Föstudagskvöld 27. mars var aflétt úrvinnslusóttkví sem hafði verið frá því 21. mars í Húnaþingi vestra. Þetta var tímabundin ráðstöfun meðan unnið var að smitrakningu en grunur lék á um víðtækt smit í sveitarfélaginu.

Þrátt fyrir að búið sé að aflétta úrvinnslusóttkví er mikilvægt að íbúar gæti almennra sóttvarna og virði þær reglur og viðmið sem gefin hafa verið út af sóttvarnalækni til hins ýtrasta. Allar leiðbeiningar og reglur er að finna á covid.is.

Rétt er að minna á að þeir einstaklingar sem eru í 14 daga sóttkví að tilmælum heilbrigðisyfirvalda búa við óbreytt ástand þar til henni lýkur.

Nokkrar ábendingar hafa borist um að fólk sem er í sóttkví virði ekki reglur þar um. Það er aldrei of oft ítrekað mikilvægi þess að virða þær reglur sóttvarnalæknir setur um sóttkví sem og samkomubann.

  • Einstaklingar í sóttkví mega ekki fara sjálfir eftir aðföngum og þar af leiðandi ekki í matvöruverslanir.
  • Einstaklingar í sóttkví mega ekki fara sjálfir með sorp á móttökustöðvar sveitarfélaga
  • Einstaklingar í sóttkví mega fara í göngutúra en verða skilyrðislaust að halda reglur um fjarlægt frá öðrum.

Virðum fjarlægðarmörk. Ávallt skal hafa í huga að hvar sem fólk kemur saman og í allri starfsemi skal tryggt að hægt sé að hafa a.m.k. 2 metra á milli einstaklinga.

Í kvöld lýkur tveggja vikna sóttkví starfsfólks, kennara og nemenda Grunnskóla Húnaþings vestra. Hefðbundin kennsla hefst þó ekki fyrr en að afloknu páskafríi. Sjá nánar á vef grunnskólans.

Bókasafnið mun aftur hefja útlán á bókum á næstu dögum, getur fólk þá pantað bækur og sótt eða fengið sendar. Nokkuð ströng skilyrði verða fyrir útlánum, til að mynda verður ekki hægt að lána bækur á heimili sem eru í sóttkví, einangrun eða þar sem fólk finnur fyrir lasleika. Nánari útfærsla á þessu fyrirkomulagi verður kynnt á facebooksíðu bókasafnsins á næstu dögum.

Nú eru 19 staðfest smit í Húnaþingi vestra. Búið er að taka 125 sýni og bíða 15 sýni greiningar.