Síðastliðin 18 ár hefur fjölskylduhátíðin “Fiskidagurinn mikli” verið haldin hátíðleg í Dalvíkurbyggð.

Fiskverkendur og styrktaraðilar hafa boðið öllum gestum og gangandi í mat. Markmiðið með hátíðinni er að fá fólk til að koma saman, borða fisk og njóta samvista. Hátíðin hefur tekist vel og ótrúlegur fjöldi gesta sótt hátíðina heim. Vönduð og fjölbreytt skemmti- og afþreyingardagskrá hefur prýtt daginn og það sama gildir um matinn og dagskrána – Allt er ókeypis.

Útvarpsstöðin FM Trölli og Fiskidagurinn mikli hafa gert samstarfssamning sem felur í sér að FM Trölli verður með útsendingar-hjóðver á Dalvík um fiskidagshelgina og mun senda út dagskrá þaðan. 

Sendar verða út tilkynningar og skilaboð frá lögreglu, viðbragðsaðilum og Fiskidagsnefnd eftir því sem tilefni verða til.

Gestum Fiskidagsins mikla er bent á að hlusta á FM Trölla á tíðninni FM 103.7 eða á netinu, trolli.is

 

Forsíðumynd: Kristín Sigurjónsdóttir, Júlíus Júlíusson og Gunnar Smári Helgason við undirskrift samningsins.