Yngra fólk notar nú meira tóbak í vör og rafrettur en hefðbundið tóbak. Dagleg notkun tóbaks í vör hefur á þremur árum þrefaldast hjá 25-34 ára karlmönnum. Hátt í 11 þúsund Íslendingar nota nú rafrettur daglega.

Þetta má lesa úr tóbakskönnun landlæknis, sem embættið gerir á þriggja ára fresti. Könnun var síðast gerð 2015 og síðan þá hefur dregið úr reykingum. Tæp 9% fullorðinna Íslendinga reykja daglega, en voru 14% árið 2012. Þær eru algengastar hjá konum á aldrinum 55-64 ára, og hjá þeim sem aðeins hafa lokið grunnskólaprófi. Daglegar reykingar eru álíka algengar hjá kynjunum en fólk með minni menntun reykir meira en þeir sem hafa lokið háskólaprófi.

Meira tekið í vörina

Dagleg tóbaksnotkun í vör hefur hins vegar aukist síðustu þrjú árin, úr 3% í 5%. Mest hefur hún aukist hjá 25-34 ára karlmönnum, úr 7% í 22%, sem er ríflega þreföldun. Notkunin er mun meiri meðal karla almennt en þó er notkun ungra kvenna mælanleg í fyrsta sinn í þessari könnun. Dagleg notkun 18-24 ára kvenna mælist nú 3% og hjá 25-34 ára konum er hún 2%.

Neftóbaksnotkun hefur hins vegar lítið breyst á þessu tímabili, er áfram um 3% hjá karlmönnum. Mest er hún  hjá 45-54 ára karlmönnum, 7%. Noktunin er mun meiri á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu.

9% ungs fólks nota rafrettur

Dagleg rafrettunotkun hefur aukist verulega og er nú um 5%. Það samsvarar því að um 10.700 Íslendingar noti rafrettur daglega, en fyrir þremur árum voru það um 1.700 manns. Þar munar mest um þá sem eru yngri en 35 ára. Um 9% þeirra nota rafrettur núna, en notkunin var vart mælanleg fyrir þremur árum. Þar vekur athygli að þeir sem bæði reykja og nota rafrettur daglega eru rúmlega tvöfalt fleiri nú en fyrir þremur árum.

Í skýrslu landlæknis kemur fram að dagleg notkun á tóbaki í vör og rafrettum eru nú algengari en daglega reykingar í aldurshópnum átján til þrjátíu og fjögurra ára. Mikilvægt sé að fylgjast með þróuninni – sérstaklega samspili notkunar á rafrettum og reykingum hjá ungmennum.

Frétt: ruv.is