Tónlistin og lífið í Noregi
Jónína Ara er tónlistar- og lagahöfundur frá Hofi í Öræfasveit og ættuð frá Siglufirði. Móðir hennar er Sigrún Björg Sæmundsdóttir, jafnan nefnd Sigga Sæm. Móðuramma hennar og afi voru þau Jónína Guðbjörg Braun og Sæmundur Jónsson. Jónína var oft á Sigló sem barn hjá ömmu sinni og afa sem bjuggu þá á Hólavegi 36.
Þrátt fyrir Covid, þá hefur verið í nægu að snúast fyrir söngkonuna og lagahöfundinn Jónínu Aradóttur, sem býr í Osló í Noregi. Við heyrðum í henni síðast í vor, þegar hún tók þátt í Battle of the Bands í Noregi. Þar komst hún áfram í undanúrslit en fresta þurfti þeim viðburði vegna þeirra samkomutakmarkana sem tóku gildi í fyrstu hrinu Covid og ekki hefur verið sett ný dagsetning. Covid hefur haft áhrif á tónlistarfólk og spilamennskuna úti eins og hér heima og því er lag að vinna úr þeim spilum sem eru gefin. Þannig hefur Jónínu gefist tóm til að vinna bæði að nýju efni og bæta það eldra, auk þess sem hún hefur haldið nokkra viðburði í gegnum streymi. Aðgerðir yfirvalda í Noregi hafa verið í svipuðu ferli eins og heima, þar sem fylgst er með smitum og aðgerðir hertar ef þeim fjölgar eða slakað á ef þeim fækkar. Nú virðist sem önnur bylgja sé að koma upp þar í landi og verið að herða reglur næstu vikurnar.
Það þýðir þó ekki að slá slöku við og eru nokkur spennandi verkefni framundan hjá Jónínu sem endranær. Hún æfir og vinnur að undirbúningi tveggja tónleikaverkefna í tengslum við jólahátíðina sem framundan er. Annars vegar er um að ræða árlegu stórtónleikana Jul i Oslo, þar sem fram kemur rjóminn af íslensku tónlistarfólki sem er búsett í Noregi og hins vegar lágstemmdum tónleikum ásamt Guðbjörgu Magnúsdóttur og Gróu Hreinsdóttur sem haldnir eru í samstarfi við íslenska söfnuðinn í nokkrum kirkjum í Noregi.
Þá stefnir Jónína að því að gefa út síðustu sólóplötu sína Remember, sem kom út árið 2017, á Vínyl og vinnur hún nú að því að fjármagna verkefnið í gegnum Karolinafund. Þar er söfnun í gangi sem lýkur 5. nóvember n.k.
Af hverju að gefa plötuna út á Vínyl?
Það er mikil eftirspurn eftir tónlist á vínylplötum og ég hef fengið töluvert af fyrirspurnum um lögin mín á því formi. Ég hef gengið lengi með þessa hugmynd en ekki haft tækifæri til að vinna að þessu fyrr en núna. Ég vinn allt mitt efni sjálf eins og kostur er í kringum þetta, eins og plötuumslagið og önnur atriði sem eru mikilvæg en taka tíma. Það er frábært tækifæri að geta komið hugmyndum sem þessari í framkvæmd og með því að gera þetta með Karolinafund, þar sem aðdáendur, vinir og ættingjar geta tekið þátt og tryggt sér eintak fyrirfram er ómetanlegt.
Þessi útgáfa af plötunni Remember inniheldur níu lög af þeim tíu sem voru á upprunalegu plötunni. Breiddin á vinylnum og tíminn leyfa ekki öll lögin og því mun eitt lagið fylgja með á stafrænu formi. Lögin mín eru bæði á ensku og íslensku og í Folk Country stemmningu og eiga það allt sameiginlegt að fanga atvik í gegnum tíðina sem hafa haft áhrif á mig. Sumt er bara þess eðlis að ég vil ekki gleyma, hvort sem það er jákvætt eða neikvætt þá reyni ég að sjá eitthvað gott út úr því. Textarnir fyrir lögin munu fylgja með í plötuumslaginu og myndirnar sem prýða plötuna eru teknar af ljósmyndaranum Erlu Berglindi í náttúrunni í Rangárþingi eystra. Ég elska að vera úti í náttúrunni og leita ávallt eftir innblæstri þaðan, þó það sé lengra að fara núna eftir íslensku náttúrunni þá eru minningarnar sem ég hef að heiman sterkar.
Ég hef haft tækifæri til að ferðast mikið um Ísland síðustu ár, þar sem ég hef fengið tækifæri til að spila tónlistina mína, hitta skemmtilegt fólk um allt land og upplifa kraftinn í íslenskri náttúru. Þessar ferðir fylla mig krafti og orku og hef ég því reynt að skipuleggja tónleikaferð um landið árlega. Síðasta ferð var skipulögð í lok ágúst síðast liðinn, en þar sem önnur bylgja Covid virtist vera að fara af stað og vegna ferðatakmarkana ákváðum við að fresta för heim um óákveðinn tíma.
Hægt er að finna frekari upplýsingar um Jónínu, tónlistina hennar, viðburði framundan og söfnunina á heimasíðunni hennar www.joninamusic.com og einnig má finna allt um söfnunina fyrir Vínylplötuna á www.karolinafund.com.
Sjá fyrri fréttir:
JÓNÍNA ARA KOMST ÁFRAM Í GBOB KEPPNINNI Í NOREGI
JÓNÍNA ARADÓTTIR SKRIFAR FRÁ NOREGI
JÓNÍNA ARA Á TÓNLEIKAFERÐALAGI UM NORÐURLÖNDIN Í SUMAR