Á 610. fundi bæjarráðs þann 25.06.2019 frestaði ráðið afgreiðslu á erindi Konráðs K. Baldvinssonar formanns skipulags- og umhverfisnefndar, dags. 12.06.2019 þar sem lagt var til að teknar yrðu loftmyndir með dróna af svæðum í sveitarfélaginu í þeim tilgangi að átta sig betur á því hvar betur mætti fara í hreinsun og fegrun sveitarfélagsins.

Einnig lagt til að sett verði upp skilti á áberandi stöðum við Leirutanga þar sem ítrekað er að ekki sé heimilt að losa sorp.

Lagt fram lögfræðiálit Hjörleifs B. Kvaran, hrl hjá Nordik lögfræðistofu, dags. 27.06.2019 þar sem fram kemur að lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsingar nr. 90/2018 setji verulegar skorður á öflun upplýsinga er varðar persónur og þeirra hagi og að því sé ekki mælt með að nota drónamyndir til að skrá og skoða frágang á lóðum einstaklinga og fyrirtækja.

Bæjarráð samþykkir að sett verði skilti á Leirutanga þar sem ítrekað er að losun á sorpi sé óheimil og felur deildarstjóra tæknideildar að vinna málið áfram.

Bæjarráð synjar beiðni um að teknar verði loftmyndir af svæðum í sveitarfélaginu en felur deildarstjóra tæknideildar að fara yfir svæði í eigu sveitarfélagsins með tilliti til hreinsunar og fegrunar.

Íbúar og eigendur fyrirtækja eru einnig hvattir til þess að hafa snyrtilegt á og við lóðir sínar og fjarlægja eigur sínar af opnum svæðum í eigu sveitarfélagsins.