Eins og lesendum ætti að vera kunnugt sýnir Leikflokkur Húnaþings vestra söngleikinn Hárið í Félagsheimilinu á Hvammstanga nú um páskana.
Nánari upplýsingar og miðapantanir á leikflokkurinn.is
Gríðarlegur undirbúningur og æfingar hafa staðið mánuðum saman til að sýningin verði að raunveruleika.
Eitt af því sem vakti athygli fréttamanns var það hvernig áhorfendasvæðið er útbúið.
Í aðalsal félagsheimilisins er búið að raða upp um 700 vörubrettum til að mynda hækkandi stalla fyrir áhorfendur, og þannig breyta húsinu í ljómandi gott leikhús þar sem allir ættu að sjá og heyra vel allt sem fram fer á sviðinu.
Meðfylgjandi myndir voru teknar í ferlinu þegar vörubrettin voru flutt úr geymslu og sett upp. Það eru leikararnir sjálfir auk leikstjóra, tæknimanna og annarra aðstoðarmanna og kvenna sem sjást vinna verkið. Myndirnar eru ekki í tímaröð, heldur raðað af handahófi.