Hvað eru myndasögur og hvernig virka þær sem tjáningarmiðill, var viðfangsefni í einum miðannaráfanganum. Áhersla var lögð á að skilja hvernig sjónræn frásögn er notuð til að segja sögu eða miðla hugmynd.

Lefteris Yakoumakis, leiðbeinandi í miðannarviku við Menntaskólann á Tröllaskaga, segir að þetta hafi verið inngangsáfangi með áherslu á aðalatriði. Í æfingaskyni hafi nemendur skrifað stuttar sögur og prófað að miðla þeim á sjónrænan hátt. Það skipti máli hvernig slík frásögn hefjist og hvaða ferli sé síðan fylgt.

Æfingarnar hafi miðað að því að skerpa á hæfileikum nemenda til að rita og teikna og leiðbeina um notkun þeirrar tækni við sjónræna miðlun. Þá var rætt um hvað þurfi til að ná árangri í heimi teiknimyndanna og hvernig nýta megi slíka færni í ýmsum atvinnugreinum.

Leiðbeinandinn, Lefteris Yakoumakis, er listmálari og myndasöguhöfundur, búsettur á Siglufirði.

Mynd/Gísli Kristinsson