Líkt og komið hefur fram er það von þeirra sem koma að því að skipuleggja nýja Síldarævintýrið að bæjarbúar taki virkan þátt og geri þessa hátíð að sinni.

Fyrsti liðurinn í því var að kjósa um nafn á hátíðina og hlaut nafnið Síldarævintýri langflest atkvæði, eða 42%. Yfir 700 manns tóku þátt í þeirri kosningu.

Annar liðurinn var að skipta bænum upp í litahverfi og höfum við fengið mjög góð viðbrögð við því og höfum fregnir af mörgum sem byrjaðir eru að huga að skreytingum á hús sín, í garðana og á mannfólkið.

Þriðji liðurinn eru svo götugrill vítt og breitt um bæinn í upphafi hátíðarinnar, þ.e. fimmtudaginn 1. ágúst. Er þá hugmyndin að 2 – 3 öflugir grillarar komi saman með grillin sín seinni part dags og grilli fyrir íbúa sinnar götu og þeirra gesti. Þá er upplagt að vera búin að skreyta, veifa hverfislitnum, virkja hljóðfæraleikara eða hafa tónlist í græjum á kantinum og eiga góða stund saman.

Skipuleggjendur Síldarævintýrisins hafa fengið þrjá frábæra aðila til að styðja þennan viðburð: Kjarnafæði gefur pylsur, Aðalbakarí á Siglufirði gefur pylusbrauð og Kjörbúðin gefur meðlæti.

Þegar hafa nokkrir grillarar boðið sig fram og þetta eru þær götur sem búið er að dekka: Eyrarflöt, Hafnargata/Hafnartún, Laugarvegur, Eyrin og Hólavegur norður.

Skipuleggjendur vilja endilega heyra frá fleiri aðilum sem eru tilbúnir að taka að sér að grilla fyrir sína götu. Stýrihóp Síldarævintýrisins skipa: Guðmundur Óli Sigurðsson, Halldóra Guðjónsdóttir (á Kaffi Rauðku) og Þórarinn Hannesson.

Stýrihópurinn minnir einnig á fésbókarsíðuna Síldarævintýrið á Siglufirði.

Skemmtum okkur saman á Síldarævintýri.

 

Frétt: Aðsend