Á vefsíðu Heilsugæslunnar birtist eftirfarandi grein um D-vítamínskort og hvernig best er að forðast hann.
Nú á tímum Covid-19-faraldurs er mikilvægt sem aldrei fyrr að huga vel að líkamlegri og andlegri heilsu. Góð næring er einn af þeim þáttum sem eru mikilvægir fyrir eðlilega starfsemi ónæmiskerfisins og nokkuð hefur verið rætt um gagnsemi ákveðinna matvæla og næringarefna í baráttunni við veiruna. Það er hins vegar svo að engin ákveðin matvæli eða fæðubótarefni geta komið í veg fyrir að fólk smitist af veirunni.
Hollur og fjölbreyttur matur
Mörg vítamín og steinefni taka vissulega þátt í starfsemi ónæmiskerfisins í baráttunni við sýkingar, til dæmis járn, selen, sínk, A-vítamín, C-vítamín, D-vítamín og mörg B-vítamín og besta leiðin til að tryggja að líkaminn fái þessi næringarefni er að fylgja ráðleggingum embættis landlæknis um að borða hollan og fjölbreyttan mat. Í þeim ráðleggingum er lögð áhersla á að borða lítið unnin matvæli sem eru rík af næringarefnum frá náttúrunnar hendi, svo sem grænmeti, ávexti, ber, hnetur, fræ, heilkornavörur, baunir, fisk, hreinar, magrar mjólkurvörur og magurt kjöt.
Á móti er mælt með að takmarka neyslu á unnum matvörum sem innihalda oft mikið af mettaðri fitu, sykri eða salti. Sem dæmi um slíkar vörur má nefna gosdrykki, sælgæti, kex, kökur, snakk, skyndibita og unnar kjötvörur.
D-vítamín eða lýsi
Undantekning frá þessu er D-vítamín, en það er í mjög fáum fæðutegundum og því erfitt að fullnægja þörf líkamans með matnum einum saman. Líkaminn getur myndað D-vítamín í húðinni með hjálp sólarljóss en í ljósi þess hve norðarlega við búum á hnettinum getum við ekki treyst á þessa náttúrulegu framleiðslu, að minnsta kosti ekki yfir vetrarmánuðina. Þess vegna er öllum sem búa á Íslandi ráðlagt að taka D-vítamín sem bætiefni, til dæmis lýsi, lýsisperlur eða önnur bætiefni sem innihalda D-vítamín.
Ráðlagður dagsskammtur af D-vítamín fyrir börn að 10 ára aldri er 10 míkrógrömm (400 alþjóðaeiningar) á dag, 15 míkrógrömm (600 alþjóðaeiningar) á dag fyrir fólk á aldrinum 10-70 ára og 20 míkrógrömm (800 alþjóðaeiningar) á dag fyrir fólk yfir sjötugu. Ef það er hins vegar skortur á D-vítamíni í líkamanum þá gæti verið þörf fyrir stærri skammta (25-50 míkrógrömm eða 1.000-2.000 alþjóðaeiningar), að minnsta kosti tímabundið. Það er ekki ráðlegt að taka að jafnaði hærri skammta en 100 míkrógrömm á dag (4.000 alþjóðaeiningar) nema í samráði við lækni þar sem D-vítamín er eitt þeirra vítamína sem geta valdið eitrun ef það er innbyrt í of miklu magni.
D-vítamínskortur er algengur á Íslandi
Það er vel þekkt að góður D-vítamínbúskapur er mikilvægur fyrir beinheilsu og undanfarin ár hafa rannsóknir gefið vísbendingar um að D-vítamín eigi þátt í að draga úr líkum á ýmsum sjúkdómum og leiki meðal annars hlutverk í ónæmiskerfi líkamans. Það er ekkert sem bendir til þess að stærri skammtar en ráðlagður dagsskammtur af D-vítamíni gagnist ónæmiskerfinu, það er að segja ef skortur er ekki til staðar. Vísbendingar eru hins vegar um að líkaminn eigi erfiðara með að glíma við hvers kyns veirusýkingar sé skortur fyrir hendi. D-vítamínskortur er nokkuð algengur hér á landi, sérstaklega hjá þeim sem ekki taka D-vítamínbætiefni að jafnaði. Það er því mikilvægt nú sem fyrr að allir sem einn hugi að sinni heilsu og sínum D-vítamínbúskap og taki D-vítamín daglega.
Í efnisflokknum Næring á heilsuvera.is má meðal annars skoða ráðleggingar um mataræði eftir aldri og fá einfaldar hugmyndir til að bæta neysluvenjur.
Höfundur er Óla Kallý Magnúsdóttir næringarfræðingur á Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu .
Mynd/Heilsugæslan