Draugasaga, – skrifað eftir minni 15. mars 2021
Við lestur greinarinnar hans Leós um draugagang, meintan og “alvöru”, þá datt mér í hug þegar ég í fyrsta og eina skiptið “sá draug”.
Ég man ekki nákvæmlega hvaða ár það var, sennilega hefi ég verið 15 ára. Ég fór í Bíó, sem oftar, ekki þó sem gestur, heldur til að sýna hina sígildu hrollvekju; myndina Frankenstein með stórleikaranum Boris Karloff. Svarthvít mynd frá árinu 1931.
Þó svo að þetta hafi verið í annað sinn sem ég sá myndina, pabbi hafði séð um frumsýninguna og ég niðri í sal, þá fór mörgum sinnun hrollur og gæsahúð um kroppinn á guttanum, því þessi kvikmynd er alvöru hrollvekja. Þetta var um haust og úti var mikið sunnan hvassviðri með rigningu.
Hvað með það, ég kláraði sýninguna eins og ég var vanur og gekk frá.
Ég fór niður stigann á leið út í sundið að austanverðu, opnaði útidyrnar. Um leið heyrði ég mikinn skruðning og högg aftan við mig. Ég leit við og sá koma fljúgandi í áttina til mín, að mér sýndist vera vofa (eins og oft hafði sést í bíómyndum) fannst mér.
Ég rauk út, skellti hurðinni á eftir mér og næst er ég mundi eftir mér, þá stóð ég á Aðalgötunni. Þá fór ég að hugsa. Ég trúi ekki á drauga, hvers vegna flúði ég skíthræddur ? Hvað var þetta ?
Ég stóð kyrr í smástund, barði í mig kjark og snéri við inn í koldimmt sundið, þá var gosverksmiðja þeirra Aage Schiöth og Einars Kristjánssonar efnafræðings enn á sínum stað og myndaði sundið austan við Nýja Bíó.
Ég stakk lyklinum í smekklásinn og tók í handfangið, hurðin var föst. Ég reyndi aftur og tókst með átökum að opna, og ljósið sem ég hafði ekki slökkt við æsinginn, sýndi mér nú glöggt hvað hafð skeð.
Ástæðan fyrir hversu erfitt var að opna hurðina var sú að magn af umbúðapappír hafð klemmst á mill er ég skelli hurðinni. En uppi á skörinni hafði verið bunki af notuðum pappír ætluðum til nota þega bíófilmurnar yrðu endursendar.
Þegar ég hafði opnað útidyrnar myndaðist mikill trekkur vegna sunnan roksins sem fyrr segir frá hér í upphafi, sem og tók með sér pappírinn útbreiddan, hinn meinta draug í átt til dyraranna og skellti samhliða efri hurðinni, sem ég hafð gleymt að loka.
Ég hló mikið að sjálfum mér á eftir, þegar gátan um draugaganginn var ráðin.
Hins vegar talað Oddur Thorarensen oft um að hann veigraði sér við að fara einn inn í bíósalinn á kvöldin eftir sýningar, því honum fannst alltaf sem einhver væri að horfa á sig, rétt við bak hans.
En sögur hermdu, að er verið var að byggja húsið 1923-4, þá var möl sótt austur í fjöruna í nánd við Selvíkina. En þar var sögð álfabyggð. Við það varð hörmulegt slys er fjórir menn drukknuðu. Og að þar væri draugur eða draugar á ferð.
Nánar um sjóslysið má lesa neðarlega á síðunni http://www.sk2102.com/436577099 en þar segir:
Framtíðin – 8. september 1923
1. árgangur 1923, 22. Tölublað.
Mótörbátur ferst hjer á firðinum. 4 menn drukna.
Síðasta mánudag vildi það sorglega slys til, að mótorbátur fórst hjer á firðinum og druknuðu allir er á bátnum voru. Báturinn lagði af stað frá Gránubryggju í blíðalogni með snyrpinótabát aftan í sjer, til að sækja möl í hann. En áður en komið var yfir fjörðinn, skall á alt í einu afskapa sunnanstormur, sneru bátverjar þá þegar heim á leið aftur, en þá vill til sú ógæfa, að vjelin bilar, og hrekjast bátarnir út fjörðinn.
Norskt skip Pr. Wilson, sá bátinn á reki, og snjeri þegar að honum til að reyna að bjarga. Skipverjum tókst að koma kaðli um borð í mótorbátinn, og var hann bundinn um mastursstubbinn. Þegar skipið svo ætlaði að fara að slefa bátnum, lagðist hann flatur fyrir vindinum, og var að því kominn að kantra, til þess að hindra það, sleptu skipverjar kaðlinum, en þá skall á afskapleg roka, og báturinn kantraði og sökk.
Pr. Wilson lá í heilan klukkutíma á staðnum sem slysið vildi til, en skipverjar sáu ekkert til manna meir. Þrír af þessum 4 mönnum er druknuðu voru hjeðan af Siglufirði og hjetu þeir: Júlíus Jóhannsson, Þorleifur Jónsson og Zophanías Guðmundsson. Sá fjórði hjet Guðbrandur Árelíus Guðbrandsson og var ættaður úr Reykjavík. Júlíus var kvæntur, skilur eftir sig konu og eitt barn, hinir voru ókvæntir.
Ath. sk 2018: Verið var að sækja möl vegna byggingar á húsinu við Aðalgötu 30, það er Nýja Bíó, sem verið var að byggja á þessum tíma. Húsið var vigt til kvikmyndaýninga föstudaginn 18. júlí árið 1924
————————————————————————
Forsíðumynd: SK