Ársreikningur Fjallabyggðar var lagður fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn 3. maí, á fundinum
var reikningum vísað samhljóða til seinni umræðu sem fara mun fram 11. maí nk.

Helstu niðurstöður:

− Afkoma A – hluta bæjarsjóðs var neikvæð um rúmlega 184 millj.kr.árið 2021, en var
jákvæð um 26 millj.kr. árið 2020.
− Rekstrarniðurstaða samstæðu (A+B hluti) var neikvæð um tæplega 155 millj.kr. árið
2021, en var jákvæð um 77 millj.kr. árið 2020.
− Rekstrartekjur A og B hluta námu 3.279 millj.kr. á árinu 2021, en voru 3.130 millj.kr.
árið 2020.
− Rekstrargjöld ársins 2021 námu 3.232 millj.kr. en voru 2.854 millj.kr. árið 2020.
− Eignir eru samtals 6.108 millj.kr. en voru 5.953 millj.kr. árið 2020.
− Vaxtaberandi skuldir eru 285 millj.kr.(8,6% af rekstrartekjum) en voru 316 millj.kr. árið
2020.
− Veltufé frá rekstri nam 331 millj.kr. (10,1% af rekstrartekjum) en var 377 millj.kr. árið
2020 (12.1%)
− Skuldaviðmið samkvæmt reglugerð er 24,7%, en var 23.3% árið 2020. Viðmið
samkvæmt sveitastjórnalögum er að hámarki 150%.
− Eigið fé bæjarsjóðs Fjallabyggðar er 3.838 millj.kr. eða 62.8%, en var 3.898 millj.kr.
eða 65.5% árið 2020.
− Fjárfestingar á árinu 2021 námu 222 millj.kr. en áætlun gerði ráð fyrir 200 millj.kr.
− Handbært fé í árslok nam 413 millj.kr. og hækkaði um 53 millj.kr. milli ára
− Veltufjárhlutfall var 1,50.
− Rekstrarniðurstaða Hafnarsjóðs var jákvæð um tæpa 31 millj.kr.
− Rekstrarniðurstaða Hjúkrunarheimilisins Hornbrekku var jákvæð um 9 millj.kr.

Vegna áhrifa hækkunar lífeyrisskuldbindinga.

Meginástæða lakari afkomu en áætlun gerði ráð fyrir er hækkun á lífeyrisskuldbindingum vegna ytri ákvarðana um breytingar á forsendum útreikninga. Ef ekki hefði komið til umræddrar nokkuð óvæntrar reiknaðrar hækkunar lífeyrisskuldbindingar þá hefði rekstraniðurstaða samstæðu orðið jákvæð um 30 millj.kr. en rekstrarniðurstaða A-hluta hefði verið í jafnvægi.

Lífeyrisskuldbinding vegna lífeyrisréttinda starfsmanna sveitarfélagsins er færð sem skuldbinding í efnahagsreikningi á grundvelli tryggingarfræðilegrar úttektar í árslok. Reiknuð breyting á skuldbindingunni milli ára er gjaldfærð í rekstrarreikningi hvers árs.
Fjallabyggð færir til gjalda í rekstri tæpar 182 millj.kr. vegna breytingar á skuldbindingu sem kemur meðal annars til vegna breytinga á dánarlíkum, sem eitt og sér leiðir til hækkunar á skuldbindingunni um 5,7%. Áhrif breytinga á hlutfalli launagreiðanda í kjölfar endurreiknings tryggingastærðfræðings lífeyrissjóðsins á því hvernig reiknað er með að lífeyrisgreiðslur skiptast milli lífeyrissjóðsins annars vegar og launagreiðenda hins vegar hækkar um 7,7%. Áhrif hefðbundinna breytinga á skuldbindingunni er 3,8%.

Nánari upplýsingar veitir
Elías Pétursson bæjarstjóri
S: 892 0989, elias@fjallabyggd.is