Stórkostlegar fréttir ritar Þórarinn Hannesson á facebook síðu Ljóðaseturs Íslands og segir þar meðal annars.

“Það styttist í sólardaginn hjá okkur í Siglufirði. 28, janúar er opinber sólardagur okkar og þá sjáum við gleði- og lífgjafann mikla aftur eftir rúmlega tveggja mánaða bið.

En sólin kom fyrr upp yfir fjöllin hjá okkur í Ljóðasetrinu því í gær bárust okkur þær gleðilegu fréttir að Uppbyggingarsjóður Norðurlands eystra mun styrkja rekstur setursins um 1.200.000 kr. á þessu ári. Færum við sjóðnum okkar innilegustu þakkir fyrir.

Þar á bæ er greinilega skilningur á mikilvægi þessarar stofnunar og trú á þeirri starfsemi sem fer fram á Ljóðasetrinu.

Svona fréttir blása okkur sannarlega baráttuanda í brjóst og fullyrðum við að starfsemi Ljóðasetursins verður öflugri í ár en nokkru sinni fyrr. Met verður sett í fjölda gesta, fleiri og stærri viðburðir verða haldnir þar en áður, jákvæð umfjöllun verður meiri en nokkru sinni fyrr og bæjarbúar munu geta verið stoltir af tilurð þessarar starfsemi í menningarbænum Siglufirði.

Kærar þakkir!”