Í drögum sem fjármála- og efnahagsráðherra hefur lagt fram í samráðsgátt er lagt til að frelsi fólks til ávöxtunar á séreignarsparnaði verði aukið. Lagt er til að vörsluaðilum séreignarsparnaðar verði heimilað að verða við beiðni einstaklings um að iðgjöldum hans til séreignar verði varið til fjárfestingar í tilteknum sjóði eða sjóðum um sameiginlega fjárfestingu. Það hefur í för með sér, verði frumvarpið að lögum, að einstaklingur mun sjálfur geta valið um í hvaða sjóði eða sjóðum fjárfest er til ávöxtunar sparnaðarins, en þó innan þeirra marka sem frumvarpið felur í sér.

Frumvarpið er til samræmis við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem lögð er áhersla á umbætur í lífeyrismálum. Meðal markmiða sáttmálans er að auka við valfrelsi í viðbótarlífeyrissparnaði með fjölgun fjárfestingarkosta. Lífeyrissjóðir hafa almennt vaxið mun hraðar en hagkerfið um árabil og voru eignir þeirra samtals 170% af VLF við árslok 2023. Með auknu valfrelsi og ráðstöfunarrétti einstaklinga yfir eigin séreignarsparnaði skapast forsendur fyrir meiri dreifstýringu sem er til þess fallin að auka skilvirkni og samkeppni á fjármálamarkaði.

Vörsluaðilar séreignarsparnaðar bjóða þegar upp á fjölbreyttar fjárfestingarleiðir hvað varðar ávöxtun iðgjalda til séreignar. Framboð ávöxtunarleiða fyrir iðgjöld til séreignar er töluvert auk þess sem einstaklingar velja sjálfir vörsluaðila iðgjaldanna. Val er um til hvaða vörsluaðila iðgjöld renna sem og ávöxtunarleið sem vörsluaðili býður upp á. Að öðru leyti hafa eigendur séreignarsparnaðar ekki aðkomu að ákvarðanatöku um fjárfestingu iðgjaldanna í dag. Í tillögum frumvarpsins felst möguleiki eigenda sparnaðarins á að taka virkari þátt í því hvernig ávöxtun á séreignarsparnaði er háttað.

Í frumvarpinu er lagt til að vörsluaðilum séreignarsparnaðar verða heimilt að verða við beiðni um að iðgjöldum til séreignarsparnaðar verði í heild eða að hluta varið til að fjárfesta í tilteknum verðbréfasjóðum, sérhæfðum sjóðum og/eða peningamarkssjóðum. Ástæða þess að lagt er til að heimildin nái til þessara tegunda sjóða er að almennt er talið að fjárfesting í þeim sé fremur áhættulítil og um sjóði að ræða sem standa almennum fjárfestum til boða.

Verði frumvarpið að lögum tekur heimild þess bæði til sparnaðar sem þegar hefur verið safnað, að hluta til eða í heild, sem og framtíðariðgjalda. Þá er í frumvarpinu lagt til að gert verði að skilyrði að hlutir eða hlutdeildarskírteini í þeim sjóðum sem tillagan tekur til séu innleysanleg á hverju tíma vilji einstaklingar gera breytingar á fjárfestingum sínum innan fjárfestingarleiðarinnar, skipta um fjárfestingarleið eða að færa sig á milli vörsluaðila. Einnig er í frumvarpinu lagt til að kveðið verði sérstaklega á um til hvaða iðgjalds til séreignar heimildin tekur.

Frumvarpið felur í sér heimildarákvæði fyrir vörsluaðila. Í því felst að ekki lögð skylda á vörsluaðila að verða við slíkri beiðni eigenda séreignarsparnaðar, bjóði vörsluaðili ekki upp á slíka fjárfestingarleið.

Frestur til að veita umsagnir um frumvarpsdrögin er til 18. mars næstkomandi.

Mynd/aðsend