Fyrir skömmu sigldi Gunnar Júlíusson á báti sínum Örkinni SI með hljómsveitina Of Monsters and Men um Siglufjörð og Héðinsfjörð.

Með í för var einnig kvikmyndatökulið, alls var þetta 14 manna hópur um borð, kominn til að vinna að nýjum tónlistarmyndböndum hljómsveitarinnar. Fjögur lög voru tekin upp í lifandi flutningi með stórbrotnum bakgrunni fjallanna – tvö lög á Siglufirði og tvö í Héðinsfirði. Aðspurður sagðist Gunnar hafa haft gaman af, fólkið hafði sjálft mikla skemmtun af þessu án þess að áfengi væri með í för – og ekki var það til að spilla ánægjunni að renna út færi í Héðinsfirði þar sem fiskur var á hverjum öngli.

Of monsters and men í Örkinni – mynd: GJ



Þá gerðist það fyrr í þessari viku að Örkin varð að veita Þorleifi EA 88 aðstoð við að leggjast að bryggju á Siglufirði. Gylfi Gunnarsson skipstjóri hafði siglt Þorleifi með bilaðan gír utan úr Grímsey og gat aðeins siglt áfram. Úti á miðjum firði kom Gunnar á Örkinni og lagðist við bakborðssíðu Þorleifs og stýrði honum þannig í höfn og að bryggju. Þar fór síðan fram viðgerð hjá JE-vélaverkstæði.

Þorleifur EA 88 og Örkin “kinn við kinn” – mynd GJ

Fyrr í vor flutti Örkin tvo litla hópa ferðamanna frá Ísafirði til Jökulfjarða þar sem hvor hópur dvaldi í fáeina daga. Þá má nefna það að Örkin kom að góðum notum við fjárleitir og flutninga á sauðfé frá Hvanndölum síðastliðið haust – í góðri samvinnu við fjáreigendur á utanverðum Tröllaskaga.Þá sagðist Gunnar hafa ætlað að taka stefnuna vestur á Strandir í sumar til aðstoðar Hrafni Jökulssyni og öðru fjöruhreinsunarfólki með flutning milli nyrstu eyðifjarða – en óvíst er að af ferðinni verði. Aftur á móti er í sigtinu að koma eitthvað að fjöruhreinsun með Ragga Ragg og Lísu í Héðinsfirði þegar líður á sumarið.

Örkin – mynd: ÖK

Forsíðumynd: ÖK