Þórarinn Hannesson

Aðeins af „styrkjamálum“ í Fjallabyggð

Einhverjir hafa verið að fjargviðrast yfir þeim rúmu 100 milljónum sem sveitarfélagið Fjallabyggð veitir í „styrki“ á þessu ári og finnst þeim peningum illa varið af umræðunni að dæma. Því miður er það svo enn að við erum með fólk sem vill endilega vera að búa til eitthvað nýtt, skapa og leika sér, eða sprikla í einhverjum fáránlegum líkamsæfingum eða uppi á sviði og þá jafnvel fyrir framan annað fólk. Þetta er voðalega vandræðalegt allt saman fyrir okkur sem sveitarfélag og það er náttúrulega hlegið að okkur víða fyrir þetta ástand.

Af öllum þessum peningaaustri í þennan óþarfa virðist ljóst að hið útópíska draumaland þar sem allir þegnar sveitarfélagsins, já og landsins, sinna glaðir vinnu sinni frá kl. 8.00 – 18.00, fara svo heim og nærast og leggjast fyrir framan sjónvarpið þar til gengið er til náða, virðist enn vera alltof fjarlægur draumur. Líklega væri best að horfa á Netflix, a.m.k. væri lítið um íslenskt efni, nema ríkisþáttaröðin með þessum 15 leikurum sem við borgum laun fyrir að leika, og þeir geta þá borgað útsvarið sitt, og svo taka Bubbi og Bjöggi lagið öðru hvoru, þeir geta sko lifað af listinni!

Svo væru náttúrulega, sem betur fer, engar beinar íþróttaústsendingar að trufla dagskrána, með einhverjum landsliðum sem við þurfum að halda úti með tilheyrandi kostnaði. Nema að við gerum bara svona eins og með leikarana, við þjálfum upp svona 20 – 30 efnilega krakka af hvoru kyni sem keppa fyrir hönd landsins í hinum ýmsum íþróttagreinum. Best að hafa þau bara af Reykjavíkursvæðinu það er mikið ódýrara og þægilegra. Þá þarf heldur ekkert að vera að byggja upp íþróttasvæði og íþróttahús um allt land með tilheyrandi kostnaði og viðhaldi.

Fyrir þá sem endilega vilja halda áfram að lesa bækur höfum við náttúrulega Arnald og Yrsu, þau geta líka lifað á listinni, alvöru listamenn sem borga útsvarið sitt!

Ó, kom þú draumaland!

En að öllu gamni slepptu, eða kannski er þetta ekkert gamanmál, heldur bara háalvarlegt mál, hvað veit ég, ræfillinn, þá er áhugavert að skoða listann yfir „styrkveitingar“ Fjallabyggðar til hinna ýmsu málefna í sveitarfélaginu. Mér datt í hug að leita svara við nokkrum spurningum sem koma upp í hugann við það að renna augunum niður þennan lista:

Fyrsta spurningin er: Er rétt að hafa alla þessa liði undir yfirskriftinni styrkir? Í fréttatilkynningu Fjallabyggðar segir um þessa „styrki“: „Fjallabyggð gerir einnig samstarfssamninga um rekstur íþróttasvæða við Knattspyrnufélag Fjallabyggðar, Golfklúbb Fjallabyggðar og Skíðafélag Ólafsfjarðar. Auk þess að leggja til fjármagn vegna reksturs skíðasvæðisins í Skarðsdal. Samtals eru 46.839.926 kr. áætlaðar á fjárhagsárinu 2019 vegna áðurnefndra samstarfssamninga“.

Þarna eru strax komnar um 47 milljónir vegna aðstöðu sem Fjallabyggð hefur ákveðið að skuli vera í sveitarfélaginu en hefur falið öðrum að sinna umsjón með og reka í stað þess að gera það sjálft. Eru þetta styrkir? Ekki eftir mínum skilningi. Greiðir fólk sem sinnir þessari vinnu útsvar? Ég mundi halda það. Þá er upphæð „styrkjanna“ komin niður í 103 – 47= 56 milljónir.

Hvað af þessum „styrkjum“ eru beinharðir peningar en ekki bara leikur að tölum í bókhaldi?

Tæpar 15 milljónir eru ætlaðar í frítíma íþróttafélagana í íþróttahúsum sveitarfélagsins. Þetta er ekki fjárhæð sem er greidd út heldur aðeins tölur í bókhaldinu og ekki verður mikill kostnaður af. Íþróttahúsin eru þarna, þau eru opin, þar er starfsfólk, rafmagns- og vatnsreikningarnir verða að vísu eitthvað hærri en ella og það væri náttúrulega betra að hafa þau tóm þá væri enginn kostnaður. Þá er upphæð „styrkjanna“ komin niður í 56 – 15= 41 milljón.

Skila þessir „styrkir“ einhverju til baka til samfélagsins, kannski útsvari?

Af þessum 41 milljón sem eru eftir fær Síldarminjasafnið 6 milljónir samkvæmt samningi við Fjallabyggð. Hvað fær Fjallabyggð í staðinn? Frían aðgang að safninu fyrir íbúa sveitarfélagsins, afnot af húsnæði safnsins fyrir ýmsar móttökur, útsvarsgreiðslur frá þremur heilsárs starfsmönnum og á annan tug sumarstarfsmanna og hafnargjöld upp á tugi milljóna vegna komu nær 40 skemmtiferðaskipa á þessu ári. Það er nefnilega fyrst og síðast að frumkvæði og vegna vinnu Síldarminjasafnsins að öll þessi skemmtiferðaskip koma hingað. Á safnið komu um 27.000 gestir á síðasta ári sem nýta sér ýmsa aðra þjónustu í bænum og skapa með því störf sem greiða útsvar. Þetta eru góðir vextir af 6 milljónum að mínu áliti. Þá eru eftir 41 – 6 = 35 milljónir.

Já, 35 milljónir standa eftir af „styrkupphæðinni“ hvernig skildi hún skiptast?

Fjallabyggð hefur ákveðið að styrkja börn/barnafjölskyldur sveitarfélagsins í formi frístundaávísana sem hægt er að nota til að greiða fyrir ýmist frístundastarf t.d. til íþróttafélaga og tónskólans. Er það vel og jafnar stöðu barna í samfélaginu. Í þessar frístundaávísanir eru áætlaðar rúmar 10 milljónir.

Fjallabyggð hefur einnig ákveðið að styrkja barna- og unglingastarf íþróttafélaganna sérstaklega og fær Ungmenna- og íþróttasamband Fjallabyggðar (UÍF) 7,5 milljónir sem það deilir út til sambandsaðila sinna eftir ákveðnum reglum þar sem m.a. er farið eftir iðkendafjölda og starfsemi félaganna.

Þá eru eftir 18 milljónir af „styrkupphæðinni“. Hvað verður um þær?

Ýmis félagasamtök í eigin húsnæði fá styrk vegna fasteignaskatts, sem er hluti af fasteignagjöldum. Samtals eru þessir styrkir tæpar 3 milljónir og fer um helmingur þeirra til Björgunarsveitarinnar Tinds og Pálshúss.

Frístundastyrkir eru rúmlega 3, 5 milljón, eru þeir aðallega til ýmissa félagasamtaka. Þar fer tæplega helmingur til unglingadeilda björgunarsveitanna.

Undir liðnum Aðrir styrkir eru 2, 5 milljónir, þar af 1 milljón til sitthvorrar björgunarsveitarinnar.

Menningarstyrkir eru svo um 8,5 milljón. Skiptast þeir niður á 17 aðila. Langstærstan hlut fær Pálshús, 3, 1 milljón til reksturs og uppbyggingar, Sjómannadagsráð Ólafsfjarðar fær 1 milljón, Berjadagar og Þjóðlagahátíðin fá rúmar 800 þúsund hvor hátíð og Þjóðlagasetrið 800 þúsund til rekstrar. Hinir 11 aðilarnir skipta svo með sér þeim 2 milljónum sem eftir standa til ýmis konar hátíðahalda og reksturs. Skildi þetta menningarstarf skila einhverjum peningum til baka til samfélagsins? Skildu gestir þessara hátíða og safna/setra skilja eftir sig einhverja peninga í samfélaginu og skapa störf eða koma þeir kannski allir með poka úr Bónus og borða í bílunum sínum og sofa þar líka?

Svona er nú það og þá er nú kannski vert að velta fyrir sér hver er raunveruleg upphæð þessara „styrkja“ og er rétt að hafa alla þessa liði undir nafninu „styrkir“?

Svo er líka vert að velta fyrir sér af hverju fólk ætti að vilja flytja hingað nyrst á Tröllaskaga og af hverju þessir ferðamenn vilja endilega koma hingað. Er hér eitthvað merkilegt að sjá og upplifa?

Með vinsemd og virðingu á sunnudagsmorgni í janúar.

Þórarinn Hannesson

Hér er heildarlisti yfir “styrkina”.

https://www.fjallabyggd.is/…/fi…/2019/PDF/styrkir-2019_2.pdf