Síðast liðið mánudagskvöld, 17. október, varð langþráður draumur að veruleika. Framtíðarhúsnæði félagsmiðstöðvarinnar Neons í Fjallabgð var opnað á Siglufirði. Síðustu frágangsverk eru í vinnslu og fyrirhugað að setja lyftu í húsnæðið seinna í haust. Húsnæðið er stórt, rúmgott og allt hið glæsilegasta.

Fjölmargir unglingar mættu á fyrstu opnun og var ekki annað að sjá en að allir væru himinlifandi með nýju aðstöðuna. Það voru verktakar úr heimabyggð sem sáu um framkvæmdina og er óhætt að segja að vel hafi til tekist. Húsnæðið skiptist í stóran rúmgóðan sal með sófum, poolboði, borðtennis, þythokký, píluspjöldum og fótboltaspili ásamt nýjum hljómflutningsgræjum. Þá er sérstakt spila/hópa/fundarherbergi, leikjatölvuherbergi, sjónvarpshol og starfsmannaaðstaða/eldhúskrókur.

Starfsmenn Neons í vetur verða þau Karen Sif Róbertsdóttir sem er umsjónarmaður, Hörður Ingi Kristjánsson, Lísebet Hauksdóttir, Patrekur Þórarinsson og Ragna Dis Einarsdóttir. Reglulegar opnanir verða á mánudags- og miðvikudagskvöldum kl. 20 – 22 og svo bætast við sérstakir viðburðir og ferðir.

Unglingarnir í Neon ætla að bjóða íbúum Fjallabyggðar að koma og skoða nýja húsnæðið þegar framkvæmdum er öllum lokið. Verður sú opnun auglýst þegar nær dregur, vonandi mjög fljótlega.

Nokkrar myndir frá opnunardegi Neons

Forsíðumynd samansett úr myndum af vef Fjallabyggðar