Í gærkvöldi var almennur fundur með Sigurði Inga Jóhannssyni ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála. Fundurinn var haldinn á Hótel Hvítserk og var vel sóttur.
Málefni fundarins var vegurinn um Vatnsnes, vegur 711. Ráðherra þótti jákvæður og sýndi áhyggjum íbúa skilning.
FM Trölli var á staðnum og hljóðritaði fundinn. Upptakan verður á dagskrá FM Trölla í dag kl. 17:00.
FM Trölli er á 102.5 MHz á Hvammstanga og nágrenni, en 103.7 MHz á Tröllaskaga og í Eyjafirði. Einnig má hlusta á stöðina hér á vefnum.
Meðal ræðumanna á fundinum var Guðrún Ósk, íbúi á Vatnsnesi sem talaði fyrir hönd íbúa, og hér fyrir neðan má lesa pistil frá henni. Fleiri myndir neðst.
Ég ætla að segja ykkur frá því hvernig það er að búa á Vatnsnesi. Ég hef svo sem ekki búið lengi á Vatnsnesi, ekki nema rétt tæp tvö ár. En ég get sagt ykkur að hér er gott að vera. Hér býr gott fólk í fallegu umhverfi. Hér er mjög gróðursælt og innlögnin sér til þess að maður getur þurrkað þvottinn úti nær allt árið um kring. Núna blasir það svo við að vegurinn okkar er ónýtur. Umferðin um veginn hefur stóraukist síðustu ár og eins og staðan er í dag sjáum við ekki fyrir endann á þessari aukningu. Viðhald á veginum hefur með engu móti fylgt þeirri öru þróun sem hefur orðið og því ófyrirséð um afleiðingarnar ef horft er til framtíðar og ef ekkert verður að gert eins og hingað til hefur verið ítrekað reynt að komast upp með.
Viðhaldskostnaður á bílunum okkar er margfaldur miðað við það sem gengur og gerist og það sem verra er að endursöluverð á þeim er svo gott sem ekkert því bílarnir skemmast á stuttum tíma þegar þeim er boðin slík meðferð sem vegurinn býður upp á. Viðgerðarmenn á svæðinu segja að bílarnir okkar komi mun oftar inn á verkstæðið í viðhald sem er langt frá því sem getur talist eðlilegt.
Nær allir ábúendur á Vatnsnesi hafa hjálpað ökumanni sem hefur lent í óhappi. Nær allir ábúendur hafa horft upp á eða komið að slysi. Alltof margir hafa komið að slysi þar sem fólk er slasað og kalla þurfti eftir sjúkrabíl. Það er ekkert eðlilegt við það ástand og kvíðvænlegt fyrir íbúa að búa við þann ótta að einn daginn þegar þú kemur að bíl utan vegar að einhver sé lífshættulega slasaður eða jafnvel látinn.
Mörg útköll hafa verið síðustu ár vegna bíla sem hafa fest sig við að keyra niður að Hvítserk og upp að Borgarvirki. Síðast þegar ég fór í Leifsstöð þá var þar falleg mynd af Hvítserk böðuðum norðurljósum. Gerist ekki mikið fallegra en það og mikið aðdráttarafl. Oftar en ekki sér maður Ísland markaðssett með Hvítserk í forgrunni. Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að ef Hvítserkur væri á Suðurlandi þá væri löngu búið að malbika marga hringi í kringum hann. Er í alvörunni forsvarandi að nota Hvítserk í svona markaðstilgangi meðan að vegurinn er ekki betri en raun ber vitni?
En aftur að umferðaróhöppunum. Það eru ekki allir svo heppnir sem lenda í óhöppum á annað borð að það fari svo vel að engin skaði hlýst af. 21.júlí 2004 varð banaslys við Valdalæk þegar tékknesk kona á fertugsaldri lést þegar bíll, sem hún var farþegi í, fór út af veginum og valt. Önnur kona var flutt lífshættulega slösuð á sjúkrahús og um tíma haldið sofandi.
Í október 2016 valt bíll við Krossanes með 4 kínverskum ferðamönnum. Flytja þurfti þá alla suður til Reykjavíkur á forgangi með báðum sjúkrabílum svæðisins. Þarna var fólk alvarlega slasað og þykir mikil myldi að fólk skyldi sleppa lifandi. Gunnar Sveinsson sjúkraflutningamaður sagði að það hefði verið hræðilegt að þurfa flytja fólkið veginn eins og hann var á þessum tíma þar til komið var á þjóðveg 1. Já það er nefnilega einn stór þáttur í þessu öllu saman. Þegar alvarleg slys verða, og þau verða, þá eru viðbragðsaðilar miklu lengur á staðinn heldur en ef ástand vegarins væri í lagi. Þegar alvarleg slys verða þá skiptir oft hver sekúnda máli, hvað þá mínútur.
Myndirnar sem fylgja pistli mínum sýna allar bíla sem hafa farið útaf og/eða velt á veginum á árunum 2017 til dagsins í dag. Tvær öftustu myndirnar eru þó eldri en þær sýna skólabíl sem lenti utan vegar og valt ofaní skurð árið 2007. Til allrar hamingju var bílstjórinn, sem slapp án alvarlegra meiðsla, búinn að skila öllum börnum til síns heima og því einn í bílnum á heimleið. Við spyrjum ekki að leikslokum ef bíllinn hefði verið fullur af börnum. Sögurnar eru jafn ótrúlegar og þær eru margar.
Hjónin á Súluvöllum telja upp 16 tilvik þar sem bílar hafa lent útaf á 3 km kafla við bæinn þeirra og er þá ótalinn fjöldi bíla sem hefur lent í hrakningum á leið niður að Hvítserk. Þau hafa horft upp á Björgunarsveit og dráttarbíla hjálpa vegfarendum. Þau hafa horft upp á kranabíla hirða upp ónýta bíla og þau hafa horft upp á sjúkrabíla og þyrlu flytja slasaða á brott.
Hjónin á Bergstöðum segja svipaða sögu. Þau hafa horft upp á ökumenn missa stjórn á bílum sínum og lenda utan vegar, þau hafa horft upp á bíla velta útaf veginum og fólk flutt burt með sjúkrabílum. Guðmann á Harastöðum telur upp 3 bílveltur á sinni landareign síðustu 2 ár. Í öll skipti voru ökutækin mikið skemmd, sennilega ónýt. Halldóra á Hvoli telur upp 2 bílveltur í nágrenni við sína landareign á árunum 2015-2016.
Það er einlæg ósk okkar allra að þessu fari að linna og þessi fundur sé aðeins upphafið af því að við fáum loks bót okkar mála. Það sjá það allir að ástandið getur ekki verið svona mikið lengur. Það mun enda með stórslysi og við erum einfaldlega ekki tilbúin til þess að bíða eftir að það gerist. Við erum áhyggjufull. Núna er veturinn á næsta leiti. Vegurinn er ekki í góðu ásigkomulagi eins og við vitum öll. Það sem bíður okkar þegar fer að frysta fyrir alvöru er óráðið. Vegurinn með öllum þessum holum kemur til með að frjósa og þá fyrst er voðinn vís. Vegur alsettur djúpum holum og háll af klaka hjómar kannski spennandi ef þú ert í leit að ævintýrum, en ef þú ert einfaldlega að reyna að komast til vinnu eða með börn til skóla þá hljómar það allt annað en spennandi. Ég sé ekki annað en að ferðatími okkar komi til með að aukast enn frekar ef fer sem horfir.
Mig langar að benda á að samkvæmt lögum um skólaakstur í grunnskóla stendur: Daglegum skólaakstri ber að haga með þeim hætti að nemendum sé ekið heim sem fyrst eftir að lögbundnum skóladegi lýkur. Miða skal við að daglegur heildartími skólaaksturs, að meðtöldum biðtíma, sé að jafnaði ekki lengri en 120 mínútur.
Núna er það svo að börnin okkar sem sitja lengst í skólabílnum ná þessum hámörkum. Ferðatími þeirra hefur aukist um 10 mín í ferð sem gerir um 20 mín á dag eða 1 klst og 40 mín á viku. Slæmt ástand vegarins hefur gífurleg áhrif á þennan tíma, svo ekki sé talað um líðan barna okkar.
Sum börnin finna fyrir bílveiki þegar þau loks koma í skólann, geta illa tekið þátt í lífi fjölskyldunnar eftir að heim er komið vegna þreytu eftir ferðina og það hefur komið fyrir að börnin okkar hreinlega kasti upp á leiðinni. Þetta hljómar auðvitað eins og lygasaga. Málið varðar augljóslega velferð barna okkar sem hafa sagt að þau kvíði því að fara í skólann, þau kvíði því að fara heim. Þau njóta ekki sömu tækifæra og önnur börn á svæðinu til þess að taka þátt í því öfluga tómstundar og íþróttastarfi sem sveitarfélag okkar hefur uppá að bjóða.
Í gær var haldinn almennur fundur á Hótel Hvítserk með Sigurði Inga Samgöngu- og sveitastjórnarráðherra. Málefni fundarins var vegurinn um Vatnsnes. Mér fannst ráðherra jákvæður í garð okkar og sýndi áhyggjum okkar skilning. Hvort það sé nóg til að vegurinn komist inn á samgönguáætlun skýrist vonandi á næstu vikum og eins hvað á að gera til að bæta ástandið fyrir íbúa. #vegur711