Birgir Gunnarsson

Þegar Skeiðsfossvirkjun í Fljótum var tekin í notkun árið 1945 framleiddi hún 1,8 MW af raforku og leysti úr brýnni þörf Siglufjarðar, á þeim tíma, fyrir raforku.  Í dag framleiðir virkjunin 4,8 MW.  Uppistöðulón virkjunarinnar varð þess valdandi að nánast öll tún og engjar í Stíflu fóru undir vatn og byggð í þessari fallegu sveit lagðist af að mestu leyti.  Þetta var mikil fórn á sínum tíma en í dag má draga í efa að einhverjum dytti í hug að virkja með þeim hætti sem þá var gert.  Enda önnur sjónarmið uppi varðandi umhverfisvernd en þá var.

Mann rekur því í rogastans að verða þess áskynja að Orkustofnun hefur gefið út rannsóknarleyfi til Orkusölunnar ehf. vegna áforma um Tungudalsvirkjun í Fljótum.  Tungudalur er hliðardalur frá Stíflu og rennur Tungudalsáin í Stífluvatn sem er uppistöðulón Skeiðsfossvirkjunar. Virkjunaráformin gera ráð fyrir virkjun sem framleiðir 1-2 MW og miðlunarstíflu við útfall úr Tungudalsvatni og þaðan verði leidd þrýstipípa að stöðvarhúsi við eyðibýlið Tungu í Stíflu.  Jarðstrengur verði síðan lagður þaðan að Skeiðsfossvirkjun.  Í umsókn Orkusölunnar kemur fram að núverandi mannafli Skeiðsfossvirkjunar muni hafa umsjón með virkjununum á rekstrartíma.  Áformin munu því ekki leiða til neinnar atvinnusköpunar í Fljótum.     

Í rannsóknarleyfinu kemur fram að haft hafi verið samband við Ríkiseignir sem eiganda viðkomandi lands.  Ríkiseignir gera ekki athugasemdir við leyfisveitinguna en áskilja sér rétt til töku auðlindagjalds komi til virkjunar, nema hvað!  Ekki verður séð af leyfisveitingunni að haft hafi verið samband við aðra landeigendur á svæðinu, sem þó sannanlega hafa mikilla hagsmuna að gæta í þessu máli, þar sem ferðaþjónusta er að verða æ mikilvægari atvinnugrein.

Á bænum Deplum í Stíflu hefur t.a.m verið byggt upp glæsilegt hótel sem er í næsta nágrenni við fyrirhugaða virkjun.  Menn geta rétt ímyndað sér hvaða áhrif þessi áform myndu hafa á þá starfsemi.  Bæði yrði mikið jarðrask á svæðinu á framkvæmdatímanum með tilheyrandi umferð og ónæði af vinnuvélum og þungaflutningum.  Auk þess sem þessi áform myndu valda óbætanlegu tjóni á Tungudal og því fallega og ósnortna umhverfi sem þar er.  Tungudalur er vinsæll áfangastaður göngufólks og hefur ferðaþjónustan í Fljótum og gönguhópar víðsvegar af landinu lagt leið sína í þessa náttúruperlu.   

„Í dag hefði engum lifandi manni dottið í hug að sökkva þessu í vatn“  sagði Stefán Þorláksson bóndi á Gautlöndum í Fljótum í viðtali við Morgunblaðið árið 2009.  Stefán var þarna að vísa til þess þegar Skeiðsfoss var virkjaður á sínum tíma.  Þótt ótrúlegt sé þá er það samt svo að núna eru á teikniborðinu áform um að höggva í sama knérunn ef áform um virkjun í Tungudal í sömu sveit ná fram að ganga.  Þau áform munu hafa í för með sér gríðarlegt jarðrask og óafturkræf og óásættanleg náttúruspjöll til framtíðar, fyrir litla virkjun sem ætlað er framleiða aðeins 1-2 MW.  Við eigum að vita betur í dag en þetta, látum ekki endurtaka sig þau óafturkræfu spjöll sem unnin voru í þessari fögru sveit fyrir rúmlega 70 árum síðan.  Stöðvum þessi áform strax áður en lengra er haldið. 

 

Greinin birtist í Mbl. 20. desember 2018
Birt með leyfi höfundar, Birgis Gunnarssonar