Á sjálfan þjóðhátíðardaginn, 17. júní, sendi hljómsveitin Brek frá sér nýtt lag á allar helstu streymisveitur – um er að ræða ábreiðu af laginu “Litla flugan” eftir Sigfús Halldórsson og Sigurð Elíasson.
Lagið er eitt af okkar ástsælustu dægurlögum sem allir Íslendingar þekkja vel en hér tekur Brek lagið upp á sína arma og setur í nýjan búning.
Hljómsveitin Brek leikur aðallega frumsamda, alþýðu skotna, tónlist með áhrifum úr ýmsum áttum, en meðlimir sveitarinnar leggja mikla áherslu á að skapa áhugaverða en notalega stemningu í hljóðfæraleik sínum. Auk þess er lögð áhersla á fjölskrúðuga notkun íslenskrar tungu í textagerð.
Hljómsveitina skipa Harpa Þorvaldsdóttir söngkona og píanóleikari, Jóhann Ingi Benediktsson gítarleikari og söngvari, Guðmundur Atli Pétursson mandólínleikari og Sigmar Þór Matthíasson kontrabassaleikari og söngvari.
Brek hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin 2022 fyrir Plötu ársins í flokki Þjóðlaga- og heimstónlistar fyrir sína fyrstu plötu sem kom út á síðasta ári. Síðar í mánuðinum fer hljómsveitin svo í viðamikla tónleikaferð um landið sem stendur yfir dagana 26.júní til 9.júlí. Sjá nánar á heimasíðu: www.brek.is