Eins og kunnugir vita stendur rúmlega 50 metra hár strompur á eyrinni á Siglufirði. Hann var byggður fyrir langa löngu af Síldarverksmiðjum ríkisins og þjónaði þeim tilgangi að leiða afgas (reyk) frá gríðarstórri ketilstöð, sem brenndi svartolíu í þremur gufukötlum til að framleiða gufu fyrir verksmiðjurnar.

Þegar síldarvinnslan lagðist af var ekki lengur þörf fyrir gufuna og voru katlarnir teknir niður og húsið tæmt. Síðan hefur “Ketilstöðin” verið nýtt til geymslu og úrvinnslu á sorpi.

Um árabil ef ekki áratuga, voru símafyrirtækin, Neyðarlínan, FM Trölli og Lindin kristilegt útvarp, með loftnetabúnað sinn á toppi strompsins, þar sem hann er kjörstaður fyrir loftnet til að þjónusta Siglufjörð.

Fyrir nokkrum árum urðu eigendaskipti á “Ketilstöðinni” og þar með strompinum, sem eru ekki lengur í eigu heimamanna. Nýr eigandi vildi hækka leiguna fyrir loftnets-aðstöðuna svo mikið, að ekki var við unað, sem leiddi til þess að Neyðarlínan byggði nýtt öflugt mastur þar skammt frá, á lóð björgunarsveitarinnar Stráka.

Síðustu vikur hefur verið unnið að því að flytja búnað og í mörgum tilfellum setja upp nýjan á þessu mastri, sem leysir strompinn góða af hólmi. Útvarpsstöðvar þær sem voru með sín senditæki og loftnet í Hvanneyrarskál eru líka fluttar í nýja mastrið.

Til að komast upp á strompinn með nauðsynleg verkfæri, og ná loftnetunum niður þurfti sérlega stóran krana, þar sem strompurinn er um 54 metrar á hæð. Í fyrstu atrennu sökk kraninn svo mikið niður í planið við ketilstöðina að keyra þurfti viðbótar möl í það til styrkingar. Kranar af þessari stærð eru ekki á hverju strái, en Árni Helgason verktaki í Ólafsfirði er vel búinn tækjum og tólum af ýmsu tagi, og var kraninn fenginn hjá honum.

Nú er bara að bíða og sjá hvaða hlutverk “Ríkis-reðurinn” fær í framtíðinni.

Ljósmyndari Trölla tók nokkrar myndir þegar verið var að taka niður síðustu loftnet símafyrirtækjanna.

loftnetsmastur
Nýja mastrið sem tók við hlutverki strompsins

Myndband sem Steingrímur Kristinsson tók með stórri aðdráttarlinsu