Mannskepnan á það til að vera fljót að gleyma, sumum finnst t.d að minningar myndir um lífið og tilveruna á 20 öldinni í “vegalausu” lífi á norðanverðum Tröllaskaga, séu ýktar og meira passandi að svoleiðis lífs minningar tilheyri frekar, hesta bornum samgöngum á þar síðustu öld.

Það er vel við hæfði að mitt í einkennilegu umræðu umhverfi, sem svo oft skapast á Íslandi, í hvert skipti sem talað er um jarðgangagerð, að rifja upp ýmislegt um samgöngur og vegagerð á síðustu öld. Sem áminningu um að sumir vegir eru svo sannarlega börn síns tíma. Þeir eru sprottnir upp úr fjárskorti og skorti á tæknilegum lausnum.

Það er gleðjandi fyrir íbúa á norðanverðum Tröllaskaga að loksins er settur kraftur og fjármagn í að byrja vinnu í jarðgangagerð á milli Fljóta og Siglufjarðar og munu þau göng leysa út hrikalegan og stór hættulegan, yfir hálfrar aldar gamlan löngu ónýtan veg.
Sjá meira hér:

Vegurinn sem Guð gleymdi

Sjá einnig meira hér: Hrikalegar myndir af Siglufjarðarvegi

Það má samt til gamans geta að hugmyndir um jarðgöng frá Fljótum til Siglufjarðar eru um 100 ára gamlar, það var ákaft rætt um þetta löngu fyrir bæði Skarðsveg og Strákagöng.

Sem brottfluttum Siglfirðing, reynist mér það oft erfitt að lýsa fyrir öðrum vetrarhörkunni, snjóþunga og hættulegum vegum sem hanga utan í fjallshlíðum. Þar af hef ég oft birt greinar í máli og myndum sem útskýra þessa aðstæður betur. Gamla ljósmyndir kunna ekki að ljúga.
Sjá t.d. meira hér:

Snjóþungi – snjóflóð – hafís o.fl. 50 myndir

Einangrun og vega óöryggi skapar sérstakan þjóðflokk úr fólki sem býr við svona aðstæður. Það er einna helst Íslendingar á vestur og austur landi, sem og Vestmanneyingar sem skilja best fólkið í Fjallabyggð. Maður lærði snemma að hafa samgöngu-þolinmæði og að best sé að vera sjálfum sér nægur og hafa allt við hendina.

T.d. má sjá í þessari tveggja hluta myndasyrpu grein, 130 ljósmyndir og dæmi um allskyns sér aðlöguð farartæki og skrapatól:

SIGLFIRSK FARARTÆKI OG ÝMIS SKRAPATÓL. 1 HLUTI. 65 MYNDIR

Það fer oft í taugarnar á sumum Sunnlendingum Íslands, að verið sé að mylja fjármagn í “óþarfa jarðgöng” fyrir örfáar hræður, sem þar fyrir utan eru nýbúnir að fá önnur göng í austurátt. Íslendingar sem eru búsettir á Tröllaskaga eru reyndar ekki alltaf endilega á leiðinni í austurátt, en samt þakklátir fyrir að hafa fengið þann möguleika.

Fleiri sýna þessu samt skilning og sjá þessar vegabætur og Fljótagangna framkvæmdir sem þjóðvega öryggis úrbætur fyrir allt Ísland. Margir Sunnlendingar lentu nefnilega í miklum vandræðum við að aka um gamla vegi og í fleiri kílómetra lögnum biðröðum við og í einbreiðum gömlum göngum, þegar ófært var yfir Öxnadalsheiði í fyrra vetur.

Eftirfarandi Tröllaskaga staðreyndir, geta komið “staðar ókunnugu” fólki mjög svo á óvart:

A: Siglufjörður var algjörlega vegalaus bær fram til um 1946, en þá fyrst opnast loksins vegurinn yfir Skarðið… yfir sumartímann. Sem sagt, öll sú mikla síldarvinnslu uppbygging sem átti sér stað frá 1900 – 1946 kom sjóleiðina. Fólk og póstur kom samt vissulega oft loftleiðina í sjóflugvélum.

Sem sagt, þó nokkur fjöldi núlifandi Siglfirðinga eru fæddir í vegalausum firði.

ATH. Smelltu á mynd og hún birtist þér stærri.

Mynd 1:
Skarðið, (Fljótamegin)  Vinna við háspennumastur ofan við Siglufjarðarskarð. Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson.
(Já, við Siglfirðingar byggðum og áttum lengi vel eigið raforkuver. Sjá meira hér á Wikipedia: Rafveita Siglufjarðar.)

Mynd 2:
F – 151 Willys jeppi á Skarðsveginum vorið 1952. Haraldur Árnason (Halli í Sparisjóðnum) og Ólafur Guðmundsson bifreiðarstjóri “OLÍS.” Ljósmyndari: Hinrik Andrésson.

B: Allir Siglfirðingar sem eru fæddir á árunum 1946 til 1967 hafa engan vetrarveg úr bænum. Ástandið batnaði nokkuð eftir að Strákagöng opnuðu leiðina úr bænum í vesturátt 1967, en eins og sjá má á bæði forsíðumyndinni og myndunum hér undir, þá er þetta minnst sagt hrikalegur vegur.

Samt getum við Siglfirðingar, alveg viðurkennt að gamli Múlavegurinn sem tengdi Ólafsfjörð við Eyjafjörð, var mun hrikalegri.

C. Allt þar til 2010, er einungis hægt að ferðast landleiðina yfir sumartímann á milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar og þá er farið fyrst í vesturátt, gegnum Strákagöng, þar tók við vandræða vegur yfir Almennninga og upp og niður Mánárskriðu. Síðan suður öll Fljótin og þaðan upp á lélegan malarveg yfir Lágheiði til Ólafsfjarðar.

Sem dæmi um hvað krakkar sem eru aldir upp á mölinni fyrir sunnan, geta átt erfitt með skilja vetrarsamgöngu erfiðleikana á Tröllaskaga get ég nefnt að þegar ég var 17 vetra, þá kynntist ég sætri dansskóla nema stelpu sem kom með Dansskóla Heiðars Ástvalds í tveggja vikna heimsókn til Sigló um miðjan vetur. Eftir að hún fór suður hringdum við oft í hvort annað. Nokkrum vikum seinna hringir hún og segir að hún sé að fara að kenna á Ólafsfirði og vill að ég komi í heimsókn þangað…Hmm, ég reyndi að útskýra að það væri ómögulegt og hún tók þessu mjög illa og skellti á í reiðikasti. Fimm dögum seinna var hún komin í Ólafsfjörð og varð hún strax veðurteppt þar, þá hringdi hún aftur skömmustulega í mig og skildi loksins betur veðurfar og ófærð á Tröllaskaga.

Í dag geta Siglfirðingar skroppið í Austurbæ Fjallabyggðar, með korters keyrslu um Héðinsfjarðargöng.

Samgöngur og vegagerð á norðanverðum Tröllaskaga á 20. öld

Hér kemur samantekt, sem gervigreindin á ChatGPT hefur hjálpa mér við að ná saman sögulegum og fræðandi texta um samgöngur og vegagerð á norðanverðum Tröllaskaga á Íslandi á 20. öld. ATH. Greinarhöfundur bætir við myndum og eigin minningum inn á milli kafla.

Tröllaskagi, með sína háu fjallgarða og bröttu hlíðar, var lengi eitt afskekktasta svæði Íslands þegar kom að samgöngum. Á norðanverðum hluta skagans urðu miklar breytingar á samgöngum og vegagerð á 20. öld, sem höfðu djúpstæð áhrif á líf fólks í byggðarlögum eins og Siglufirði, Ólafsfirði, Fljótum og Dalvík.

Skarðsvegur til Siglufjarðar 1946 (vegur um Siglufjarðarskarð)

Áður en vegagerð hófst fyrir alvöru var Siglufjörður nánast einangraður, með takmarkaða möguleika til landsamgangna. Á sumrin var mögulegt að fara ríðandi eða gangandi yfir háan fjallvegi, en á veturna var byggðin oft innilokuð mánuðum saman.

Árið 1919 hófust vegaframkvæmdir yfir Siglufjarðarskarð, en vegurinn var ekki formlega opnaður fyrr en 1946. Þessi vegur var mikil samgöngubót og fól í sér mikla tækni áskorun – vegurinn fór í yfir 600 metra hæð yfir sjávarmáli og var oftast lokaður vegna snjóa og óveðurs á vetrum.

Strákagöng (1967)

Til að bæta samgöngur að vetri til var farið að huga að jarðgöngum. Þann 10 nóvember 1967 voru Strákagöng opnuð, um 800 metra löng einbreið jarðgöng gegnum Strákafjall vestan við Siglufjörð.
Þau voru fyrstu alvöru jarðgöngin á Íslandi og bylting fyrir vetrarsamgöngur til og frá Siglufirði.

Göngin leystu af hólmi hættulega leið yfir Siglufjarðarskarð að hluta og styrktu hagsæld og öryggi í fjórðungnum.

Mynd 2:
Táknræn ljósmynd – Á sama tíma og Strákagöng voru opnuð með viðhöfn 10. nóvember 1967, sigldi flóabáturinn Drangur inn Siglufjörð. En Drangur var áður aðal samgönguleiðin til Siglufjarðar, þá 8 mánuði +/- sem Siglufjarðarskarð var lokað vegna snjóa.

Margir Siglfirðingar minnast þess eflaust að yfir vetrarmánuðina varð maður að stoppa við báða gangnamunana og fara út til að opna stóra “bílskúrshurð” og það var talinn glæpur að geyma að loka á eftir sér.

GATIÐ! Myndasyrpa:

Strákagöng voru oft kölluð Gatið, við krakkarnir töluðum um að hjóla út í gat og á vorin fórum við stundum í eggjatöku í snarbröttum kletta-strákum og hlíðum Strákafjalls. Siglfirski ljósmynda snillingurinn Steingrímur Kristinsson var sjálfur að vinna við gerð Strákagangna og tók þar hátt í 2000 myndir og hér koma nokkrar vel valdar sögulegar myndir:

ATH. Smelltu á mynd og hún birtist þér stærri.

Sjá einnig meira hér í þáttaröð N4: Jarðgöng – Strákagöng.
Í þessum þætti, sem Siglfirðingurinn Karl Eskil Pálsson tók saman 2019, birtast einnig fleiri myndir og fréttaskot o.fl. athyglisvert sem sýna þeirra tíma gangagerðar erfiðis þrælavinnu. Einnig er þarna skemmtilegt viðtal við ljósmyndarann Steingrím Kristinsson og aðra bæjarbúa sem lýsa þeirri samgöngubyltingu sem opnun Strákagangna var 1967.

Strákagöng – Vegaskáli 1992

!992 var ráðist í framkvæmdir við byggingu vegaskála við vestanverðan gagnamunan, til að forðast grjóthrun, snjóflóð o.fl. Eins og sjá má á myndunum hér neðar, er þetta frekar hrikalegur vinnustaður.

Vegur yfir Almennninga og Mánárskriður

Á leiðinni frá Siglufirði til Ólafsfjarðar var notast við veg um Almennninga, í gegnum brattar fjallshlíðar og Mánárskriður, þar sem jarðvegshreyfingar og snjóflóð voru algeng. Þessi leið var afar varasöm, einkum á vetrum og í leysingum. Þrátt fyrir endurbætur og viðhald í áratugi var leiðin alltaf torsótt og talin ein af hættulegustu vegum landsins.

Sjálfur minnist ég þess að hafa 18 ára gamall, næstum orðið úti eftir að hafa verið einn á ferð um Hvítasunnuhelgi í maí mánuði. Ég festi bílinn í stórum skafli rétt norðan við Mánárskriður og varð síðan bensínlaus, eftir tveggja tíma baráttu við að reyna að fá bílinn lausan. Gekk síðan á móti norðan slydduhríð út á Sauðanes, sá vitaljósið annars slagið gegnum hríðina. Kom örmagna og ískaldur og bankaði upp á hjá fólkinu á Sauðanesi, sem kippti mér inn og bjargaði lífi mínu. Það eru líklega nokkuð margir sem geta sagt svipaða sögu og það var ekki af ástæðulausu að það var lengi vel Slysavarnaskýli sunnan við Mánárskriður.


Óhætt er að segja að flest allir núlifandi Siglfirðingar eiga sér angistar minningar um ferða vandræði á 25 km vegarkaflanum frá Ketilás og norður á Sigló. Hér getur maður átt von á bæði snjóflóðum, grjót og drulluskriðum ofan á ósýnilega stórhættulega jarðsigs kafla. Þar fyrir utan hafa bílar hreinlega fokið af veginum og á þessum vegi hafa átt sér stað fjölmörg hræðileg slys. Vegarkaflar með nöfnum eins og t.d. Heljartröð og Herkonugil boða ekkert gott. Samt held ég að flestir hafi samt haft mestar áhyggjur yfir að komast yfir gamla Mánárskriðuveginn.

Ég minnist þess að hafa heyrt skondna slysasögu um Siglfirðing sem flaug suður til að sækja sér splunkunýjan Volvo og svo gekk norðurferðin bara nokkuð vel eða allt fram að þeirri stundu þegar hann er að berjast við að komast yfir Márárskriður í leiðinda veðri. Hann mætir þar á miðri leið risastórum snjóblásara, neyðist til að stoppa í þröngum snjógöngum og sér að hann getur alls ekki vikið til hliðar, eða bakkað. Hann hamast á bílflautunni og blikkar ljósum, en allt kom fyrir ekki. Hann neyðist til að henda sér út úr bílnum og horfa síðan á snjóblásarann éta hálfan bílinn.

Þessi skriðu vegarkafli er gott dæmi um að ekki var hlustað á tillögur staðar kunnugra manna, rétt eins og þegar burstarbæjar þakið á nýbyggðu Mjölhúsinu hrundi, veturinn 1947.

Sjá meira hér í máli og myndum:

HRUN OG BRUNI – Myndasyrpusaga

Vegagerð um Múlafjall (Dalvík – Ólafsfjörður)

Múlavegur er vegur við utanverðan Eyjafjörð frá Ólafs- og Siglufirði inn til Akureyrar. Vegurinn var opnaður 17. september 1966. Á sama tíma var jarðstrengur lagður milli Dalvíkur og Ólafsfjarðar. Við opnun vegarins styttist leiðin milli Akureyrar og Ólafsfjarðar um 149 km. (Wikipedia: Múlavegur)

Fjöldi snjóflóða á svæðinu, sýndu fram á hættuna við veginn. Þessi staða var ein meginástæðan fyrir ákvörðun um gerð jarðganga.

Undirritaður á sér Múlavegar martraðar kenndar minningar úr KS knattspyrnu ferðalagi. Ætlunin var að keppa við Völsunga á Húsavík. Þegar við vorum á miðjum Múlaveginum, sér rútubílstjórinn að mikið grjóthrun lokar veginum. Ekkert annað í boði en að snúna við á þessum þrönga vegi, það var korters ferli og hékk afturendi rútunnar lengi vel yfir vegarbrúnina. Þetta fannst okkur guttunum frekar spennandi, sumir fóru reyndar út úr rútunni í þessu snúningsferli.

Lágheiði og vegurinn til Fljóta

Lágheiði, sem tengir Ólafsfjörð og Fljót, var söguleg fjallaleið sem notuð var í aldir. Árið 1945 var bílfær vegur gerður yfir heiðina og gegndi hann mikilvægu hlutverki í samgöngum fyrir íbúa Fljótahéraðs. Leiðin var þó aðeins fær yfir hásumarið og lokaðist oft snemma á haustin vegna snjóa.

Vegurinn um Lágheiði var síðan leystur af hólmi með tilkomu Héðinsfjarðarganga, sem tengdu Siglufjörð og Ólafsfjörð árið 2010, og þar með varð unnt að komast frá Fljótum til Eyjafjarðar allt árið um kring með bíl.
(Já, kannski, ef þú komst fyrst heill á húfi 25 km leið til Siglufjarðar)

Jarðgöng breyta öllu: Múlagöng og Héðinsfjarðargöng

  • Múlagöng (3,4 km löng) voru opnuð árið 1990 og tengdu Dalvík og Ólafsfjörð. Þau breyttu samgöngum stórlega og leiddu af sér aukna samvinnu á milli byggðarlaganna.
    Sjá meira hér í þáttaröð N4: Jarðgöng – Múlagöng
  • Héðinsfjarðargöng, tvö göng samtals rúmlega 11 km löng, opnuð árið 2010, tengdu Siglufjörð við Ólafsfjörð og þar með við Eyjafjarðarsveit og Akureyri í gegnum Dalvík.
    Sjá einnig meira hér í þáttaröð N4: Jarðgöng – Héðinsfjarðargöng

Áhrif á samfélagið

Þessar samgöngubætur á norðanverðum Tröllaskaga höfðu gífurleg áhrif á atvinnulíf, búsetu og samfélagsgerð. Þar sem áður var margra klukkustunda ferðalag með óvissu um veður og færð, urðu vegalengdir skyndilega styttri og öruggari. Verslun, þjónusta, menntun og heilbrigðisþjónusta urðu aðgengilegri. Þrátt fyrir fólksfækkun í sumum byggðum, studdu betri samgöngur við eflingu ferðaþjónustu og aukinn hagvöxt á svæðinu.

Enn og aftur blása sumir í stóra herlúðra þegar talað er um væntanlega jarðgangagerð og umferðaröryggis úrbætur á Íslandi og oft á tíðum eru sett fram lágkúruleg rök eins og Sigló sögumaðurinn Leó Ólason bendir á í þessari innsendu grein:

Fjórðu jarðgöngin til Siglufjarðar – Eða hvað?

Að lokum…

Að hafa alist upp við erfiðar samgöngur á norðanverðum Tröllaskaga, hefur skilið eftir sig ævilöng spor. Ég tek t.d. eftir því að ferðalaga áætlanir mínar fylgja alltaf ákveðnum reglum. Fyrst er athugað hvort að hitt og þetta sem gæti komið að notum ef eitthvað óvænt kemur upp á, sé örugglega með í bílnum og hann í góðu standi.
Síðan er kíkt á veðurspá næstu daga og á brottfara degi eru nánir ættingjar látnir vita, sem og þeir sem ég er á leið til. Ég læt líka oftast vita af mér á miðri leið, þetta þrátt fyrir að ég sé nú bara að keyra á frekar öruggum hraðbrautum í Skandinavíu.

Eins og nefnt var í upphafi erum við manneskjur oft fljót að geyma og sumt viljum við hreinlega ekki muna, það er því oftar en ekki gaman að skoða gamlar ljósmyndir og rifja upp liðinn samgöngu hversdagsleika. Þegar kemur að sjálfum veginum um Almenninga hefur ekki mikið breyst til batnaðar, síðan hann var tekin í notkun fyrir 58 árum. Annað en einna helst slitlag og að vegurinn við Mánárskriður hefur verið lækkaður verulega.

Við nútíma manneskjur með aðgang að allri þeirri tæknikunnáttu sem við höfum í dag höfum tilhneigingu til að oja okkur yfir þessu ástandi og oft hrekkur út úr okkur… hvað voru menn eiginlega að hugsa í denn, hverjum datt þessi vitleysa í hug og á þá það líka vel við þessa einkennilegu loka ljósmynd.

Það er einlæg ósk mín að þeir sem hafa nennt að lesa og skoða myndir alla leið hingað, sjái það augljósa að viðhald, snjómokstur o.fl. varðandi eldgamla hættulega vegi er ekki fjárhagslega forsvaranlegt og þegar við skoðum myndirnar af hrikalegum fjallgörðum Tröllaskaga, sem og vega söguna, ætti öllum að vera augljóst að jarðgangagerð það eina rétta.

Fáránlegar ábendingar um að íbúar á norðanverðum Tröllaskaga hafi ekki þörf fyrir vega úrbætur eftir tilkomu Héðinsfjarðargangna, er álíka fáránleg eins og að segja við Sunnlendinga að þegar Reykjanesbrautin lokast, að þá verða þeir bara að sætta sig við að keyra fyrst till Þorlákshafnar og þaðan gegnum Grindavík, til þess eins að komast út á Keflavíkurflugvöll.

Umferðar og samgönguöryggi allra Íslendinga þarf ekki alltaf að verða að leiðinda landsbyggðar pólitísku tuði, við verðum að geta treyst sérfræðingum Vegagerðarinnar og sætta okkur við þeirra forgangsröðun. Hér getum við tekið okkur til fyrirmyndar byggðastefnu, frænda okkar í Færeyjum og í Noregi.


Höfundur samantektar
og stafræn endurvinnsla á ljósmynda gæðum:
Jón Ólafur Björgvinsson .

Sjá meira söguefni eftir sama höfund hér:
https://trolli.is/author/nonni/

Forsíðu ljósmynd:
Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.
Allar ljósmyndir eru birtar með leyfi frá Ljósmyndasafni Siglufjarðar.

Heimildir:
Vísað er í ýmsar heimildir gegnum vefslóðir í greininni.