Björgunaraðgerðir í Hvanneyrarskál – (lítil saga af sönnum dýravinum)

“Við gengum þrjú síðdegis upp í Hvanneyrarskál við Siglufjörð í dag. Blíðskaparveður var á og gott útsýni allt til Grímseyjar. Efst á skálarbrún er litla gulmálaða endurvarpsstöðin þar sem hægt er að skrá nafn sitt í gestabók utandyra – þangað lá leiðin. Þegar við erum að nálgast stöðina mætum við tveimur siglfirskum konum. Þær segjast vera í vandræðum því þær hafi heyrt í ketti inni í húsinu en það sé harðlæst og engin leið til að koma honum til bjargar. Utan á húsinu eru tvær loftræstitúður. Ég lagði eyrað upp að annarri þeirra og mjálmaði eins og þegar maður vill vingast við kisur. Eftir smástund hljómaði veikróma svar innan úr húsinu. Greinilegt var að mjög var af kettinum dregið”.

Svona byrjar Gunnsteinn Ólafsson frásögn sína af ótrúlegri björgun kattar laugardaginn 15. ágúst sl. Svo heldur hann áfram:

“Ég lagði til að hringt yrði umsvifalaust í lögregluna. Það var gert og við fengum síðan samband við Mílu sem hefur umsjón með endurvarpsstöðinni. Í fyrstu komu nokkrar vöfflur á þann sem svaraði en svo var sagt að málið yrði skoðað. Þetta fannst okkur ekki nógu sannfærandi viðbrögð. Við höfðum samband við málsmetandi Siglfirðinga sem hringdu í alla þá sem hugsanlega hefðu lykil að húsinu, Björgunarsveitina Stráka þar á meðal en allt kom fyrir ekki. Enginn komst inn. Í skráargatinu var einhverskonar hólkur með númeri sem þurfti greinilega að opnast með einhverskonar rafmagnssendi. Ég reyndi að dýrka upp læsinguna með lykli án árangurs.
Við kölluðum af og til í kisu og hún svaraði okkur alltaf jafn ámátlega. Að okkur læddist sá grunur að dagar kattarins væru senn taldir. Það var farið að draga verulega af henni – það leyndi sér ekki.

Enn var hringt í lögregluna og fengið samband við Mílu. Nú fengust þau svör að maður væri á leiðinni frá fyrirtækinu Tengli á Sauðárkróki og yrði kominn eftir hálftíma til Siglufjarðar. Við gátum ekki hugsað okkur að yfirgefa köttinn í þessari neyð því eitthvað yrði að gera við hann að björgun lokinni og leita eiganda hennar.
Við fengum okkur göngutúr upp í skálina og komum hálftíma síðar aftur að stöðinni. Stöðugt dreif fleira fólk að og fylgdist með í ofvæni. Hver yrðu örlög vesalings kisu? Vildu margir fara niður í bæ og ná í hamar og sporjárn til þess að ná hurðinni af hjörum en ekkert varð af því – enda þyrfti sérstaklega samþykki Mílu til að brjótast inn.

Loks sást til jeppa á leið upp hlíðina og sóttist ferðin seint. Í miðri brekku yfirgaf bílstjórinn bílinn og hélt áfram fótgangandi.
Nú var næstum hætt að heyrast í vesalings dýrinu út um loftræstitúðuna. Það var greinilega aðframkominn af þorsta og hungri. Loks kom maðurinn hlaupandi móður og másandi síðasta sprettinn. Hann reiddi strax fram kort sem lauk upp hurðinni í einu vetfangi og við gægðumst varlega inn. Þarna stóðu nokkrir sendimagnarar á stærð við stór útvarpstæki og lofttúður með veggjum. En kötturinn? – hann var hvergi að sjá. Við leituðum hátt og lágt og kölluðum kis kis en hann þorði greinilega ekki að gefa sig fram. Líklega sat hann fastur einhvers staðar ofan í einhverjum stokki og gæti sig hvergi hrært, klemmdur og illa haldinn. Skagfirðingurinn lagði grannt við hlustir og taldi sig heyra mjálm nálægt einum magnaranum; gott ef hljóðið barst ekki út úr honum sjálfum. Framan á tækinu lýsti rautt ljós. BILUN! Við störðum á tækið. Langdregið mjá heyrðist. Og annað langdregið mjaaaá. Skagfirðingurinn var viss í sinni sök. Sendimagnarinn var bilaður og gaf frá sér viðvörunarhljóð sem líktist ámátlegu, síendurteknu mjálmi.
Okkur var öllum létt, ekki síst Skagfirðingnum. Hann fékk ordrur frá aðalstöðvunum þess efnis að fyrirtækið sem ætti magnarann skyldi sjálft hirða sína kattarkvörn og að ekki yrði reynt að gera við hana; hún væri hvort eð er ekki í notkun.

Þar með var leiðangrinum lokið og kettinum bjargað að vissu leyti. Ég leyfði mér að taka mynd af öðlingnum honum Palla frá Tengli á Sauðárkróki og konu hans sem fylgdi honum í þetta langa útkall – með endurvarpsstöðina í baksýn.
Öllum sem komu við sögu og lögðu björguninni lið með einhverjum hætti eru færðar bestu þakkir: lögreglunni, vakthafandi björgunarsveitarmanni, forsvarsmanni Mílu, vinum og kunningjum sem biðu niðri í bæ tilbúnir með innbrotsverkfæri – og síðast en ekki síst þeim hjónum Páli Stefánssyni og Jóhönnu Birgisdóttur frá Bakka í Viðvíkursveit sem lögðu á sig 200 km ferðalag til að bjarga lítilli kisu í nauðum.”

Á myndinni er björgunarfólkið skagfirska.
Aðsent.