlutum á sjö styrkjum. Hverjum kemur ekki fram heldur.

Hér kemur ekki heldur fram hvort það var Menningarnefnd eða Bæjarráð sem neitaði níu umsóknum eða um hvaða verkefni þær umsóknir snerust um.

Út frá þeirri staðreynd að við erum EITT bæjarfélag og að styrkirnir eiga að gagnast öllum og þeir gera það auðvitað, misskildu mig rétt, þá er náttúrulega rangt að vera að deila upp 8.150.000 eftir því hvort styrkir lentu í austur eða vesturbæ.

En í ár er hlutfallið reyndar svona:
Austurbær: Kr. 5.800.000, Vesturbær Kr. 2.350.000.

Spegla þessar tölur meira vilja meirihluta Bæjarráðs sem situr við völdin akkúrat núna…….en vilja Markaðs og menningarnefndar ?

MENNINGARSTYRKIR VEITTIR Í FJALLABYGGÐ

En ég get líka sagt ykkur ýmislegt sem rætt er um á bæjarlínunni í austurbænum og það get ég bara sagt ykkur vegna þess að ég er pólitískt óbundinn og hlutlaus, fæddur og uppalinn í Héðinsfirði og búsettur erlendis svo það er ekki hægt að „refsa“ mér fyrir þessi skrif hér og ég hef nú þegar slæmt orð á mér fyrir að hafa skoðanir.

En það eru fyrir mér mjög svo skiljanlegar spurningar um hvort að sameining bæjarfélagana hafi verið af hinu góða fyrir Ólafsfirðinga. Hefur fólkið sem býr þar fengið að upplifa að þeirra hagur sé alltaf hafður í fyrirrúmi í ákvarðanatökum í Fjallabyggð síðustu árinn.

Þetta eru alvarlegar spurningar og þegar ég heyrði að þetta hafi gengið svo langt að fólk sem ég dáist mikið af fyrir þeirra dugnað og atorku hefur enga trú á að Markað og menningarnefnd sem og ráðnir starfsmenn Fjallabyggðar geti farið með hagsmunamál þeirra í marknasasetningu og uppbyggingu ferðamála í bæjarkjarna bæjarfélagsins Fjallabyggðar sem heitir í daglegu tali Ólafsfjörður……. að þeir hreinlega hafi orðið að gefast upp og finni enga aðra lausn en að stofna eigin Markaðsstofu.

Ótrúlegt en satt og ég spyr:

Hvenær verðum við eitt bæjarfélag í þremur fallegum fjörðum þar sem maður reyndar getur farið á milli bæjarkjarna á inniskónum á 15 mínútum sléttum ?

Er ekki hægt að vanda sig aðeins meira í mannlegum samskiptum, bjóða í kaffi, ræða málin og sýna hvort öðru skilning og virðingu.

En sumir virðast vera að vakna……of seint kannski, en ok sjáum til, því hér má sjá bókanir frá síðasta fundi Markaðs og menningarnefndar Fjallabyggðar frá 16 janúar 2019.

3. 1811009 – Markaðsstefna Fjallabyggðar
Skipa þarf vinnuhóp til að vinna drög að markaðsstefnu Fjallabyggðar. Markaðs- og menningarfulltrúa falið að kanna hentuga samsetningu vinnuhóps og leggja fyrir næsta fund nefndarinnar.

Vonandi verður Markaðsstofu “Austurbæinga” boðið að vera með í þessum vinnuhóp.
Og svo er orðrómur líka á bæjarlínunni um að vesturbæingar séu að spá í að stofna sína eigin Markaðsstofu.

OG að lokum það sem er kannski mest furðulegt !

4. 1901019 – Afhending menningastyrkja og útnefning bæjarlistamanns.
Afhending menningarstyrkja fer fram í Tjarnarborg fimmtudaginn 24. janúar kl. 18.00. Afhentir verða menningarstyrkir vegna viðburða og hátíða sem markaðs- og menningarnefnd úthlutar ásamt þeim styrkjum sem bæjarráð úthlutar í menningarmálum.
Mín eigin bókun: Ha….er BÆJARRÁÐ með sína eigin menningarnefnd og sér stefnumörkun þar líka ??????
Til hvers er maður þá með nefnd sem heitir Markaðs og menningarnefnd Fjallabyggðar ? Hverju ræður þessi nefnd eiginlega ?

 

Úrdráttur úr nú gildandi (því mér vitanlega var endurskoðun aldrei framkvæmd),  menningarstefnu Fjallabyggðar 2009:

  • Menningarfulltrúi og menningarnefnd skulu framfylgja mótaðri stefnu, stuðla að öflugu þróunarstarfi í menningarmálum, leggja áherslu á fagleg vinnubrögð, hvetja til samstarfs og veita metnaðarfullum verkefnum brautargengi.

    Hvaða menningarstefna er í gildi ?
    Þessi frá 2009 ?
    Eða það sem Markaðs og menningar-NEFND vill eða ræður ekki yfir eða eru það persónulegar skoðanir BÆJARRÁÐS fulltrúa sem ráða frá einu ári til annars um hvað þeim finnst persónulega vert að verðlauna ? Hmm…….

Þeir sem hafa nennt að lesa alla leið hingað gætu verið að hugsa núna……ja..þegar þú segir þetta svona, þá…já…. hmm…..og aðrir hugsa kannski bara: Það er aldeilis kjaftur á keilunni.

Sjá einnig: Greinarserían Malbik og menning I – IV eftir Örlyg Kristfinnsson

Aðrar greinar eftir Jón Ólaf Björgvinsson

Lifið heil & Bestu kveðjur
Nonni Björgvins

Texti og ljósmyndir:
Jón Ólafur Björgvinsson