Skilaboð frá Ferðamálastofu vegna Ferðagjafar til fyrirtækja í ferðaþjónustu.

Búið er að opna fyrir skráningu fyrirtækja vegna Ferðagjafar á https://ferdagjof.island.is/ 

Lög um Ferðagjöfina voru samþykkt fyrir helgi og fyrirtæki sem vilja taka við gjöfinni geta nú þegar skráð sig á Ísland.is. Appið Ferðagjöf verður gert aðgengilegt fyrir einstaklinga á næstu dögum og þá getur almenningur farið að nýta gjöfina.

Fyrirtæki eru eindregið hvött til að skoða þetta og skrá sig sem fyrst.  
Fyrirspurnir er snúa að skráningu/Ísland.is er hægt að senda á island@island.is og stafraentisland@island.is.
Fyrirspurnir varðandi skilyrði fyrirtækja og Ferðalag.is er hægt að senda á grunnur@ferdamalastofa.is.

Allir einstaklingar fæddir 2002 og fyrr fá Ferðagjöf að andvirði 5.000 kr. Gjöfin er liður í því að styðja við bakið á íslenskri ferðaþjónustu í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru og efla þannig íslenska ferðaþjónustu sem og hvetja landsmenn til að eiga góðar stundir á ferðalagi víðs vegar um landið. Nánari upplýsingar má finna á ferðalag.is.

Samkvæmt lögunum getur einstaklingur notað ferðagjöf til greiðslu hjá fyrirtækjum sem uppfylla eitt af eftirfarandi skilyrðum og hafa starfsstöð á Íslandi:

     1.      Fyrirtækjum með gilt leyfi Ferðamálastofu skv. III. kafla laga um Ferðamálastofu, nr. 96/2018.
     2.      Fyrirtækjum með gilt rekstrarleyfi skv. 7. gr. laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, nr. 85/2007.
     3.      Fyrirtækjum með gilt starfsleyfi frá viðeigandi heilbrigðisnefnd sem hefur verið gefið út vegna veitingastaða í flokki I, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, nr. 85/2007.
     4.      Ökutækjaleigum með gilt starfsleyfi frá Samgöngustofu skv. 1. mgr. 3. gr. laga um leigu skráningarskyldra ökutækja, nr. 65/2015.
     5.      Söfnum og fyrirtækjum sem bjóða sýningu gegn endurgjaldi þar sem áhersla er á íslenska menningu, sögu eða náttúru.

 

Mynd/island.is