Neytendastofa vekur athygli á að í kjölfar viðræðna við framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hafa þrjár stórar ferðaskrifstofur á netinu skuldbundið sig til að upplýsa neytendur betur ef flugi er aflýst og að flytja endurgreiðslur til neytenda frá flugfélögum innan sjö daga. Þetta þýðir að neytendur fá endurgreitt innan 14 daga frá því að fluginu er aflýst.

Eins og fram kemur í reglum um réttindi flugfarþega eiga flugfélög að endurgreiða farþegum innan 7 daga ef flugi er aflýst en hafi farþegi keypt flugmiða í gegnum millilið berst milliliðnum endurgreiðslan. Nú hafa þrjár af stórum ferðaskrifstofum á netinu sem selja flugmiða skuldbundið sig til að millifæra endurgreiðsluna til neytenda innan 7 daga frá því að hún berst frá flugfélaginu.

Þessar aðgerðir eru eftirfylgni frá fyrri viðræðum við 16 helstu flugfélögin í Evrópu sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og neytendaverndarstofnanir í álfunni hófu árið 2021. Þær viðræður leiddu til þess að í júlí 2022 endurgreiddu flugfélögin yfir 500.000 inneignir sem þau höfðu veitt neytendum vegna aflýstra flugferða meðan á COVID-19 faraldrinum stóð. Aðgerðir flugfélaganna vörpuðu ljósi á tafir á endurgreiðslu sem neytendur urðu fyrir þegar niðurfelldir miðar höfðu verið keyptir í gegnum ferðaskrifstofur.

Yfirlit skuldbindinganna
Þær ferðaskrifstofur sem aðgerðin beinast að eru eDreams ODIGEO (sem rekur vefsíðurnar Opodo og Travellink), Etraveli Group (sem rekur vefsíðurnar Mytrip.com og Gotogate) og Kiwi.com.

Í kjölfar viðræðnanna féllust fyrirtækin á eftirfarandi :

• Ef flugi er aflýst fá farþegar endurgreitt innan 7 daga frá þeim degi sem ferðaskrifstofan fær endurgreiðslu frá flugfélaginu. Þetta leiðir til þess að farþegi fær endurgreiðslu innan 14 daga frá því að flugi var aflýst.
• Upplýsingar um símanúmer og netfang verða veittar á vefsíðunni þannig að farþegi geti átt samskipti við ferðaskrifstofuna með tölvupósti eða símtali ef hann kýs.
• Upplýsingar um kosti mismunandi þjónustupakka sem eru í boði verða gerðar skýrari fyrir farþega.
• Farþegar fái skýrar upplýsingar um lögbundinn rétt sinn (skv. reglugerð 261/2004) til að fá nýtt flug eða endurgreiðslu ef flugi er aflýst af flugfélaginu.
• Farþegar fá skýrar upplýsingar um hvaða afleiðingar það getur haft að kaupa flug í gegnum ferðaskrifstofuna í stað þess ef flugið er keypt beint af flugfélaginu (t.d. að samskiptaupplýsingar um farþegann hafa ekki verið færðar til flugfélagsins).

Fréttatilkynninguna frá framkvæmdastjórninni má nálgast í heild sinni (á ensku) hér.

Frekari upplýsingar (á ensku):
Consumer protection: Airlines reimburse over 500,000 flight vouchers as result of Commission and consumer authorities action in COVID-19 pandemic
Coordinated consumer actions: air travel
Consumer Protection Cooperation Network