Eftir 14 ára hlé á körfuboltaæfingum hjá félaginu er nú körfuboltinn farinn að rata í körfuna aftur. Nemendur 3. – 4. bekkjar hafa nú þann möguleika að velja körfuboltaæfingar í Frístund og 18 hressir krakkar mættu á sína fyrstu æfingu sl. þriðjudag. Þjálfarar eru Þórarinn Hannesson og Patrekur Þórarinsson.

Æfingar eru aðeins einu sinni í viku og eru hugsaðar sem kynning á íþróttinni og til að ná tökum á grunnatriðum hennar. Næsta vor stendur til að setja upp lítinn körfuboltavöll á skólabalanum á Siglufirði og ættu þessir krakkar þá að geta notið sín vel þar.

Við munum láta æfingar fyrir þennan aldurshóp duga að sinni en sjáum til hvort einhverjum verður bætt við næsta vetur eða síðar.

Umf Glói varð til árið 1994, m.a. út frá miklum almennum áhuga á körfubolta á þeim tíma, og var körfubolti helsta íþróttin hjá félaginu fyrstu árin. Var félagið með meistaraflokk og yngri flokka á Íslandsmótum fyrstu árin. Um tíma voru um 100 siglfirsk börn við æfingar, en þá voru reyndar um 340 börn á grunnskólaaldri á Siglufirði, í dag eru þau um 120 og samtals um 200 í Fjallabyggð.

 


Mynd: Meistaraflokkur félagins í körfubolta tímabilið 1996 – 1997

 

Frétt og mynd: Umf Glói
Forsíðumynd: pixabay