Á öðrum ársfjórðungi 2019 reyndist atvinnuþátttaka vera að jafnaði 82,9% af mannfjölda, eða að meðaltali um 212.900 manns. Þar af töldust að meðaltali 9.400 manns vera atvinnulausir eða um 4,4%. Á sama tíma voru um 6.200 störf laus á íslenskum vinnumarkaði samkvæmt starfaskráningu Hagstofunnar eða um 2,7% starfa, samanber áður útgefnar tölur. Atvinnulausir voru því um einn og hálfur um hvert laust starf samanborið við tveir á móti einu starfi á fyrsta ársfjórðungi 2019. Á öðrum ársfjórðungi var fjöldi starfandi fólks um 203.500, eða 79,2% af mannfjölda.

Atvinnuleysi jókst frá öðrum ársfjórðungi 2018 um 0,9 prósentustig og hlutfall starfandi af mannfjölda minnkaði um 0,8 prósentustig.

Um 44.000 manns töldust utan vinnumarkaðar á öðrum ársfjórðungi 2019. Flestir þeirra sem eru utan vinnumarkaðar, eða 13.700 manns (31,5%), skilgreina sig sem eftirlaunaþega. Þar á eftir voru þeir sem skilgreina sig sem öryrkja eða fatlaða, um 9.800 manns að meðaltali eða 22,2%.

Vinnutími
Á öðrum ársfjórðungi 2019 voru að jafnaði 184.500 manns á aldrinum 16-74 ára við vinnu í hverri viku ársfjórðungsins og var meðalheildarfjöldi vinnustunda þeirra 39,7 klukkustundir. Þeir sem voru í fullu starfi unnu ívið meira eða að jafnaði um 43 stundir á viku, en heildarfjöldi vinnustunda í hlutastarfi var að jafnaði um 25,9 klukkustundir á viku.