Allir sem til Hrafnhildar Ólafsdóttur þekkja vita hvað hún er orkumikil, geislandi og lífsglöð kona. Undanfarin tvö ár hafa verið henni erfið sökum veikinda, þau hafa gert það að verkum að hún er óvinnufær. Fimmtudaginn 7. maí voru liðin tvö ár frá því hún var “dæmd úr leik” og skrifað einlæga færslu á facebook sem sjá má hér að neðan.
Ég tilheyrði í samfélaginu, ég gerði gagn
Það er rosalega furðuleg tilfinning að vera kippt út af vinnumarkaði vegna veikinda. Í dag eru komin tvö ár síðan ég tilheyrði vinnustað, átti vinnufélaga, fór í kaffi og mat og flýtti mér á hverjum degi með verkefnin til að komast heim til strákanna minna- Ég upplifði að ég tilheyrði í samfélaginu, ég gerði gagn, lagði mitt af mörkum og kepptist við að standa mig vel. Brann svo auðvitað út við það og í kjölfarið tóku fylgifiskarnir mínir stjórnina hver af öðrum.
Búið að vera brjálæðislega erfitt að sætta sig við
En nú eru kaflaskil hjá mér eina ferðina enn, eftir 20 mánuði í frábærri starfsendurhæfingu er úrskurður Virk sá að ekki sé hægt að hjálpa mér meira í bili. Ég er óvinnufær, mikill árangur hefur náðst í andlegri færni en veruleg líkamleg veikindi hamla því að ég verði gjaldgeng á vinnumarkað á næstunni.
Ég held að það geti enginn ímyndað sér nema sá sem gengur í gegnum það hvernig tilfinning það er að vera dæmdur úr leik. Ég hef alltaf elskað að vinna og skilgreint sjálfið mitt útfrá því að vera hörkuduglegur starfskraftur.
Nú geng ég í gegnum ákveðið sorgarferli og hef gert síðustu mánuði eða síðan möguleikinn á að færa mig yfir á tímabundna örorku var nefndur fyrst. – Þetta er búið að vera brjálæðislega erfitt að sætta sig við en það hjálpar eins og alltaf að skrifa sig frá hugsunum og létta á hjartanu.
Það er ekki í boði að gefast upp
Orðið tímabundin örorka er smá gulrót, það á áfram að gera tilraunir með að fá ónæmiskerfið í mér til að virka, hversu marga mánuði til viðbótar veit ég ekki. Ég er til í slaginn og berst eins og alltaf áfram fyrir því að geta lifað lífinu á mínum forsendum en ekki forsendum bilaðs ónæmiskerfis og óheppilegra fylgikvilla sem mér voru úthlutaðir í vöggugjöf. – Það er ekki í boði að gefast upp.
Ég á samt ennþá erfitt með að orða þetta við fólk sem veit ekkert hvað hefur drifið á mína daga að undanförnu. Það nýjasta sem ég er að reyna að temja mér er að segja þegar að ég er spurð: “Hvað ertu svo að gera þessa dagana?”
“Ég er öryrki”. Það er bara mjög erfitt en er að venjast.
Mynd: úr einkasafni