Ég heiti Albert Einarsson og fæddist heima á Hvanneyrarbraut 62, í kjallaraíbúðinni, og ólst upp úti í bakka og ekki vantaði leiksvæði – fjallið, fjaran og bakkarnir. Það var alltaf eitthvað við að vera.
Pabbi, Einar M. Albertsson, var skósmiður, verkamaður og síðar meir póstmaður um langt skeið. Mamma, Þórunn Guðmundsdóttir, alltaf kölluð Dúdda, var verkakona og vann m.a. í frystihúsi SR, en ég man mest eftir því að hún skúraði í barnaskólanum og svo vann hún lengst af í þvottahúsi sjúkrahússins. (Meira um þau Einar og Dúddu hér (Einar) og (Dúdda).
Ég var kennari og skólameistari á Íslandi og flutti svo til Noregs og starfaði þar við menntamál, einkum menntun fullorðinna.
Brilljantín í hárið
Ég var ekki meira en sjö ára. Ég var aleinn heima í kjallaranum á Hvanneyrarbraut 62. Það var sumar og gott veður, eins og alltaf úti í bakka, og ég ætlaði að fá mér eitthvað að borða og fara svo út að leika mér, en fór inn á bað og kom þá auga á krukku með hvítu kremi sem ég hafði séð pabba nota í hárið öðru hvoru. Ég ákvað að prófa þetta fína krem. Þar sem ég er önnum kafinn við að smyrja kremi í hárið kom Nonni Adda inn. Nonni var eldri en ég og reyndari og hvað hann vildi veit ég ekki, en þegar hann sá mig smyrja helling af brilljantíni í hárið hrópað hann: Þetta er allt of mikið, þú verður sköllóttur, hárið er að hverfa og skallinn er orðinn stór.
Ég var of lítill til að geta séð ofan á höfuðið og trúði Nonna.
Ég skalf af hræðslu, það var ekkert grín að verða sköllóttur, og bara sjö ára. Ég greip húfu og tróð henni á höfuðið og niður fyrir eyru og hljóp af stað. Ég vissi að mamma væri niðri í bæ að versla. Ég hljóp eins hratt og mínir litlu fætur gátu borið mig, suður fyrir verkamannabústaði, fram hjá sundlauginni og svo var það bakaríið. Ég tók á mig svolítinn krók til þess að sleppa við að fara í gegnum villimannahverfið og svo þvert fyrir fótboltavöllinn og framhjá brennivínsbúðinni og rakleiðis inn að Verslunarmannafélaginu, í von um að mamma væri þar. Jú, þar var mamma. Hún var að tala við einhverjar konur þegar ég kom hlaupandi inn í búðina og hrópaði: Mamma, mamma, ég er að verða sköllóttur, ég er orðinn sköllóttur. Mamma og konurnar hættu að tala og horfðu á mig stórum augum. Hvað ertu að segja, sagði mamma. Sköllóttur, en þú ert með húfuna á höfðinu. Ég reif af mér húfuna og sýndi þeim skallann. Nonni sagði að ég væri orðinn sköllóttur.
Það er ekkert að þér, sagði mamma. Hárið er bara glansandi fínt, hvað settirðu í hárið? Mér létti. Ég var bara inni á baði og það var krem í krukku, þetta sem pabbi setur í hárið sitt, og hann er alls ekki sköllóttur.
Strákurinn hefur bara sett dálítið of mikið brilljantín í hárið, sagði mamma við konurnar. Hann verður bara fínn á eftir.
Þetta var í fyrsta sinn sem ég heyrði brilljantín nefnt, svo ég muni. En seinna lék kremið stórt hlutverk í baráttu okkar unglinganna við að herma eftir spennandi fyrirmyndum úr bíómyndum.
Forsíðumynd/Albert fyrir neðan verkamannabústaðinn
Mynd/Einar Albertsson