Upprunalega er Páskahátíðin forn gyðingleg hátíð, eins og flestir vita. Hún er til orðin þegar Móse reyndi að leiða fólk sitt úr ánauð hjá Egyptum og tengist síðustu plágunni af 10, sem Guð  lét yfir Egypta ganga til að þröngva ónenfdum Faraó til að frelsa þessa þræla.  Þessi plága reið baggamuninn og því er hún tilefnið að þessari miklu fagnaðarhátíð þótt ástæðan sé ansi blóðug og myrk.

Margt er undarlegt við þessa sögu, sem finna má í annari Mósebók 11.kafla.  Til dæmis, þá er ekkert sem segir að Faraóinn hafi ekki viljað sleppa þessum þrælum, heldur var það Guð sjálfur sem herti hug hans gegn Gyðingum. Eitthvað sem kallast myndi að höndla báðum megin borðsins.


Að almættið alsjáandi þyrfti að fara í allar þessar krókaleiðir til að frelsa uppáhaldsþjóð sína er einnig ansi ótrúlegt, hvað þá ef tekið er tillit til algæsku hans og þess að hann gat haft áhrif á hugarþel konunga, eins og fram kemur. Tíu skelfilegar plágur sem leiddu af sér dauða og hörmungar fyrir blásaklaust fólk vegna þrjósku eins höfðingja, sem svo á hinn bóginn var forhertur af Guði sjálfum.

Orðið Páskar eða Pesach á hebresku, pascha á latínu, þýðir að sleppa úr, undanskilja, hoppa framhjá eða eitthvað slíkt, samanber enska nafnið Passover.  Hátíðin dregur nafn sitt af því að í síðustu plágunni lagði almættið svo fyrir að hann myndi fara í gegnum Egyptaland á miðnætti og drepa alla frumburði manna og húsdýra í hefndarskyni fyrir að Faraóinn neitaði að verða að frelsisbón Móse. (Hann var raunar búinn að drepa öll húsdýr tvisvar í fyrri plágum.) Þetta þýddi ekki bara kornabörn, kálfa og lömb etc, heldur alla þá sem voru fyrsta afkvæmi foreldra, svo þessi blóðtaka var ekkert smotterí.

Prófið að setja þetta “ljóðræna réttlæti” í samhengi við samtímann. Hugsið ykkur lítil börn í eigin fjölskyldu.  Hverjir eru frumburðir í ættinni?  Ímyndið ykkur harminn. Frumburðir eru annars ekki endilega börn, heldur fyrsta barn foreldra, svo ef það er tekið með í reikninginn má segja að allir foreldrar hafi misst afkvæmi óháð aldri.

Þær leiðbeiningar fylgdu til gyðinga að þeir skyldu fórna lambi og smyrja blóði þess á dyrastafi sína, svo alsjáandinn vissi hvaða húsum hann ætti að sleppa á morðæðisrúntinum. (Hvers vegna engar annarskonar merkingar dugðu fylgir ekki sögunni. Blóð af nýslátruðu ungviði skyldi það vera.) 

Þessu virðist Jahve hafa komið í kring til að öðlast óskipta aðdáun Gyðinga og tiltrú áður en  hann sendi þá í 40 ára eyðimerkurgöngu um nokkur hundruð ferkílómetra skika í leit að fyrirheitna landinu, sem hann hafði þó ákveðið þeim. Hring eftir hring sem endaði í gróðurlausu klungri, gersneyddu öllum landgæðum.  Móses entist þó ekki aldur til að stíga fæti á þetta draumaland, sem fasteignamiðlarinn geistlegi skákaði þeim, enda náði hann ekki nema 120 ára aldri.  Hann lagði því upp í röltið áttræður, þá fullhress þræll af öllu að skilja.

Það er fleira undarlegt við þessa sögu en fögnuðurinn yfir fjöldamorðum á börnum og vandalausum fyrir algeran óþarfa og duttlungafulla sýndaráráttu. Gyðingar eiga að hafa verið þrælar Faraós, en samt áttu þeir lömb.  Ekki bara það.  Þeir áttu dyrastafi, sem þýddi að þeir áttu hurð og væntanlega hús. Já hús, sem voru ekki frábrugðnari húsum almennings í landi kúgaranna en svo að það þurfti að merkja þau sérstaklega svo almættið alsjáandi tæki ekki feil þegar það gerði þennan líka göfuga mannamun.

Frá þessum tíma  færðu gyðingar fórnir til þessa “miskunsama” Guðs til að tryggja ímynduð forréttindi sín í kosmísku samhengi.  Fórnin hefur líka það gildi að láta í gegn sér og fórna einhverju saklausu, kæru og verðmætu til yfirbótar fyrir eigin syndir, hversu eigingjarnt sem það nú hljómar. Það var Guði þóknanlegt og hann strikaði glaður yfir syndaregistur þeirra sem slíkt gerðu. Hann fílaði ilminn af brenndu holdi sérstaklega vel að sögn.


Önnur aðferð Gyðinga til yfirbótar, sem sennilega er ennþá eldri, er að kasta syndum sínum á geithafur á táknrænan máta og reka hann síðan út í eyðimörkina þar sem hann dó úr hungri og þorsta.  Blessuð geitin kallaðist syndahafurinn (scapegoat / blóraböggull) og það er hin eiginlega táknmynd Jesú, ef ég skil það rétt.

Það er þó eitthvað  málum blandið hvernig þetta virkar. Jesús og Guð eru það sama, svo Guð fórnaði sjálfum sér í raun til að bæta fyrir hvað? Eigin glöp? Hversvegna þarf Guð að færa fórnir?  Hann sem er syndlaus og fullkominn?

Hafi hann verið að gera það óumbeðið að færa son sinn sem fórn til að losa mannfólkið undan synd sinni í eitt skipti fyrir öll, hvers vegna er þá syndin enn? Hvers vegna hreinsunareldur og helvíti? Hverju er verið að fagna? Hvað breyttist? Kannski einhver geti komið með einhverja guðfræðilega loftfimleika til skýringar þessu.

Bókstafstrúuðum klígjar ekkert við þesskonar tengingum og sjá til dæmis göfgina eina í því að Abraham var tilbúinn að skera Ísak litla 12 ára á háls og brenna hann til að ganga í augun á Guði. Hann átti kannski ekki annarra kosta völ fyrir reiðu, refsandi og afbrýðisömu almætti, að þess eigin sögn og aktan. Á sama hátt kætir sonarfórn almættisins syndum hrjáðar trúmanneskjur. Það dugir ekkert minna til að undirstrika velvildina. Þetta toppar náttúrlega allt.

Þetta eru annars langt frá því að vera verstu sögur þessarar bókar. Kannski væri það mönnum hollt að lesa þetta allt með athygli og spurn, einmitt í því sjónarmiði að láta sér ofbjóða og leggja þetta svo endanlega til hliðar. Sjá hvað virkilega stendur þarna.

Hollt er þetta sennilega með sömu rökum og að rifja upp helförina eða önnur voðaverk mannkynsögunnar í þeirri von að slíkt endurtaki sig ekki. Í þeirri von að við lærum af reynslunni og bætum okkur sem manneskjur. Biblían er að mínu mati að mörgu leyti fremur hvetjandi en letjandi til voðaverka, enda vitnar sagan ljóslega um það.  Þetta hefur allavega ekkert með kærleiksboðskap og mannlega siðbót að gera.

Það er þó huggun harmi gegn að þetta er allt saman skáldskapur, enda hefur aldrei nokkurntíma fundist nokkur staðfesting á því að Ísraelsmenn hafi verið þrælar Egypta, hvað þá að þeir hafi verið til sem þjóð yfirleitt á meintum tíma. Maður veltir þó alvarlega fyrir sér andlegu ástandi þeirra, sem suðu þessi ósköp saman.

Ef við ætlum svo að prísa þetta sem æðstu viðmið í siðgæði okkar og mati á “gæsku” og “mildi” þess sem öllu ræður, þá er er kannski vert að hafa eilitlar áhyggjur af framtíð þeirra sem erfa bláa hnöttinn. Næg eru víst teiknin því til staðfestingar.

Ég ætla mér ekki að segja að trú sé af hinu vonda. Líklega er hún nauðsynleg manninum svo hann akti ekki sem eigin guð eftir geðþótta. Öllum er hollara að lúta einhverju æðra sem gefur aðhald þótt ekki þurfi þetta yfirvald að vera svo yfirþyrmandi að endalaust þurfi að lofa það eða biðja miskunnar út í eitt. Það sýnir varla góðan húsbónda.

Til allrar hamingju þá er meðalmaðurinn það vel gerður að hann velur það besta úr þessum bókum til að tileinka sér og því má eiginlega segja að hver skrifi sína eigin biblíu eða eigi sína útgáfu af henni.

Í mínum huga má eima guðsorðið niður í einn algildan sannleika í þessum ritum, en hann er sá að koma fram við náungann eins og maður vill að hann komi fram við sig. Flóknara þarf það ekki að vera. Það eitt gæti ýtt öllum deilum, túlkunum og mistúlkunum, erjum og óeiningu um meint guðsorð.

Alvaldur skaðvaldur gefi ykkur gleðilegan Sleppúr.