Á dögunum átti fréttaritari leið “suður á fjörð” og hreinlega varð að stoppa á miðri leið þegar við blasti skemmtileg sjón.
Þar var maður á ferð með rollur í eftirdragi, ansi glaðklakkalegur þar sem hann gekk fyrir hópnum.
Þar var á ferð Haraldur Björnsson jafnan nefndur Halli Bó, rollubóndi með meiru.
Var hann tekinn tali og sagði hann frá því að rollurnar væru farnar að nálgast bæinn heldur mikið enda grasið oft grænna hinumegin. Er þá er nóg að hóa í þær og svara þær kalli og koma til hans með það sama.
Þarna var á ferð ærin Demantur með afkvæmi sín, bæði lömb frá því í vor og gemlinga frá því í fyrra. Jóhanna Haraldsdóttir, dóttir Halla er eigandi Demants.
Fimmlemba á Siglufirði
Demantur er engin venjuleg átta vetra rolla sem svarar kalli, hún er mikil ættmóðir og hefur átt 24 lömb á þessum árum. Í fyrra varð hún fimmlemba, í ár var hún fjórlemba. Hún hefur aldrei misst lamb á þessum árum og má það teljast gott.
Fjölskyldan heldur sig jafnan á túnunum umhverfis fjárhúsin og eru öll afskaplega mannelsk, svara kalli og þiggja gælur frá gestum og gangandi.
Enda dekra Halli og fjölskylda við rollurnar sínar og þess má geta að í vætutíðinni undanfarið er þeim hleypt í fjárhúsin og fá að ráða því hvort það sé hundum og rollum út sigandi.