Í dag, sunnudaginn 19. febrúar er konudagurinn.

Konudagur er fyrsti dagur fornnorræna mánaðarins góu, sem er sunnudagurinn í 18. viku vetrar á milli 18. og 24. febrúar. Rétt eins og fyrsti dagur mánaðarins þorra er bóndadagurinn. Þann dag minntust bændur og eiginmenn húsfreyjunnar með því að fagna góu, sem færir með sér vaxandi birtu og vorinnganginn.

Orðið konudagur varð fyrst algengt á 20. öld. Jón Árnason nefnir að vísu ekki daginn í þjóðsögunum sínum en álíka gömul heimild ætti að teljast nokkuð áreiðanleg:

Ingibjörg Schulesen kvaðst hafa kynnst bæði konudegi og bóndadegi þegar hún var sýslumannsfrú á Húsavík 1841-1861, það er áður en þjóðsögur Jóns Árnasonar komu út á prenti. Þau ummæli hennar eru þó ekki bókfest fyrr en 1898. Árni Sigurðsson nefnir konudag og bóndadag einnig í minningum sínum úr Breiðdal frá miðri 19. öld en þær voru ekki skráðar fyrr en árið 1911. Að öðru leyti er tíðni og útbreiðsla orðanna svipuð.

Konudagur kemur fyrir í sögum eftir Guðmund Friðjónsson, þjóðsögum Sigfúsar Sigfússonar og hjá nokkrum álíka gömlum eða yngri höfundum. Nær hundrað heimildamenn hvaðanæva af landinu fæddir á bilinu 1882-1912 kannast við þetta heiti dagsins. Því er ótrúlegt annað en það hafi verið býsna rótgróið í máli. Opinbera viðurkenningu hlýtur nafnið þó naumast fyrr en eftir að það er tekið upp í Almanak Þjóðvinafélagsins árið 1927 og íslenskir þjóðhœttir Jónasar frá Hrafnagili koma út árið 1934.

Sú hefð að menn gefi konum blóm í tilefni konudagsins virðist hafa hafist um miðjan sjötta áratug síðustu aldar en þá tóku blómasalar að auglýsa konudagsblóm. Þórður á Sæbóli í Kópavogi mun hafa verið upphafsmaður þess en fyrsta blaðaauglýsingin sem hefur fundist frá Félagi garðyrkjubænda og blómaverslana er frá 1957.

Heimild: Wikipedia
Mynd/pixabay