Nýlega sendu FM Trölli og Trölli.is erindi til Bæjarráðs Fjallabyggðar þar sem Trölli býðst til þess að senda bæjarstjórnarfundi Fjallabyggðar út beint, – án endurgjalds.

Forsaga málsins er sú að Trölli.is sendi Markaðs- og menningarnefnd Fjallabyggðar fyrir nokkru ýmsar hugmyndir um mögulegt samstarf Trölla og Fjallabyggðar.

Ein hugmyndin sem Trölli setti fram er að senda bæjarstjórnarfundina út beint, bæði hljóð og mynd. Nefndin afgreiddi það á fundi sínum þann 24.10 með því að áframsenda erindið til Bæjarráðs. Niðurstaða Bæjarráðs á 578. fundi  var þessi:

“Bæjarráð sér sér ekki fært að verða við erindinu þar sem ekki er gert ráð fyrir kostnaði við útsendingar bæjarstjórnarfunda á fjárhagsárinu 2019.”
“Jón Valgeir Baldursson situr hjá við afgreiðslu þessa máls.”

Þetta þótti nokkuð undarlegt svar, annars vegar vegna þess að ekki var minnst á kostnað í upphaflega erindinu, og einnig vegna þess að t.d. fyrirhugaðri malbikun og launakostnaði við óstofnaða nefnd var á sama fundi “vísað til gerðar fjárhagsáætlunar 2019”, þannig að umræddri áætlunargerð var augljóslega ekki lokið þegar erindið var tekið fyrir.

Á næsta fundi Bæjarráðs á eftir, nr. 579 var sérstakur liður: 5. 1801072 – Erindum vísað til gerðar fjárhagsáætlunar 2019 um málefni sem átti eftir að setja inn í fjárhagsáætlun,  og var samþykkt að bæta þeim inn á ókláraða fjárhagsáætlun.

Af þessu má e.t.v. draga þá ályktun að Bæjarráð hafi lítinn áhuga á að bæjarstjórnarfundir séu sendir út beint, eða sé hreinlega mótfallið slíkum útsendingum, en í því samhengi má minna á að bæjarstjórnarfundir eru öllum opnir.

Trölli sendi inn nýtt erindi beint til Bæjarráðs, og bauðst til að senda fundina út frítt. Bókun Bæjarráðs á 580. fundi:

9. 1810051 – Erindi frá Trölla, hugmyndir um samstarf
“Lagt fram erindi Gunnars Smára Helgasonar fh. Trölla.is þar sem óskað er eftir því að senda bæjarstjórnarfundi Fjallabyggðar út beint, án endurgjalds.

Bæjarráð samþykkir að óska eftir umsögn deildarstjóra stjórnsýslu- og fjármáladeildar varðandi fyrirkomulag útsendinga bæjarstjórnarfunda í öðrum sveitarfélögum.”

Til að auðvelda deildarstjóranum – (og öðrum sem að málinu koma en hafa meiri áhuga á malbiki en menningu) – verkið eru hér nokkur dæmi um beinar útsendingar “í öðrum sveitarfélögum” sem Trölla er kunnugt um.

Vestmannaeyjar:

Reykjanesbær:
http://www.vf.is/frettir/baejarstjornarfundur-i-beinni/70025

Ísafjörður:
https://www.isafjordur.is/static/live/

Hafnarfjörður:
https://livestream.com/accounts/5108236/events/2361147/videos/182857443

Mosfellsbær:
http://www.mosfellsbaer.is/stjornkerfi/stjornkerfi/baejarstjorn/upptaka-af-baejarstjornarfundi/baejarstjornarfundir-i-beinni/

Í Bæjarráði Fjallabyggðar sitja nú:

Helga Helgadóttir formaður, D lista,
Nanna Árnadóttir aðalmaður, I lista,
Jón Valgeir Baldursson aðalmaður, H lista,

en auk þeirra situr Bæjarstjóri Gunnar I Birgisson jafnan fundi Bæjarráðs ásamt Guðrúnu Sif Guðbrandsdóttur deildarstjóra stjórnsýslu- og fjármála.

 

Helga Helgadóttir formaður Bæjarráðs

 

Frá fyrsta fundi núverandi Bæjarstjórnar Fjallabyggðar

 

Frá fyrsta fundi núverandi Bæjarstjórnar Fjallabyggðar