Jónína Aradóttir er söngkona og lagahöfundur, búsett í Noregi. Jónína er ættuð frá Siglufirði, sjá frétt á trolli.is hér.

Hún sendi þessar lítur til okkar á trolli.is:

“Ég er á leið “heim” nú í vikunni þar sem ég fæ það skemmtilega hlutverk að syngja með írskum karlakór í Skálholtskirkju í byrjun nóvember. Til að nýta ferðina hef ég sett upp litla tónleikaferð um landið, þar sem ég mun taka með mér gítarinn og syngja á nokkrum stöðum ásamt góðum gestum.

Alls verða tónleikarnir níu. Fyrstu tónleikarnir verða í Sjávarborg á Hvammstanga þann 23. október ásamt Hrafnhildi Ýr en þeir síðustu þann 7. nóvember á Bryggjunni í Grindavík, þar sem hljómsveitin mín sem vann með mér síðustu plötu mun veita mér liðstyrk.”

En af hverju býr Jónína í Noregi?

“Í stuttu máli og líklega klisja en þar fann ég ástina og taldi mig eiga betra tækifæri til að sinna tónlistinni. Það skemmtilega er að mér finnst Norðmenn hafa meiri áhuga á að hlusta á mig syngja íslensk lög og á íslensku.

Ég hef spilað og komið fram víða á Íslandi, sem og í Danmörku, Noregi, Hollandi og Bandaríkjunum. Ég útskrifaðist frá Musicians Institute í Los Angeles með Associate in Art and Performance gráðu árið 2013 og gaf þar út mína fyrstu EP plötu, Jónína Aradóttir. Haustið 2017 gaf ég út mína fyrstu 10 laga plötu, Remember.

Tónleikarnir í þessari ferð verða lágstemmdir þar sem ég kem til með að leika fyrir gesti nokkur vel valin lög úr eigin safni í bland við falleg íslensk dægurlög.

Hin magnaða söngkona, Hrafnhildur Ýr, verður með mér á nokkrum stöðum en við höfum spilað saman nú í nokkur ár. Hrafnhildur Ýr hefur komið fram víða um land auk þess að hafa tekið þátt í The Voice Ísland og Söngvakeppni Sjónvarpsins. Hrafnhildur stundaði söngnám við Complete Vocal Institute í Kaupmannahöfn 2017-2018 auk þess að leggja stund á lagasmíðar við Söngsteypuna í Reykjavík 2018-2019.

Eins og kom fram hér ofar þá lýkur tónleikaferðinni á Bryggjan Cafe Grindavík með hljómsveit en hana skipa frábærir tónlistamenn: Fúsi Óttars á trommur, Árni Þór Guðjónsson á gítar, Róbert Dan Bergmundsson bassa, Helgi Georgsson á hljómborð.”

Tónleikastaðir og dagsetningar eru hér neðar, en allar frekari upplýsingar er hægt að nálgast á Facebooksíðunni @joninamusic og heimasíðunni http://www.joninamusic.com

Oct. 23 Sjávarborg, Hvammstanga kl. 21:00 (Jónína Ara & Hrafnhildur Ýr)
Oct. 24 Græni Hatturinn, Akureyri kl. 21:00 (Jónína Ara & Hrafnhildur Ýr)
Oct. 25 Tehúsið Hostel, Egilsstaðir kl. 21:00 (Jónína Ara & Hrafnhildur Ýr)
Oct. 29 Cafe Vatnajökull, Öræfasveit kl. 20:00 (Jónína Ara)
Oct. 30 Pakkhúsið, Hornafirði kl. 21:30 (Jónína Ara)
Oct. 31 Suður-Vík, Vík kl. 22:00 (Jónína Ara)
Nov. 1 Skálholti með írskum karlakór
Nov. 2 Friðheimar greenhouse, kl. 20:00 (Jónína Ara & Hrafnhildur Ýr)
Nov. 7 Bryggjan Cafe Grindavík kl. 20:00 (Jónína Ara ásamt hljómsveit)

Miðar eru komnir í forsölu á midi.is og tix.is á 1.500 kr. en hægt verður að kaupa miða á tónleikastöðum ef ekki er uppselt á 2.000 kr.