Gestir Siglufjarðar hafa tíðum orð á því hve bærinn sé snyrtilegur og fallegur.
Og heimafólkið hefur ekki síður augun opin fyrir snyrtimennskunni og blómaskreytingum víða um bæ og margir hafa bókstaflega sagt: „aldrei fallegri!“

Til þess að svo megi vera þarf sannarlega að vinna fyrir því og þá mæðir mest á starfsmönnum bæjarins – samtímis því að eigendur húsa og garða sinna sínu.

En hvernig horfa þessi mál við starfsmönnum í Áhaldahúsi? Birgir Ingimarsson bæjarverkstjóri var tekinn tali.

Þessi umhverfismál okkar eru tvíþætt, segir Birgir. Fyrst samþykkir bæjarstjórn fjárframlög, sem hafa farið mjög hækkandi á seinustu tveimur árum, og markar þannig stefnuna. Þá tekur framkvæmdin við og þar hefur Elías Pétursson bæjarstjóri haft mikinn áhuga á að Fjallabyggðarbæirnir báðir verði snyrtir og fegraðir til muna – og sagt þetta verkefni vera eins og langhlaup, því verði sífellt að sinna, þar sem markmiðið er alltaf framundan. Síðan tökum við í Áhaldahúsinu við og þar hefur skipt afar miklu máli að Baldur Jörgen Daníelsson var ráðinn í fullt starf um síðustu áramót og hann hefur það hlutverk að sinna umhverfismálunum yfir sumartímann – og léttir þannig miklu álagi af mér. Yfir vetrartímann höfum við tækifæri til að velta vöngum og leggja á ráðin og svo kemur unga fólkið til starfa þegar sumrar og það eru nærri 60 krakkar að vinnuskólanum meðtöldum.

Myndirnar sem fylgja sýna hluta þeirra bæjarstarfsmanna sem fegra og snyrta.

Birgir bæjarverkstjóri og Baldur Jörgen
Hinn eljusami Stefán Haukur á sláttuvélinni
Máluð leiktæki á Skólabala. Marteinn Mikael, Telma Dögg og Unnur Hrefna
Aron Unnar, Rómeó og Jón Einar leggja stétt undir flaggstöng
Í gini krókódíls – Amalía og Anna Brynja mála á Leikskálum

Á forsíðumynd eru Telma Lind, Anna Día, Andri, Mateusz og Manúel. 

Texti og myndir: ÖK