Sumir geta eflaust furðað sig á þessari einkennilegu samsuðu í fyrirsagnar orðum, en margir eldri Siglfirðingar minnast þess að hafa verið meðlimir í IOGT barnastúkufélaginu Eyrarrós 68 og farið reglulega á fundi í gamla Sjómannaheimilinu við Suðurgötu 14. Svo fylgja þessu líka minningar um skógræktar sumarvinnu og maðurinn sem tengir þetta allt saman á skiljanlegan máta og var aðal driffjöðurin á bak við þessa heilbrigðu barnastarfsemi, var okkar ástkæri barnaskólakennari og skólastjóri, Jóhann Þorvaldsson. F. 1909 – D 1999.
Hér birtast ykkur minningar og myndir sem margir eflaust þekkja sig í, frá stúkufélagsstarfsemi, ýmsum minningum sem tengjast hinu löngu horfna Sjómannaheimili Siglufjarðar, sem á sér allt aðra sögu en Norska sjómannaheimilið við Aðalgötuna og að lokum dáumst við af áratuga eljunni í að þráast við að skapa fallegt skógarsvæði í Skarðsdal o.fl… það nyrsta sem til er á Íslandi.
Eyrarrós 68 kallar!
Bindindissamtökin IOGT á Íslandi hefur starfað hér á landi í 140 ár og starfsemin var lengi vel mjög svo öflug á Siglufirði gegnum stúkuna/deildina Framsókn nr. 187 sem hóf starfsemi á ný árið 1935. Barnastúkan Eyrarrós nr. 67, er þó mun eldri samkvæmt heimildum frá sögumanninum Leó Ólason:
“Barnastúkan Eyrarrós no. 68, var stofnuð þ. 14 janúar 1923. Aðal hvatamaðurinn að stofnun hennar var Guðrún Jónsdóttir frá Ystabæ og var hún fyrsti gæslumaður stúkunnar. Síðan tóku við starfi hennar í tímaröð; Katrín Dúadóttir, Kristján Dýrfjörð, Jón Jónasson, Þóra Jónsdóttir og loks Jóhann Þorvaldsson sem hafði starfann á hendi í u.þ.b. 30 ár samfleytt. Eyrarrós var lengst af ein fjölmennasta stúka landsins með um 300 meðlimi þegar flest var.“
Heimild: (1963 – Siglufjörður fyrir hálfri öld)
Í mínum minningum um Eyrarrós 68, var það hreinlega hefð að börn færu reglulega á stúkufélagsfundi, um það leyti sem maður byrjaði í barnaskólanum. Margir misstu líklega áhugann um fermingu, en sumir voru virkir meðlimir út gagnfræðaskóla ár sín. Markmiðið var að halda ungu fólki frá tóbaks og áfengisneyslu og byggja upp sterka einstaklinga í góðum félagsskap.
Hér minnist ég kennslustunda í hvernig maður rekur lýðræðislegt félag, kosið var í stjórn og nefndir og allt framkvæmt eftir reglugerðum IOGT. Jóhann Þorvaldsson var gæslumaður barnastúkunnar Eyrarrós 68 í áratugi og samfara því æðstitemplar góðtemplarastúkunnar Framsóknar 187.
Eftir allskyns ræðuhöld og formlegheit, var sungið, föndrað og farið í leiki, allt saman á þessum tíma gott og hollt fyrir börn og verðandi fullorðna krakka.
ATH. Smellið á mynd og hún birtist þér stærri.
Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson.
Sjómanna og gesta heimili Siglufjarðar
Jóhann Þorvaldsson var forstöðumaður Sjómannaheimilisins Siglufjarðar sem stúkan Framsókn, rak á árunum 1941 til 1960 og samtímis ritstjóri Regins.
Þetta hús á sér merkilega sögu og er það upprunalega byggt af kvenfélaginu Von, sem síðan selur það með góðum afslætti til IOGT Framsókn og er það þar á eftir Sjómanna og gistiheimili fyrir fyrir Íslenska síldarsjómenn og einhverskonar félagsheimili fyrir aðkomufólk sem vann í síldinni yfir sumartímann.
Sjá meira hér í þriggja bls. ýtarlegri grein í Sjómannablaðinu Víking, 4 árgangur 1942. Hér var rekin gríðarlega fjölbreytt þjónustustarfsemi fyrir aðkomufólk og sjómenn.
Húsið leynir á sér, það lýtur ekki út fyrir að vera neitt sérstaklega stórt, séð frá Suðurgötunni. Fellur vel inn í hallandi lóð og sá hluti sem snýr upp að Lindargötunni, minnir mig hafi verið algjörlega gluggalaus. Vestur veggurinn var í rauninni einhverskonar múr, sem afmarkaði fallegan dularfullan hallargarð, sunnan við Hólahúsið fræga.
Þeir sem ekki komu þarna reglulega á stúkufundi, minnast kannski meira, að yfir vetrarmánuðina heima á Sigló var Sjómannaheimilið, lengi vel einhverskonar Félagsheimili bæjarbúa. Þarna voru haldnar allskyns samkomur og skemmtanir og kannski var húsið frægast fyrir að vera aðalbækistöð Leikfélags Siglfirðinga í áratugi.
Sviðið var svo sem ekki stórt og ekki salurinn heldur, en þarna voru settar upp metnaðarfullar leiksýningar og leiktjaldamálarar og smiðir voru með eindæmum duglegir, eins og sjá má í myndasyrpunni hér undir.
Ath. Smellið á mynd og hún birtist þér stærri.
Ljósmyndari, allar myndir: Kristfinnur Guðjónsson.
Skógræktar sumarvinna!
Minningar, myndir o.fl.
“Skógræktarfélag Siglufjarðar var stofnað árið 1940 og hefur allt frá því ári séð um uppbyggingu Skógræktar Siglufjarðar í Skarðsdal. Skógurinn er nyrsti plantaði skógur á atlandshafshryggnum og í honum leynist hinn glæsilegi Leyningsfoss.”
(Sigló.is, stutt grein úr greinar flokknum: Áhugaverðir staðir)
Jóhann Þorvaldsson var mikil frumkvöðull varðandi skógrækt og var hann formaður Skógræktarfélags Siglufjarðar allt fram til ársins 1987. Hann var heiðursfélagi Skógræktarfélags Íslands og var sæmdur Fálkaorðunni fyrir kennslu og skógræktarstörf.
Barna uppeldi sem og skógrækt er langtímaverkefni og Jóhann hafði þessa einstöku þolinmæði og trú á að árgangur verði sýnilegur seinna… löngu seinna. Skógrækt byrjaði t.d. á Skarðsdals svæðinu um 1950, sem sagt fyrir 75 árum síðan. Á ýmsum stöðum í Siglufirði má sjá smá bletti af trjám, þetta eru gömul tréræktunar tilraunasvæði, áður en allur kraftur færist í Skarðsdal. Margir höfðu upphaflega enga trú á þessari skógræktar hugmynd Jóhanns, en í dag eru allir sammála um að að allt þetta svæði sé með eindæmum fallegt fyrir náttúruunnendur sem og golf- og skíðafólk o.fl.
Ath. Smellið á mynd og hún birtist þér stærri.
“Þegar gengið er um skógræktina, sér maður hvað það hefur verið mikið átak, sem sá ágæti maður Jóhann Þorvaldsson hefur afrekað á sínum tíma í allri gróðursetningu. Fékk hann með börn og unglinga sem hann óskaði eftir úr skólum og vinnustöðum til gróðursetningarinnar. Þegar Jóhann féll frá tók Anton Jóhannsson við sem formaður og sá um skógræktina í mörg ár. Í dag er Kristrún Halldórsdóttir formaður.” Sjá meira hér og margar fallegar ljósmyndir frá skógræktinni: Skógræktardagur á Siglufirði. Sigló.is 2011.
Skólagarðar?
Pistlahöfundur á sér barnæsku minningar um skyldumætingu í skógræktar sumarvinnu með Jóhanni Þorvalds, bæði í Skarðsdal og einnig á svæði sem mig minnir hafi oftast verið kallað Skólagarðar. Þá afgirt svæði, á milli Suðurgötu 68 og 70. Upp í fjallshlíðinni ofan og sunnan við þetta svæði voru margar fjölskyldur með kartöflugarða.
Þetta var að mestu leyti nokkuð skemmtileg sumarvinna fyrir 10-12 ára gömul börn, get ómögulega munað hvort við fengum borgað frá bænum eða hvort þetta var “sjálfboðavinna”.
Á gönguför um fjörðinn fagra sumarið 2018, við myndatökur og greinaskrif varðandi “Furðulegar götur 1-4 hluti“, er mér minnisstætt, að ég staldraði of við og dáðist hversu mikil vakning hefur orðið varðandi garðrækt og náttúruvernd heima á Sigló á síðustu 50 árum eða svo. Hér held ég að óbilandi trú Jóhanns Þorvalds, á að tré fegra umhverfið og veita öðrum gróðri skjól samtímis, hafi smátt og smátt fest í hjörtum flest allra Siglfirðinga. Við eigum öll, þessum manni mikið að þakka.
Ætlun pistlahöfundar með þessari sögusamantekt er að minna lesendur á söguna á bak það sem við sjáum í dag og ég mæli eindregið með göngutúrum, sem hafa það eina markmið að opna eigin augu og sjá tré og smáskógarsvæði sem dyljast víða í firðinum fagra. Eins og t.d. þetta svæði:
Það er ákaflega fallegt þarna, bæði fyrir ofan og neðan Brekkugötuna. Þarna er heilmikill “gleymdur skógur” eins og sést á myndinni hér fyrir ofan. Grenitré sem vaxa óvarin, lengst í norðurátt, eru nakin að norðanverðu og í skóginum fyrir neðan er stórt og mikið tröll sem felur sig í gróðrinum hjá gistiheimilinu The Herring house.”
Höfundur samantektar:
Jón Ólafur Björgvinsson .
Sjá meira söguefni eftir sama höfund hér:
https://trolli.is/author/nonni/
Forsíðu ljósmynd:
Kristfinnur Guðjónsson.
Allar ljósmyndir eru birtar með leyfi frá Ljósmyndasafni Siglufjarðar.