Á vefsíðu fasteignasölunnar Hvamms má sjá að Hóll er til sölu og er óskað eftir tilboði í eignina.
Undanfarin ár hefur Hóll verið félagsheimili Ungmenna- og íþróttasamband Fjallabyggðar. Upphaflega var Hóll byggt upp sem kúabú.
Á vefsíðu fasteignasölunnar segir að Hóll félagsheimili sé áhugaverð eign staðsett rétt sunnan við Siglufjörð, stutt frá skíða- og golfsvæði bæjarins.
Um er að ræða félagsheimili á tveimur hæðum auk millibyggingar og skemmu.
Eignin er skráð steypt og með aðalbyggingarár 1939 en byggt hefur verið við húsið og er sá hluti skráður með byggingarár 1962.
Eignin skiptist í tveggja hæða félagsheimili, á neðri hæðinni er borðsalur sem rúmar um 70 manns í sæti, fullbúið eldhús, gangur, tveir búningsklefar með sturtum og wc og sauna.
Efri hæðin skiptist í gang, sjö herbergi með kojum fyrir um 30 manns, snyrtingu og setustofu. Parket og flísar eru á stærstum hluta gólfa.
Sér inngangur er inn í syðsta hluta efri hæðarinnar og skiptist það rými í forstofu, setustofu með eldhúsinnréttingu, herbergi og snyrtingu. Spónaparket, plast parket og dúkur eru á gólfum í þessum rýmum.
Millibygging er með nýju þaki og þar hafa staðið yfir framkvæmdir, búið er að koma fyrir gólfhita og byrjað er að stúka rýmið niður í snyrtingar, sturturými, forstofu o.fl.
Við endann á millibyggingunni er rúmgóð skemma með millilofti yfir. Um er að ræða ókynnt og hrátt rými með stórri innkeyrsluhurð á norðurhliðinni. Nýlegt þak er á skemmunni. Búið er að klæða norðurhlið skemmunnar og suðurhlið á millibyggingu.
Hluti eignarinnar brann árið 2013 og í framhaldi af brunanum var eignin þónokkuð mikið endurnýjuð, lagðar nýjar raflagnir í hluta, tekin inn hitaveita og lagðar nýjar ofnalagnir o.fl.
Tekið var inn nýtt kaldavatnsinntak árið 2020 og fyrir um 2-3 árum var frárennsli frá húsinu og rotþró endurnýjað.
Húsið stendur á 2500 m² leigulóð í eigu Fjallabyggðar.
Nákvæma stærð eignarinnar er ekki að finna hjá Þjóðskrá né á teikningum en ætla má að heildarstærð hennar sé á bilinu 6-700 m²