Þau tímamót urðu um mánaðamótin hjá embætti Lögreglunnar á Norðurlandi eystra að tekin voru upp ný eða breytt vaktkerfi hjá vaktavinnufólkinu. Þessar breytingar eru til að mæta styttingu vinnuvikunnar, sem samið var um í síðustu kjarasamningum.

Á facebook síðu lögreglunnar segir. “Á Akureyri hefur verið unnið á 12 tíma vöktum um langt árabil en nú hefur verið tekið upp vinnufyrirkomulag sem byggir að mestu á 8 tíma vöktum.

Þar sem við veitum sólarhringsþjónustu myndaðist við þetta ,,mönnunargat“ sem varð að fylla upp í. Það var gert með því að setja á laggirnar 5. vaktina eða E-vakt, eins og hún heitir hjá okkur.

E-vaktin var að mæta í dag á sína fyrstu vakt en á vaktinni er góð blanda af þaulreyndum lögreglumönnum og yngra fólki, körlum og konum. Þau mæta einbeitt til starfa, tilbúin að veita þjónustu og vinna samfélaginu okkar gagn. Velkomin til starfa E-vakt”.

Mynd/Lögreglan