Mikil vitundarvakning varðandi úrgangsmál hefur átt sér stað hér á landi að undanförnu sem betur fer. Ruslabrennur heyra sögunni til líkt og galdrabrennur fortíðar. Við þurfum á því að halda að allir, ekki bara sumir, fari að líta á úrganginn okkar sem auðlind því það er hann í raun og veru.

Ný lög um meðhöndlun úrgangs og flokkunar tóku gildi um sl. áramót. Lögunum er ætlað að skapa skilyrði fyrir myndun hringrásarhagkerfis svo stuðla megi að sjálfbærri auðlindanotkun og draga úr myndun úrgangs. Lögin kveða á um, að við hvert heimili skuli flokka í fjóra flokka, þ.e. pappír og pappa, plast, lífrænan úrgang og blandaðan úrgang. Það er von mín að sem allra minnst verði í tunnunum með blandaða úrganginum.

Nú er verið að hefja innleiðingu laganna hér í Fjallabyggð og verður fjórðu tunnunni dreift til heimila í næstu viku. Ekki er lengur verið að lita-flokka tunnurnar, heldur ber að merkja þær sérstaklega. Fjórða tunnan sem íbúar fá í næstu viku verður merkt, en aðrar tunnur verða merktar í vor. Eins verða settir upp grenndargámar sem taka við gleri, málmi og textíl. Samhliða innleiðingunni er verið að undirbúa útboð á Evrópska efnahagssvæðinu líkt og öllum sveitarfélögum ber að gera. Loksins er nú tekið upp samræmt flokkunarkerfi um land allt.

Tveir líflegir kynningarfundir hafa þegar farið fram auk þess sem kynningarefni verður dreift í hús. Einnig er að finna upplýsingar á heimasíðu Fjallabyggðar og heimasíðu Íslenska gámafélagsins á íslensku, ensku og pólsku.

Samfélagslegur ávinningur

Úrvinnslusjóður er hjarta- og æðakerfi hringrásarhagkerfisins. Hringrásarhagkerfið byggir á því að lágmarka auðlindanotkun og þar með úrgangsmyndun m.a. með því að endurnota, endurframleiða og endurvinna.

Nú er innheimt með sérstökum tolli, svokallað úrvinnslugjald af innfluttum umbúðum og umbúðum sem notaðar eru utan um innfluttar vörur. Innflytjendum og framleiðendum ber að greiða fyrir endurnýtingu, endurvinnslu og/eða förgun þeirra umbúða sem þeir setja á markað og eru með framlengda framleiðendaábyrgð. Þessi tollur rennur í Úrvinnslusjóð. Með innleiðingu nýju laganna fá sveitarfélög síðan greitt úr Úrvinnslusjóði fyrir þann úrgang sem flokkaður er. En sveitarfélögin bera sjálf allan kostnað við blandaðan úrgang. Þannig er það hagur íbúa að flokka sem mest, því nú er það svo, frá síðustu áramótum, að sveitarfélög mega ekki borga með úrgangsmálum heldur er þeim skylt að innheimta gjald sem næst raunkostnaði á þjónustu. Því fer það eftir dugnaði okkar við að flokka hversu lág sorphirðugjöldin geta verið.

Það er allra hagur að álögur á íbúa séu sem minnstar. Við hér í Fjallabyggð höfum verið mjög dugleg að flokka í gegnum tíðina. Nú hvet ég okkur öll til dáða að gera enn betur og sýna í verki að við verðum með minnstu sorphirðugjöld á landinu og gerum um leið hringrásarhagkerfinu hátt undir höfði.

Sigríður Ingvarsdóttir, bæjarstjóri.