Þann 19. júlí 2020 var fyrsta skóflustungan tekin að nýbyggingu Geirs Fannars Zoega í Djúpavík á Ströndum. Í framhaldinu var steyptur kjallari eins og kom fram í frétt á Trölla þann 1. ágúst 2020. Nú 11 mánuðum síðan er húsið risið og er fokhelt.
Byggt með myndarbrag í Djúpavík
Í maí 2021 mættu smiðirnir á nýjan leik og steyptu stoðvegg og plötu undir forstofu eða bíslag eins og það er kallað hér.
Þann 4.júní 2021 mætti svo sami fríði flokkur með eitt stykki hús til samsetningar. Flutningabíllinn kom með fleka að húsinu til Djúpavíkur.
Aflestað var í grenjandi rigningu og allt hafðist þetta. Seinni ferð með efnið í húsið kom daginn eftir í aðeins betra verði. Smiðir mættu að kvöldi 4. júní og strax var hafist handa við undirbúning. Þann 8. júní var híft og neðri hring lokað og kom efri hæðin upp í kjölfarið.
Í framhaldi, þann 16. júní voru sperrur komnar og haldið lítið reisugill með vöfflukaffi.
Á þjóðhátíðardaginn 17. Júní mættu fleiri menn með ferska vinda að sunnan og þaki var lokað. Heimamenn dreif einnig að og réttu hjálparhönd af og til eins og Strandamanna er siður.
Þann 19. júní er þessum verkþætti lokið með því að klára að setja þakpappa og gera klárt fyrir klæðningu. Veðrið fagnar áfanganum með okkur í glampandi sól og blíðu.
Töluvert bras og erfiðleikar hafa komið upp eins og gengur en menn eru lausnamiðaðir og öll vandamál því sigruð. Að sama skapi hefur margt gengið sem smurt og ánægja ríkt í þessum samhenta hóp.
Geir Fannar Zoega á húsið og segir að það sé reist af virðingu og í minningu afa síns Trausta B. Magnússonar.
Húsið kallast Finnuhús eftir Guðfinnu móður Trausta, húsið er parhús og mun annar endinn nefnast eftir dóttir Geirs Fannars og kallast Kristínarhús.
Meðfylgjandi myndir eru frá uppsetningu hússins. Hægt er að smella á myndir til að sjá þær stærri.
Myndir/ Geir Fannar, Geir Þórarinn, Hjörtur Smári og Vilborg