Við gerð langtímakjarasamninga á vinnumarkaði var því m.a. beint til sveitarfélaga að endurskoða gjaldskrárhækkanir sem tóku gildi um síðustu áramót er varða barnafjölskyldur og fólk í viðkvæmri stöðu.
Miðað er við hjá Fjallabyggð að hækkanir þessa árs verði ekki umfram 3,5%. Þá verði gjaldskrárhækkunum stillt í hóf eins og nokkur kostur er á samningstímanum.
Bæjarstjórn Fjallabyggðar hefur brugðist jákvætt við þessari beiðni og því munu þær gjaldskrár sem beinast að fjölskyldufólki og fólki í viðkvæmri stöðu lækka frá og með 1. maí nk. Þetta eru t.d. gjaldskrár grunnskóla, leikskóla og íþróttamiðstöðva.
Einnig mun gjaldskrá Tónlistarskólans á Tröllaskaga lækka fyrir upphaf næsta skólaárs.
Vegna þessara breytinga má búast við að greiðsluseðlar muni berast seinna en vanalega inn í heimabanka einstaklinga.