Í dag kemur Hurðaskellir í bæinn og hrellir okkur með látum og hrekkjum og það væri af hinu góða að hann gæfi sér tíma til þess að lesa þessi 10 gömlu góðu hurðaboðorð.

“Sjöundi var Hurðaskellir
-sá var nokkuð klúr, 
ef fólkið vildi í rökkrinu 
fá sér vænan dúr.”

(Jólasveinavísa / Jóhannes úr Kötlum) 

Þá höfum við það !  „Vísindi“ í Siglfirska vikublaðinu FRAM árið 1917
Hvernig opnar og lokar þú hurðum? (10 boðorð ?)

Það er sagt, að hægt sé að dæma um lyndis einkunni manna eftir handskrift þeirra, og ýmsu þess háttar; þetta getur vel verið, en í daglegu lífi er margt smávegis, sem hægra er að fara eftir, ef vita skal um náungans innri mann.

Tökum eftir hvernig menn opna og loka á eftir sér hurðum.

10 BOÐORÐ:


1) Sá ónærgætni hrindir hurðum aftur með óvarkárni svo hávaði verður af.

2) Sá bráðlyndi skellir þeim á eftir sér svo brakar í.

3) Sá forvitni læðir hurðum opnum, og lokar þeim eins, til þess sem minnst beri á um ferð hans, ef ske kynni að hann gæti heyrt eitthvað af því sem talað er í kringum hann.

4) Óreglusamur maður gleymir að loka hurðunum, og sá skeytingarlausi gerir það svo illa, að þær lokast ekki.

5) Sá sem alltaf þykist eiga annríkt, þó ástæðulaust sé, hrindir með olnboganum á hurðirnar

6) Letinginn rekur í þær fótinn.

7) Sá hrokafulli opnar hurðina svo mikið sem hægt er þegar hann gengur um.

8) Sá óframfærni smeygir sér um sem minnsta rifu.

9) Menn með sterkan viljakraft ganga um hurðir ákveðnir og örugglega.

10) Góðhjartaðir menn, sem taka tillit til annarra, loka þeim hægt og umhyggjusamlega.

Hurðaskellir: Ljósmyndari: Guðbjörg Sólveig Jóhannesdóttir.

Heimildir:
Blaðaúrklippur frá Sigló sögusíðum Steingríms Kristinssonar
Bæjarblaðið FRAM 1916-1917.

Höfundur samantektar og myndvinnsla:
Jón Ólafur Björgvinsson.

Forsíðu ljósmynd:
Ljósmyndari, Guðbjörg Sólveig Jóhannesdóttir.

Aðrar sögur, greinar og fleira eftir sama höfund á trölli.is, sjá yfirlit hér:

AUTHOR: JÓN ÓLAFUR BJÖRGVINSSON