Íbúar í Grímsey eiga von á fjörutíu skemmtiferðaskipum í sumar en eins og staðan hefur verið er aðeins ein salernisaðstaða í boði fyrir ferðalanga. Jóhannes Gísli Henningsson, formaður hverfisráðs Grímseyjar, segist vera vongóður um að Akureyrarbær geri úrbætur á salernismálum fyrir sumarið.

Fjöldi farþega kemur til Grímseyjar með flugvélum

Í fundargerð hverfisráðs Grímseyjar er farið þess á leit við Akureyrarbæ að gerðar verði úrbætur á salernismálum:

„Nú í ár koma hátt í 40 skemmtiferðaskip til Grímseyjar auk allra ferðamanna sem koma með ferju eða flugi. Það er brýn nauðsyn að bæta hérna salernismál. Fyrir er eitt klósett í Galleríinu. Galleríið er pínulítið og getur ekki tekið á móti mörgum í einu og er þetta mikið álag á húsnæðið. Einnig eru tvö klósett og finnst okkur ekki hægt að bjóða eigandanum upp á það að beina þeim ferðamönnum þangað sem ekki eru viðskiptavinir staðarins,“ segir í fundargerð.

Hér ofan til á myndinni má sjá Galleríið sem ferðamenn nýta sem almenningssalerni

Í samtali við Vísi segir Jóhannes Gísli að þetta standi allt vonandi til bóta. Aukinn ferðamannastraumur sé nýr veruleiki fyrir íbúa í Grímsey. „Síðastliðin tvö ár hefur ferðamönnum fjölgað og hefur þetta aldrei verið eins mikið og núna.“

Úrbætur í tæka tíð
Jóhannes segir samstarfið við Akureyrarbæ heilt yfir hafa verið gott en það sé engu að síður brýnt að setja salernismálin í forgang. „Við vildum vekja athygli á þessu við þau [bæjarstjórn Akureyrar], svo þessi mál verði komin í lag með sumrinu og svo það sé ekki farið of seint af stað.“

Umræða um skort á salernisaðstöðu á fjölförnum ferðamannastöðum komst í hámæli síðasta sumar þegar skilti, sem banna fólki að ganga örna sinna, voru sett upp víða um landið.

Um 40 skemmtiferðaskip heimsækja Grímsey í sumar

 

Myndir: Gunnar Smári Helgason
Frétt fengin af vef: Vísis